„Hún gat ekki eldað. Prinsessan var afleitur kokkur. Hún var það virkilega. Ég skildi í raun alltaf eftir tilbúinn mat fyrir hana,“ segir Darren McGrady, fyrrverandi konunglegi kokkurinn, í viðtali við Hello Magazine.
Darren segir að prinsessan hafi treyst á konunglega kokkinn í einu og öllu og að hann hafi þurft að skilja eftir einföldustu eldunarleiðbeiningar fyrir hana.
„Ég vann mánudag til föstudags og skildi mat eftir í ísskápnum fyrir helgina, eins og fylltar paprikur sem hún elskaði að fá sér í hádegismat um helgar. Ég setti plastfilmu yfir þær og orðsendingu með tölustafnum 2, og það sagði henni að setja þær í örbylgjuofninn og ýta á 2. Svo afleitur kokkur var hún,“ segir hann og bætir við að hann hafi dvalið með fjölskyldunni um helgar þegar drengirnir Vilhjálmur og Harry voru heima við.
„Þegar strákarnir voru heima eldaði ég um helgar líka en ef prinsessan var ein heima var ég í fríi um helgar og skildi eftir mat fyrir hana.“