Suðurkóreski miðillinn NK News skýrir frá þessu og vitnar í tilkynningu frá norðurkóreskum yfirvöldum um að öll samfélagsstarfsemi skuli stöðvuð í fimm daga í höfuðborginni.
Ekki kemur fram í tilkynningunni að um COVID-19 sé að ræða en væntanlega er það einmitt COVID-19 sem herjar á borgarbúa þessa dagana. Þegar norðurkóresk yfirvöld játuðu loks á síðasta ári að veiran hefði náð til landsins höfðu þau einmitt talað um ónafngreindan öndunarfærasjúkdóm dagana á undan.
NK News segir að borgarbúar verði að halda sig heima þar til á miðnætti á sunnudaginn og að þeir verði að láta mæla líkamshita sinn nokkrum sinnum á dag.
Miðillinn sagði í gær að svo virtist sem borgarbúar væru að hamstra vörur vegna yfirvofandi stöðvunar samfélagsstarfsemi.
Ekki er vitað hvort gripið hefur verið til álíka aðgerða annars staðar í þessu harðlokaða einræðisríki.