Bærinn Lytton í Bresku Kólumbíu hefur verið töluvert í fréttum að undanförnu en þrjá daga í röð, á sunnudaginn, mánudaginn og þriðjudaginn, voru hitamet sett í bænum en þá mældist hæsti hiti sem mælst hefur í Kanada frá upphafi mælinga. Hæst fór hitinn í 49,7 gráður á þriðjudaginn. Nú er bærinn aftur í fréttum en ekki vegna hitamets heldur vegna skógarelda sem herja á svæðið.
Allir 250 íbúar bæjarins hafa verið fluttir á brott. BBC segir að um 90% bæjarins hafi brunnið. Ekki er vitað hvort manntjón hefur orðið í eldhafinu.
Jan Polderman, bæjarstjóri, sagðist hafa verið heppinn að sleppa lifandi úr bænum. „Það er ekki mikið eftir af Lytton. Það var eldur alls staðar,“ sagði hann.
Tók til sinna eigin ráða eftir að dóttir hennar var myrt og það átti eftir að kosta hana lífið – Ævintýraleg barátta syrgjandi móður sem bauð glæpagengi birginn