Viktor Sigurjónsson, sölu- og markaðsstjóri Gæðabaksturs, og Pétur S. Pétursson, framleiðslustjóri fyrirtæksins mættu í Bítið í gærmorgun. Umræðuefnið var af hverju laufabrauð sé svona dýrt. Deginum áður hafði þættinum borist ábending um að hráefniskostnaður væri lítill og ekki mikið verk að búa laufabrauð til. Þetta segja þeir Viktor og Pétur af og frá.
„Það er talsvert þarna á bak við,“ segir Viktor. „Í rauninni er mesta vandamálið að fletja út deigið. Þetta er svo örþunnt og viðkvæmt að þetta brotnar mjög auðveldlega. Það er ekki í boði.“
Pétur tekur undir það og bætir við að fjórir mánuðir á ári fari í laufabrauðsgerð hjá fyrirtækinu.
„Það er alveg ferli á bak við þetta. Við erum sextán manns í þessu þannig að handtökin eru mjög mörg. Það má ekki gleyma því að handverk bakarans, auðvitað kostar það tíma og peninga,“ segir hann.
Gæðabakstur framleiðir bæði ósteikt, frosið laufabrauð og steikt laufabrauð. Þó hráefniskostnaðurinn sé ekki mikill, telur þó allt að sögn Péturs.
„Það er ekkert gefins. Hveiti kostar alveg. Það er hellingur af deigi sem fellur frá í framleiðslunni. Allt upp í þrjátíu prósent sem við verðum að urða því það er ekki hægt að nota það,“ segir hann. Bætir hann við að flest í ferlinu sé handgert þar sem ekki eru til vélar til að framleiða laufabrauðið með einfaldari og fljótvirkari máta.
Viktor segir verðlagninguna sanngjarna.
„Það er síður en svo að verið sé að leggja meira á þessa vöru. Við erum að leggja á það sem telst eðlilegt,“ segir hann og undirstrikar umfangið í laufabrauðsframleiðslu.
„Her manna í fjóra mánuði á ári – sextán manns. Þetta er svona eins og páskaeggjasísonið.“
Gæðabakstur framleiðir um milljón laufabrauðskökur þessa fjóra mánuði, en fimmtíu prósent af allri laufabrauðssölu fyrirtækisins liggur í ósteiktu laufabrauði sem fólk kaupir frosið til að steikja sjálft.
Hlusta má á viðtalið í heild sinni með að smella hér.