Maine verður fyrsta ríki Bandaríkjanna til að banna notkun frauðplasts. Janet Mills, ríkisstjóri Maine, skrifaði í vikunni undir frumvarp um þetta en bannið tekur gildi þann 1. janúar árið 2021.
Frumvarpið gerir það að verkum að einnota frauðplast, til dæmis utan um heitan mat og heita drykki, verður bannað. Tekur bannið til dæmis til veitingastaða og matvöruverslana í Maine.
Frauðplast hefur skaðleg áhrif á umhverfið og er ákaflega lengi að brotna niður. Þegar það loksins gerist verður til örplast með tilheyrandi mengun. Hafa umhverfissérfræðingar bent á það að frauðplastið sé svo létt og mörg dæmi séu um að það fjúki út í sjó með tilheyrandi mengun fyrir lífríki sjávar.
Búist er við því að yfirvöld í Maryland, Colorado, Oregon og New Jersey muni fylgja fordæmi Maine og banna notkun frauðplasts áður en langt um líður.