fbpx
Sunnudagur 14.ágúst 2022

Alþingis- og söngmenn

Þér að segja – Einar Kárason skrifar

Ritstjórn DV
Föstudaginn 9. september 2016 09:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú sé ég að Árni Johnsen stefnir á endurkomu í pólitíkina – hann var um daginn í ljúfmannlegu viðtali við Sigmund Erni á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, en aftur á móti öllu úfnari í blaðagrein um Vatnsmýrarflugvöll þar sem mér skildist helst að það væri vegna þess að Dagur borgarstjóri vildi landsbyggðarmenn feiga að hann vildi láta loka „neyðarbrautinni“. En ég er samt ekki handviss um að þar komi fram réttur skilningur á hugarfari þess góða drengs, borgarstjórans. Árni hefur alltaf verið umdeildur maður, en sjálfur hef ég aldrei getað almennilega grunað hann um græsku. Fyrstu minningar um manninn eru frá því ég var í barnaskóla, þeim sem þá hét „Æfingadeild Kennaraskólans“ og hafði meðal annars þá sérstöðu að þar máttu kennaranemar koma í tíma til að spreyta sig á kennslu, og yfirleitt voru það lífleg og skemmtileg, stundum feimnisleg, ungmenni sem við krakkarnir fengum þannig í heimsókn.

Eftirminnilegastur var þó kennaraneminn Árni Johnsen sem var með okkur tíu ára krakkana heilan dag ef ég man rétt, og kenndi okkur meðal annars allskyns þrautir og leiki, meðal annars myndagátur um nöfn þjóðskálda; þar var ef ég man rétt hestur (jór), hani, armbandsúr og katlar, en önnur einfaldari sýndi mynd þar sem var einn steinn, en við hlið hans margir steinar(r). Svo fylgdist maður auðvitað úr fjarska með ævintýramanninum og náttúrubarninu sem kleif Eldey og geystist um landið og hitti sérkennilega menn, eins og þeir Sigmundur Ernir rifjuðu upp í sínu spjalli; Árni tók fyrstur manna hér um árið viðtal við Gísla á Uppsölum; „ágætt viðtal“ heyrði ég Ólaf heitinn Hannibalsson, nágranna Gísla, rifja upp, og einnig rifjaði Ólafur upp í sama spjalli að Gísli hafi heimsótt sig daginn eftir og haft á orði um Árna að hann væri nú „ekki eins og fólk er flest.“ Og þar tala kunnáttumenn, eins og stundum er sagt.

Ofvirki húsbyggjandinn

Skrýtna og erfiða málið á ferli Vestmannaeyingsins knáa er að sjálfsögðu það sem hrakti hann frá þingmennsku og alla leið í fangelsi og snerti störf hans sem formanns bygginganefndar Þjóðleikhússins. Ég veit að margir verða mjög argir og pirraðir er þeir heyra skýringar Árna sjálfs á því hvernig það gekk fyrir sig og sveia hans afsökunum sem fáránlegu bulli, en sjálfum hefur mér alltaf fundist eins og það geti vel verið eitthvað skiljanlegt í því öllu. Fólk af hans kynslóð, og eldra, var mikið að standa í eigin húsbyggingum; að kaupa „tilbúið undir tréverk“ eða byrja jafnvel bara með auða lóð og ekkert í höndunum nema skóflu og hjólbörur, og hugsýn um fagurt hús. Með því að atast í öllu sjálfir spöruðu húsbyggjendur sér auðvitað stórfé, þótt erfiðið væri ómælt; sömu menn voru jafnan í fullri vinnu við annað, en komu málum áfram með því að mæta í sína nýbyggingu fyrir fyrsta hanagal á morgni og vera þar svo á staðnum öll kvöld og helgar að auki; maður man eftir dökkhærðum mönnum sem byrjuðu að byggja hús á sumri, og flytja svo inn í það gráhærðir ári seinna. Og með því að atast svona sjálfir og vera til staðar þá sáu þeir líka til þess að verkið gengi, að einn iðnaðarmaðurinn væri ekki stopp af því hinn væri ekki búinn með undirbúninginn eða að allt stöðvaðist af því það vantaði nauðsynlegt efni. Og mér segja kunnugir að þegar miklar endurnýjunarframkvæmdir voru í gangi við Þjóðleikhúsið í lok síðustu aldar hafi formaður bygginganefndarinnar verið einmitt þannig húsbyggjandi: alltaf á staðnum þegar tími gafst, og að fyrir það hefði mátt senda háa vinnureikninga til ríkisins. Frekar en að klaufast til að taka tjörupapparúllur og kantsteinapartí án þess að spyrja kóng eða prest, og með öllu því klandri sem kom í kjölfarið.

„… orðin, laus við tafs“

Árni er þúsundþjalasmiður eins og menn vita, og hefur sungið lög inn á margar plötur. Á sinni fyrstu flytur hann meðal annars frábært ljóð og lag Ása í Bæ um Gölla Valdason; langan og mikinn og kjarnyrtan ópus. Ási var auðvitað skáld gott eins og menn vita og með snilldarvald á máli og stíl – vilji menn rifja það upp þá minni ég afbragðsfína bók sem hann skrifaði á sjöunda áratug liðinnar aldar og heitir „Sá hlær best“ – hún er full af flottum húmor, náttúrustemningu, mannlýsingum og stílgaldri. Nema hvað að flutningur Árna Johnsen á Göllavísum hreif mig strax og ég heyrði hann fyrst, og allan þennan langa texta lærði ég fljótt og kjamsaði á bestu vísunum: „Í landlegunum víða flæktist fullur / og fjúka lét þá orðin, laus við tafs / til þeirra er töldu hvern þann byttu og bullu / sem blotnað hafði í fleiru en drafi hafs.“

Hjá Oddfellowum í Eyjum

Það mun hafa verið árið 2002, einn fyrsta almennilega vordaginn í apríl, að ég var kominn til Eyja til að vera ræðu-/sögumaður á árlegri samkomu Oddfellowa þar í kaupstaðnum. Í Oddfellowklúbbnum er mikið af litríkum mönnum; þarna eru bátaformenn og útgerðar-, netagerðarmenn og fleira gott fólk; þeir ráða fyrir myndarlegu húsi með fallegum sal. Umrætt kvöld voru þar samankomnir eitthvað áttatíu virðulegir og velklæddir kallar, borðum var raðað í svona ferhyrning og við endann fyrir miðju, innst í salnum, var ræðupúlt og öðrumegin við það var veislustjóri kvöldsins, Árni Johnsen, en hinumegin yðar einlægur; ræðumaðurinn. Allt var þetta fínt og gott, matur frábær og sömuleiðis aðrar veitingar og léttur mórall í salnum. Það kom að því að ég fór í pontu og fór um víðan völl, rifjaði upp atvik, persónur og frásagnir héðan og þaðan, og voru menn hlýðnir á mitt mál. Veislustjórinn var að sjálfsögðu með gítarinn sinn innan seilingar, skreyttan dinglandi arnarkló, og tók lagið, en eftir að ég hafði sagt sögurnar varð það honum tilefni til að rifja upp fleiri, og koll af kolli; mig minnir að ég hafi þá líka sungið svo það hallaði ekki of mikið á þann kantinn. Og á endanum spurði ég Árna hvort ekki væri rétt að taka Göllavísur? Það fannst honum þjóðráð, en sagði þó að með því að ljóðið væri langt og hann ekki með prentaðan textann þyrfti hann svona að rifja hann upp í huganum með sjálfum sér. Ég sagðist kunna kvæðið upp á mína tíu fingur, og úr varð að við sungum það saman, og salurinn tók undir í viðlaginu. Og stemningin var orðin ærið fín þegar allir í salnum stóðu og sungu lokaerindið: „Og seinna þegar hinstu skuggar skella / og skola Gölla upp til næsta lands / þá ætla ég á leiði hans að hella / úr heilli, því að ég mun sakna hans.“

Heiðursmannasiðir

Morguninn eftir sótti Árni mig þangað sem ég gisti og keyrði á flugvöll með viðkomu á Stórhöfða og þannig merkisstöðum; ég hafði samið um einhverja greiðslu fyrir mitt framlag og þegar við Árni kvöddumst áður en ég arkaði um borð í vélina fór hann í buxnavasann og dró upp vöndul af fimmþúsundköllum; taldi svo fram til mín umsamda upphæð og við tókumst í hendur án frekara umstangs, að heiðursmannasið.

Þegar þarna var komið sögu árið 2002 var byrjaður fréttaflutningur af umræddu máli, en ekkert hafði enn gerst, Árni sat enn á þingi og svo framvegis. En í desember sama ár var ég aftur kominn til Eyja, í slagtogi við KK vin minn og einhverja aðra músíkanta; þeir ætluðu að spila um kvöldið á veitingastað í bænum, en ég að lesa upp. Síðla dags voru þeir að stilla upp hljómgræjum en ég sat við barinn, og þangað inn bárust nú nokkrir menn og varð fagnaðarfundur með mér og þeim, því einhverjir voru þar sem höfðu verið á Oddfellowhátíðinni um vorið. Þeir voru á leið í það sem þeir sögðu vera besta partí ársins í gjörvöllum Vestmannaeyjum: sviðaveislu á einu netagerðarverkstæðanna. Og tóku ekki annað í mál en að ég slægist í förina og heilsaði upp á gamla kunningja. Var mér síðan afar vel tekið þegar ég kom í veisluna. Þar var Árni Johnsen, og ég sá að honum var illa brugðið, enda málið þegar þar var komið sögu allt búið að vinda upp á sig; hann búinn að segja af sér þingmennsku og búið að gefa út á hann ákærur – veður öll válynd. Enda var hann ekki þarna í sviðaveislunni miðpunktur og hrókur alls fagnaðar eins og vanalega, heldur sýndist mér hann standa afskiptur úti í horni og ekki með hýrri há. Ég gekk til hans og spurði: Hvar er gítarinn? Hann taldi eftir nokkra umhugsun að gítarinn væri kannski úti í bíl. Ég mæltist til þess að hann sækti hljóðfærið. Og það fór svo þetta kvöld að við fluttum saman allar Göllavísurnar, við afar góðar undirtektir. Að auki hafði á endanum glaðnað svo mjög yfir Árna að hann sagði mér að einhverntíma á næstu árum ætlaði hann að gefa út dúettaplötu; semsé skífu þar sem hann syngi ýmis lög með hinum og þessum vinum sínum. Hún var svo tekin upp á vordögum 2006, með snillingum í bland eins og sjálfum Kristjáni Jóhannssyni, en þar fékk ég líka að fljóta með, raulandi að sjálfsögðu Göllavísurnar með Árna.

Ég varð ekki var við að flutningur okkar á þessari plötu vekti mikla athygli. Þó kom hún í hendur þess góða útvarpsmanns Guðna Más Henningssonar, sem bæði var með síðdegisþætti og á nóttum um helgar. Og ekki síst þegar stuðið fór að aukast svona um miðnæturbil þá átti hann það til að blasta Gölla með okkur Árna yfir landið gegnum Rás tvö, og ég veit ekki til þess að nein almenn óánægjualda hafi risið í kjölfarið, eins merkilegt og það má nú heita.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Ók um á fjórum nagladekkjum og grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna og lyfja

Ók um á fjórum nagladekkjum og grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna og lyfja
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Er þetta fallegasta kona Bretlands? – Fólk missir sig yfir nýjum myndum

Er þetta fallegasta kona Bretlands? – Fólk missir sig yfir nýjum myndum
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Haaland átti tvær heppnaðar sendingar í dag

Haaland átti tvær heppnaðar sendingar í dag
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Lengjudeild kvenna: Skemmtilegasti fyrri hálfleikur sumarsins?

Lengjudeild kvenna: Skemmtilegasti fyrri hálfleikur sumarsins?
Pressan
Fyrir 17 klukkutímum

Bólginn getnaðarlimur og verkir í endaþarmi meðal einkenna apabólu

Bólginn getnaðarlimur og verkir í endaþarmi meðal einkenna apabólu
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Einkunnir Brentford og Man Utd: Margir þristar

Einkunnir Brentford og Man Utd: Margir þristar