fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Matur

Þetta borðar Eva Laufey á venjulegum degi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 23. apríl 2020 17:00

Eva Laufey Kjaran Mynd: DV: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir er Íslendingum góða kunn sem fjölmiðlakona, sjónvarpskokkur og vinsæll bloggari. En hvað ætli Eva Laufey borði á bak við tjöldin?

Hefðbundinn dagur í lífi Evu Laufeyjar

„Ég vakna alla daga 06.30, langbest ef ég næ að fara fram á undan fjölskyldumeðlimum og drekka fyrsta kaffibollann í rólegheitum. Svo er það bara að koma stelpunum mínum á fætur og í leikskóla, ég hef mig til og fer til Reykjavíkur í vinnu. Við búum á Akranesi,“ segir Eva Laufey.

Eva Laufey starfar hjá Stöð 2 við dagskrárgerð og í útvarpi. Hún byrjar dagana á því að útbúa lista fyrir daginn og reynir eftir fremsta megni að komast yfir og svara tölvupóstum.

„Ég er í almennri þáttargerð og í Íslandi í dag þannig ég skipti því á milli daga, ég undirbý tökur, leita að viðfangsefni, fer í upptökur, klippi efnið og kem því frá mér. Ég er með útvarpsþátt á Bylgjunni á laugardögum með Svavari Erni og alla vikuna erum við að skoða skemmtilegt efni og ég er því alltaf með augun opin fyrir viðmælendum og efni fyrir þáttinn okkar.“

Einhvern tíma yfir daginn reynir Eva Laufey að koma hreyfingu að.

„Það er nauðsynlegt fyrir mig. Stundum í hádegi ef ég kemst frá eða á kvöldin þegar stelpurnar sofna. Ég sæki svo stelpurnar mínar, og þá höfum við góðan tíma til þess að leika og síðan förum við að útbúa kvöldmatinn. Svo sinni ég einnig verkefnum á samfélagsmiðlunum mínum og reyni daglega að koma efni þangað inn. Svo er það bara almennt sjónvarpsgláp eða lestur og reyni að vera komin upp í rúm fyrir 23.00.“

Eva Laufey reynir að borða hollt og fjölbreytt á hverjum degi.

Borðar fjölbreytt

Fylgirðu einhverju sérstöku mataræði?

„Ég fylgi engu sérstöku mataræði, hef aldrei náð tökum á því að fylgja ákveðnu mataræði enda svosem aldrei gefið því séns. Ég borða mjög fjölbreytt, bæði hollt og óhollt inn á milli. Ég trúi því að allt sé gott í hófi og ég leyfi mér að borða það sem mig langar í hverju sinni,“ segir Eva Laufey.

Ertu mikið í eldhúsinu heima eða færðu nóg af því í vinnunni?

„Ég fæ stundum nóg ef ég er í upptökum í eldhúsinu heima hjá mér, þá nenni ég yfirleitt ekki að elda en alla jafna er ég mikið í eldhúsinu og mér finnst það geggjað, það er mín hugleiðsla og mér líður mjög vel þar. Það er sérstaklega skemmtilegt að vera með stelpunum mínum í eldhúsinu, þær eru mjög duglegar,“ segir Eva Laufey.

Uppáhalds máltíð

„Erfitt að velja eina uppáhalds máltíð – það fer bara eftir stuðinu hverju sinni. Um daginn eldaði ég æðislega gott humarfyllt ravíólí og ég myndi segja að það væri ein besta máltíð sem ég hef eldað, namm.“

Þitt besta ráð tengt mat og eldamennsku?

„Að vera óhrædd/ur við að prófa nýjar uppskriftir og þora að láta vaða og prófa sig áfram. Ég trúi því að allir geti eldað og það þarf bara að prófa sig áfram.“

Matseðill Evu Laufeyjar

Morgunmatur:

Yfirleitt borða ég ekki fyrr en um hádegisbil en stundum fæ ég mér hafragraut með banana, hörfræjum og smá möndlumjólk.

Millimál:

Ég elska að fá mér gott boozt, og það er tilvalið millimál og frekar einfalt. Ef ég fæ mér hafragraut snemma að morgni er ég yfirleitt orðin svöng aftur um 10.00 leytið og fæ mér þá góðan boozt. Stundum finnst mér líka æðislegt að fá mér eitt crossaint og kaffi, það er spari.

Hádegismatur:

Gott salat er uppáhaldið mitt í hádeginu eða góður fiskréttur með miklu grænmeti, ég vil eitthvað hollt, orkumikið og gott sem gefur mér góða orku út í daginn. Ég er ekki hrifin af mjög sveittum mat í hádeginu því það er bara ávísun á það að ég verði löt það sem eftir lifir daginn.

Millimál nr. 2:

Hrökkbrauð með lárperu, tómötum, eða bara osti og smá sultu. Hummus og grænmeti er líka frábær kostur og stundum bara eitt gott egg. Svo stelst ég líka í súkkulaðibita af og til með kaffibollanum.

Kvöldmatur:

Ég er sólgin í fisk og reyni að elda hann 2-3 í viku, annars er matseðillinn mjög fjölbreyttur. Kjúklingur, fajitas, góðir pastaréttir og svo framvegis. Fjölbreytt og gott!

Mexíkópanna sem þú verður að prófa.

Uppskrift sem er vinsæl á heimili Evu Laufeyjar

Hráefni

*Uppskriftin miðast við fjóra

600 g kjúklingabringur, skornar í litla bita

1 msk ólífuolía

3 msk fajitas krydd

Salt og pipar

½ laukur, skorinn í strimla

½ rauð paprika, skorin í strimla

½ græn paprika, skorin í strimla

5 sveppir, smátt skornir

2 hvítlauksrif, pressuð

3 dl tómata passata

½ kjúklingateningur

5 msk rjómaostur

1 dl maísbaunir

Tortillavefjur

Rifinn ostur, bæði pizzaostur og cheddar

Lárperur

Sýrður rjómi

Kóríander

Aðferð:

  1. Forhitið ofninn í 180°C.
  2. Hitið olíu á pönnu, helst pönnu sem þolir að fara inn í ofn.
  3. Steikið kjúklinginn upp úr olíu, kryddið til með fajitas kryddi, salti og pipar. Bætið grænmetinu út á pönnuna og steikið áfram þar til mjúkt í gegn.
  4. Hellið tómata passasta saman við og myljið kjúklingateninginn yfir.
  5. Blandið öllu vel saman og bætið rjómaostinum saman við í lokin. Lækkið hitann og leyfið réttinum að malla við vægan hita í 10 mínútur.
  6. Hellið kjúklingablöndunni í skál, raðið tortillavefjum í sömu pönnu en ef þið eruð ekki með pönnu sem þolir að fara í ofn þá notið þið eldfast mót. Fyllið pönnukökurnar með kjúklingafyllingunni og  sáldrið rifnum osti yfir og magnið af ostinum fer eftir smekk.
  7. Inn í ofn við 180°C í 10-15 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa