Nýjasta, og jafnframt síðasta, serían af Game of Thrones var frumsýnd í New York í gær, en meðal gesta var íslenski kraftajötuninn Hafþór Júlíus Björnsson, sem er hvað þekktastur fyrir að leika Fjallið í Game of Thrones. Blaðamaður Page Six náði í skottið á Hafþóri í eftirpartíinu og spurði hann meðal annars um matarvenjur sínar.
„Ég get lyft 450 kílóum og ég borða tíu þúsund kaloríur á dag. Ég þarf að borða á tveggja tíma fresti,“ segir Hafþór í samtali við blaðamann og eiginkona hans, Kelsey Henson skerst í leikinn.
„Hann borðar mikið. Við þurfum vörubíl þegar við verslum í matinn. En það er allt í lagi – hann getur dregið vörubíl með berum höndum.“
Í viðtalinu segist Hafþór jafnframt vera að undirbúa sig fyrir kraftakeppni í Englandi og hafi því ekki tíma fyrir leiklistarhlutverk, þó mörg slík berist honum reglulega.