Fjöllistakonan og flotþerapistinn Ellý Ármannsdóttir passar mataræði sitt mjög vel og borðar eingöngu það sem lætur henni líða vel. Hún kennir líkamsrækt í Reebok Fitness, stundum tvisvar á dag, og leggur mikið upp úr hollri og góðri næringu. Ekki skemmir fyrir að kærasti hennar, Hlynur Jakobsson er lunkinn í eldhúsinu, enda rekur fjölskylda hans veitingastaðinn Hornið.
„Hann eldar fyrir mig og gerir það með hjartanu. Það gerist ekki fallegra,“ segir Ellý um sinn heittelskaða. Þau skötuhjúin eru einmitt í mjög sérstökum matarklúbbi þar sem margar góðar minningar hafa fæðst.
„Við erum með matarklúbb sem ber heitið Engin hnífapör. Þá borðum við matinn með höndunum og gestir sem við bjóðum hverju sinni taka því óvenjulega vel. Við bjóðum fólki úr öllum áttum í matarboðin okkar en það sem gerir klúbbinn skemmtilegan er að gestirnir þekkjast lítið sem ekkert. Útkoman verður dásamleg kvöldstund án hnífapara.“
Ellý segist alltaf eiga rjóma í ísskápnum, enda er þeyttur rjómi mest sexí matur sem hún veit um. Hún trúir því einnig að vissar fæðutegundir auki kynorku svo um munar.
„Bláber, jarðaber, rjómi, epli, appelsínur og gulrætur. Ef það kveikir ekki gjörsamlega í öllu sem heyrir undir kynorku þá veit ég ekki hvað,“ segir Ellý og brosir kankvís.
Þeir sem fylgjast með Ellý á samfélagsmiðlum hafa tekið eftir að hún er iðin við að mála og teikna. Er einhver sérstakur matur sem veitir henni innblástur á vinnustofunni?
„Já, hnetur. Pekanhnetur, möndlur og kasjúhnetur. Ég narta í þær á milli þess sem ég mála og teikna á vinnustofunni minni.“
Þegar talið berst að svokölluðum huggunarmat, eða „comfort food“, stendur ekki á svörunum hjá okkar konu.
„Kjúklingur grillaður að hætti Nettó. Ég gæti lifað eingöngu á honum. Þá kaupi ég hann tilbúinn þar hvenær sem er sólahringsins. Stundum hjóla ég út á Granda, kaupi kjúkling sem kostar innan við 1500 krónurnar, sest við sjóinn, borða kjúklinginn og tala við guð,“ segir Ellý, en spákonan er alls ekki hrifin af súpum.
„Einu sinni vann ég við uppvask heilt sumar og þreif óendanlega marga risastóra súpupotta. Það er ástæðan.“
Sykur snertir Ellý ekki heldur eftir lífsreynslu sem hræddi hana.
„Ég borða ekki sykur. Eftir að ég fékk ber í brjóstið hef ég alveg látið það eitur vera.“
Hlynur, kærasti Ellýjar, er eins og áður segir hluti af fjölskyldunni sem rekur veitingastaðinn Hornið. Það kemur því ekki á óvart að Ellý myndi velja að borða eina sérstaka máltíð þar ef hún þyrfti eingöngu að borða einn rétt það sem eftir lifir.
„Kjúklingasalatið á Horninu. Það samanstendur af grilluðum kjúkling, ferskt salat, sólþurrkuðum tómötum, ólivum og parmesan.“
Áður en við sleppum Ellý í faðm listarinnar og ástarinnar verðum við að spyrja hver útkoman yrði ef listakonan yrði túlkuð í matarkyns rétti?
„Hlaðborð síbreytilegt og vel útilátið.“