Franskar eru gríðarlega vinsælar um heim allan og bornar fram með ýmsum mat. Hér eru nokkrar staðreyndir sem þú vissir hugsanlega ekki um þetta vinsæla matvæli.
Saga franskanna er mjög flókin og halda Frakkar, Spánverjar og Belgar allir því fram að þeir hafi fundið upp frönskuna. Hins vegar er algjörlega óljóst hver saganna er sönn, en Belgar hafa barist mjög fyrir því að fá franskarnar viðurkenndar sem belgískar. Þeir halda því fram að nafnið sé komið til út af nálægðinni við Frakkland á meðan Frakkar segja að franskar hafi fyrst verið seldar árið 1789 á götuhorni í París. Svo eru það Spánverjarnir, en þeirra helstu rök eru sú að þeir voru fyrstir til að flytja kartöflur yfir Atlantshafið. Uppruni franskanna er því enn þann dag í dag hulin ráðgáta.
Thomas Jefferson, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, féll fyrir frönskum þegar hann starfaði í Frakklandi. Þrællinn hans, James Hemings, hélt áfram að búa til franskar fyrir forsetann þegar þeir sneru aftur til Bandaríkjanna og kynnti forsetinn Bandaríkjamenn fyrir frönskum kartöflum.
Um það bil sjö prósent af öllum kartöflum sem vaxa í Bandaríkjunum enda sem franskar á skyndibitastaðnum McDonald‘s. Þar af leiðandi selur McDonald‘s fleiri franskar en nokkur annar staður í Bandaríkjunum.
Samkvæmt National Geographic borðar meðal Bandaríkjamaður 13,6 kíló af frönskum kartöflum á ári hverju.
Eins og áður segir hafa Belgarnir barist hart fyrir frönskunum og það er meira að segja til safn um franskar kartöflur í Bruges í Belgíu. Það heitir Frietmuseum og geta gestir lært um sögu kartöflunnar og smakkað franskar, svo fátt eitt sé nefnt.
Þegar að Frakkar lögðust gegn áætlun Bandaríkjamanna að ráðast inn í Írak árið 2003 var nafni á frönskum í mötuneyti bandaríska þingsins breytt í frelsisfranskar. Þannig var „french“ (eða franskar) tekið úr nafninu og vonuðu þingmenn að nafnið frelsisfranskar (e. Freedom fries) myndi haldast. Það gerði það hins vegar ekki og voru gömlu góðu „french fries“ settar aftur á matseðilinn árið 2006.
Þó þú haldir að franskar séu eitt það versta sem þú lætur ofan í því þá er samt næring í þeim. Kartafla er grænmeti og inniheldur ýmiss næringarefni eins og B6 vítamín, C-vítamín, magnesíum og járn.
Maður spyr sig oft að því af hverju franskar á veitingastöðum séu miklu betri en þær sem maður gerir heima fyrir. Það er af því að flestir veitingastaðir djúpsteikja franskarnar tvisvar.
Fyrsti sjálfsalinn fyrir franskar var afhjúpaður árið 1982 í Ástralíu og kallaður einfaldlega Herra Franska. Síðan þá hafa ýmsir sjálfsalar dúkkað upp, til að myna í Kína, Belgíu, Ísrael, Slóvakíu og Hollandi.
Þó ótrúlegt megi virðast þá er minni fita í þykkari frönskum. Það er af því að fita helst í stökkum köntunum og mjóar franskar eru nánar bara stökkar. Þykkari franskar eru hins vegar mjúkar að innan og þar er sterkju að finna, ekki svo mikla fitu.