fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
HelgarmatseðillMatur

Heiðarlegur sælkera helgarmatseðill í boði Ebbu Guðnýjar

Sjöfn Þórðardóttir
Föstudaginn 22. apríl 2022 16:19

Ebba Guðný býður upp á girnilegan og bráðhollan helgarmatseðil þessa helgina. Mynd/Gunnlöð Jóna.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heiðurinn af hinum girnilega helgarmatseðli að þessu sinni á engin önnur en hin fjölhæfa Ebba Guðný Guðmundsdóttir. Ebba Guðný er allt í senn, menntaður kennari, heilsufyrirlesari, sjónvarpskona, leikkona, bókaútgefandi, mamma og húsmóðir.

Ebba Guðný er þekkt fyrir bækurnar sínar og þættina Eldað með Ebbu. En þættirnir hennar hafa verið seldir til margra landa, sem er nokkuð sérstakt fyrir íslenskan matreiðsluþátt.

Vert er að geta þess að Eldað með Ebbu bækurnar fást á pureebba.com og þar eru allar allar hennar uppáhalds uppskriftir saman komnar. „Ég hef alltaf haft mikla ánægju af því að borða góðan mat og aldrei verið matvönd. Þegar ég byrjaði að búa bauð mamma mér á námskeið hjá Sólveigu Eiríksdóttur þar sem ég lærði að búa til grænmetisrétti. Ég fór í kjölfarið á fleiri námskeið. Þess vegna hef ég alltaf eldað mjög mikið af grænmetisréttum þó ég hafi alltaf líka borðað kjöt og fisk. Í dag er reyndar dóttir mín grænmetisæta sem borðar fisk þannig að það hentar mjög vel að hafa grænmetisrétti fyrir alla nokkrum sinnum í viku. Einnig eru linsubaunir ódýr próteinríkur þurrmatur. Gott er að blanda saman korni og baunum til að fá gott próetin úr máltíðinni og svo má ekki gleyma fitunni með.“

Hér eru á ferðinni girnilegir sælkeraréttir sem eiga vel við um helgina og dásamlega ljúffengir hollir eftirrétta-bitar sem gleðja bragðlaukana. Umfram allt er þetta heiðarlegur sælkera helgarmatseðill þar sem mikil áhersla er lögð á gæði og hollustu og bragð.

Kínóasalat

2 dl kínóa og 3 ½-4 dl vatn

1 stk. fetaostur/kubbur eða ½-1 krukka fetaostur mínus olían

sjávarsalt og pipar eftir smekk

½-1 stk. hvítlauksrif, raspað

1 cm engifer, raspaður

½ dl ólífuolía

⅓-½ dl sítrónuólífuolía

2 msk. hampfræ og 2 msk. kóríanderfræ (eru pínulítil, krydd – ekki sleppa – svo góð)

1-2 lúkur af ferskri basilíku

70 g íslenskt klettasalat

½ líme, safinn

10 litlir íslenskir tómatar eða nokkrir sólþurrkaðir

100 g ristaðar furuhnetur (eða aðrar hnetur sem ykkur finnst góðar)

Aðferð

  1. Ristið kínóað í potti
  2. Sjóðið kínóað í saman potti í um 3 dl af vatni við vægan hita í um 15 mínútur eða þangað til allt vatn er gufað upp. Bætið við vatni ef þarf. Quinoað á að vera mjúkt er soðið. Ekki lengur hart.
  3. Setjið fetaostinn í nokkuð stóra skál með sjávarsalti og pipar, hvítlauk, engifer og ólífuolíu (ég raspa hvítlaukinn og engiferinn. Líka hægt að nota hvítlaukspressu).
  4. Setjið soðið kínóað í stóra salatskál og hellið sítrónuólífuolíu yfir, um ⅓-½  dl eða eftir smekk.
  5. Dreifið hamp- og kóríanderfræjum yfir kínóað.
  6. Því næst setjið þið basilíkuna
  7. Skerið klettasalatið aðeins (svo auðveldara sé að borða það) og setjið svo jafnt yfir og kreistið lime safa yfir það.
  8. Skerið tómatana og dreifið yfir salatið
  9. Hellið svo fetaosts-blöndunni yfir og að lokum setjið þið ristuðu furuhneturnar.

„Eins og sést á myndinni var ég í stuði þarna og bætti við bökuðum gulrótum og avókadó. Það er það góða við svona salat, maður getur poppað það upp og niður og út og suður eftir því hvað maður á til og langar í.“

Uppáhalds linsusúpan

1 laukur (má nota blaðlauk)

2 msk. paprikukrydd

2 lárviðarlauf

2 hvítlauksrif (ég set oft meira)

1 rauð/gul paprika (ég sleppi henni á veturna þegar ekki er til íslensk)

½-1 sæt kartafla (fer eftir stærð, 1 ef lítil)

1 kúrbítur

1 lúka ca brokkolí (má sleppa)

2 dl rauðar linsur

700 ml vatn

400 ml kókosmjólk (aukaefnalaus)

400 ml niðursoðnir tómatar eða tómatar í krukku (passata)

2 teningar af lífrænum grænmetisteningum

Himalayasalt og svartur pipar eftir smekk

Aðferð:

Skera laukinn og steikja í vatni með kryddinu á meðan þið skerið afganginn af grænmetinu og setjið jafnóðum í pottinn og hrærið í á milli. Skolið linsubaunirnar í sigti og skellið í pottinn ásamt vatni, kókosmjólk, tómötum og krafti. Látið sjóða í um 20 mínútur. Kryddið með salti og pipar og berið fram með ostabollum t.d. og ólífuolíu og salti. Sjá einnig pönnubrauð á Instagraminu mínu Pureebba. Þau eru einföld, fljótleg  og ljúffeng.

Notið endilega það grænmeti sem þið eigið til. Ég mæli samt með því að nota smá af sætri kartöflu, hún gefur gott bragð í þessa súpu.

Mynd/Jóhann Máni Jóhannsson.

 

 

 

 

 

 

Ostabollur í muffins-formum – Klassískar!

350 g gróft spelt

3 tsk. víntsteins lyftiduft

1 tsk. sjávarsalt

1-2 dl heitt vatn

100 g rifinn ostur (mozzarella)

3-4 msk. hvítlauksolía (eða ólfífuolía og 1-2 hvítlauksrif)

200 ml kókosmjólk eða lífræn hrein jógúrt

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Blandið öllu saman, þurrefnum fyrst.
  3. Hrærið bara eins og þarf, ekki of mikið svo deigið verði ekki seigt.
  4. Setjið í muffins-form (það gera um 15 bollur) og bakið í um 15-18 mínútur.

Ef þið eigið ekki muffins-form, setjið þið bara doppur á bökunarpappír og skellið í ofninn. Bökunartíminn fer eftir stærð bollanna. „Þessar eru alltaf borðaðar með ólífuolíu og sjávar- eða himalayasalti.“

Mynd/Árni Torfi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ítölsk risotto og bygg súpa

1½ dl lífrænt íslenskt bankabygg lagt í bleyti í 2 klukkustundum áður með 1 msk. af sítrónusafa (má vera lengur í bleyti og má sleppa ef enginn tími. Má líka vel nota hýðishrísgrjón)

1-1 1/2 dl rauðar eða brúnar linsur

2 cm biti/ræma af kombuþari (skola hann fyrst og henda svo í pottinn – má sleppa en gerir baunirnar auðmeltari)

Rúmur 1 l vatn

2 vænar msk. af lífrænum msg-lausum grænmetiskrafti

1 tsk. sjávarsalt

1 msk. oreganó

1 msk. timian

1 stór laukur

5 hvítlauksrif

6-8 íslenskar gulrætur

Parmesan ostur eftir smekk eða annar góður ostur

Aðferð

  1.         Skolið byggið í sigti undir rennandi köldu vatni og skellið í pott, skolið linsurnar næst og setjið í pottinn ásamt kombu, vatni, krafti, sjávarsalti, kryddi, lauk og hvítlauk.
  2.         Látið suðuna koma upp.
  3.         Þvoið gulræturnar og flysjið ef þarf, skerið þær í bita og bætið út í.
  4.         Leyfið súpunni að sjóða við vægan hita í 45-60 mínútur.
  5. Berið fram með rifnum parmesan, kaldpressaðri ólífuolíu og steinselju eða öðrum ferskum kryddjurtum eftir smekk.

„Það er ómissandi að bera hana fram með ólífuolíu, parmesan og/eða rifnum mozzarella eða öðrum osti.“

Einföld og holl hrákaka

2 bollar hnetur ( 1 3/4 bolli pekanhnetur og 1/4 bolli kasjúhnetur/möndlur ekki verra ef ristaðar og saltaðar. Ég rista oft sjálf þangað til fallega ljósbrúna og salta smá með góðu salti)

2 bollar tæpir þurrkaðir ávextir (1 3/4 bolli döðlur plús 3 fíkjur, 3 apríkósur og 3 sveskjur ca)

Lífrænt gróft hnetusmjör eða Rapunzel möndlu-, kókos- og döðlusmjör

Súkkulaði að eigin vali

Ebba Guðný mælir með því að kaupa lífræna þurrkaða ávexti sem eru með engum aukaefnum (eins og brennisteinssýru/sulphur dioxide).

Aðferð:

Mala smátt hneturnar og salta ögn.

Bæta við þurrkuðu ávöxtunum og mauka vel saman. Setja 1-2 msk vatn út á í lokin á meðan vélin er enn að vinna allt saman.

Setja í form og þjappa vel niður. Botninn á að vera um 1-½ cm á þykkt.

Setja hnetusmjör eða Rapunzel maukið ofan á. Salta aðeins.

Bræða súkkulaði og setja á kökuna.

Skreyta með nokkrum salthnetum ef þið notuðuð hnetusmjör á botninn eða ristuðum kókosflögum

Bera fram með rjóma

Mér finnst líka gaman að setja hana í hringlaga form með gati í miðjunni. Þjappa vel í formið og snúa henni svo við á fallegan kökudisk. Setja þá hnetusmjör eða Rapunzel maukið á plús salt og svo súkkulaði. Setja svo ávexti í miðjuna og bera fram þannig. Hún geymist í 2-3 vikur í kæli í loftþéttu íláti.

Fylltar döðlur

Ég kaupi medjool döðlur með steini oftast til að nota í þessa uppskrift. Þessar er dásamlegt að eiga í kæli til að gæða sér á með kaffinu. Þær geymast vel í loftþéttu íláti inni í ísskáp í að minnsta kosti 2-3 vikur.

Aðferðin er einföld. Þið takið steininn úr döðlunni og setjið í staðinn um það bil ½-1 tsk af möndlu-, kókos- og döðlusmjör frá Rapunzel innan í. Húðið með súkkulaði og skreytið ef þið viljið. Látið storkna og geymið svo í kæli. Ég nota bökunarpappír undir döðlurnar þegar ég er að húða þær með súkkulaði. Gerið eins margar í einu og þið nennið. Það má líka nota möndlumauk innan í eða hnetusmjör.

Hér er svo á ferðinni dásamlegur og einfaldur morgunmatur eða hádegismatur sem auðvelt er að taka með sér í krukku í vinnuna eða skólann: Soðið quinoa, epla- eða mangóbitar og sítrónuólífuolía eða ólífuolía og smá sítrónu- eða lime safi.

Mynd/Árni Torfi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa