fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Guðfeður og Cosa Nostra

Þér að segja

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 11. mars 2016 14:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki fyrir löngu sá ég enn einu sinni allar „Godfather“-myndirnar og alltaf sér maður betur og betur hversu mikið snilldarverk þessi flokkur er, og þó sérstaklega tvær þær fyrstu. Og merkilegast er kannski að frá sjónarhóli kvikmyndafræðanna eru þessar myndir í rauninni mjög hefðbundnar; þær byggja ekki fyrst og fremst á frumlegum og glæsilegum myndlistarverkum heldur eru það element eins og mannlýsingar og samtöl sem eru snilldin; að því leyti eru þessar kvikmyndir bornar uppi af nokkurskonar bókmenntalegum, epískum styrk. Sum af frásagnarelementum þessara kvikmynda jaðra jafnvel við að vera billeg: þannig er sagt í öllum kennslubókum um handritsgerð fyrir kvikmyndir að menn skuli forðast að kynna persónur með því að láta aðra tala um þær, en í hinu glæsilega upphafsatriði fyrstu Guðföðurmyndarinnar situr Michael Corleone, leikinn af Al Pacino, og segir nýrri kærustu sinni, Kay, sem er túlkuð af Diane Keaton, deili á mörgum af persónum myndarinnar; á þann hátt eru þær kynntar til sögu. En þetta gengur upp vegna þess að samtalið er svo frábærlega samið.

Mario Puzo

Kvikmyndirnar eru eins og flestir vita byggðar á bókmenntaverki, samnefndri bók eftir rithöfundinn Mario Puzo. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að hann var mikill snillingur, og það er alveg þess virði fyrir unnendur kvikmyndanna að lesa jafnframt bókina. Hún er reyndar ekki gallalaus; í bókinni eru persónur og frásagnarþættir sem virka sem óþarfi og þannig hefur löngum köflum verið sleppt úr kvikmyndahandritunum. Það er líka merkilegt að í rauninni ætlaði Puzo sér að umrædd skáldsaga yrði hálfgert aukaatriði í hans ferli; hann hafði áður fengist við að skrifa „listrænar“ skáldsögur sem fengið höfðu góða dóma en seldust lítið; hann var í miklum fjárhagskröggum og ákvað að fara smá útúrdúr og skrifa sögu sem væri líkleg til að seljast; hræra í einn „bestseller“. Og út kom meistaraverkið um Guðföðurinn, og þarf ekki taka það fram að hún gerði hann að margföldum milljarðamæringi. Það er líka merkilegt að hann sjálfur, þótt hann væri af ítölskum uppruna, hafði ekki mikla persónulega reynslu eða kynni af mafíunni; sjálfur gamli Vito Corleone, upphaflegi Guðfaðirinn, sem Marlon Brando leikur svo listilega, mun í talsmáta og sem persónuleiki vera byggður á móður höfundarins Mario Puzo, en hún var einstæð og mikil „mama grande“, eins og menn geta þá séð.

Sikiley og sameinuð Ítalía

Það er líka áhugavert fyrir unnendur kvikmyndanna og þessarar miklu sögu um Guðföðurinn að kynna sér bakgrunninn, sögu Mafíunnar. Ég er með bók sem heitir „Cosa nostra – A history of the Sicilian Mafia“ og er eftir John Dickie. Þar má sjá að tilurð mafíunnar tengist á sinn hátt sameiningu Ítalíu á nítjándu öld, en undir forystu hins fræga Garibaldi sameinuðust um 1860 ólík ríki á Ítalíuskaganum ásamt Sikiley í stórríkið eins og við þekkjum það í dag. Sikiley hafði þá öldum saman tilheyrt öðrum ríkjum eða verið á áhrifasvæði þeirra; þar höfðu Frakkar vaðið uppi og Arabar og tungumálið sem talað var þar á eyjunni þegar hún lenti undir stjórn ríkisins sem hafði Róm að höfuðborg var gjörólíkt því sem við köllum ítölsku. Og Sikileyingar áttu því ekki að venjast að fólk sem talaði þá framandi tungu væri að ráðskast með þeirra hagi, og þeir gerðu harla lítið með tilskipanir sem einhverjir útlendingar norður á Ítalíu voru að reyna að troða upp á þá. Og sama gilti um sýslumenn, lögreglu- og skattstjóra sem var verið að siga á þá af framandi yfirvöldum, og fór fyrir sumum þeirra svipað og sænska biskupnum og ribbaldanum Jóni Gerrekssyni sem okkur Íslendingum var forðum sendur en var svo settur í poka og drekkt í Brúará hér syðra.

„Sterkur leiðtogi“

Það var semsé skortur á yfir- eða miðstjórnarvaldi sem gerði það að verkum að stórbændur og aðrir guðfeður á Sikiley gátu farið sínu fram eins og smákóngar. Og við bættist að nú rann upp mikil efnahagsleg gullöld þar á eyjunni; þar fundust miklar magnesíumnámur, sem skiluðu gífurlegum tekjum en léku reyndar umhverfið grátt. Að auki var á Sikiley ræktað mikið af sítrusávöxtum, og með nýrri tækni gufuskipa með kælikerfi í lestum opnuðust nýir markaðir fyrir þessa ávexti; Evrópubúar og Bandaríkjamenn urðu að fá sítrónur, og læm út í ginið sitt. Svo peningar flæddu um Sikiley. Og slíku ástandi fylgir gjarnan Sturlungaöld, eins og við þekkjum frá okkar þrettándu öld. Á löglausum tímum koma gjarnan upp hugmyndir eða kröfur um „sterkan leiðtoga“ svona svipað og Putin hefur tekist að verða hjá Rússum og kannski hefur verið hugmynd landa vorra til forna um að gangast undir Noregskonung. Á miðstjórn hins ítalska ríkisvalds sem sat í Rómaborg var lítið hlustað víða í hinu víðlenda ríki, en þó allra minnst í Palermo og Corleone á Sikiley. Í þannig pólitísku ástandi fara „sterkir foringjar“ gjarnan að láta á sér kræla, og bjóða sig fram til forystu, og það gerðist einmitt á Ítalíu snemma á tuttugustu öld. Einn þeirra var sá sem fékk viðurnefnið „Il Duce“ en hét eins og menn vita Benito Mussulini, og hann og hans pólitíska hreyfing, fasistarnir, sögðust ætla að koma skikki á héraðshöfðingja og glæpamenn Sikileyjar, og þannig staða; átti Mússúlíni ekki síst slíkum hetjuorðum og svardögum það að þakka að hann náði kjöri sem yfirvald allrar Ítalíu, þegar komið var fram á þriðja áratug tuttugustu aldar. Reyndar ætlaði hann til að byrja með að vingast við mafíósana á Sikiley og nota styrk þeirra og sambönd til að púkka undir eigin stöðu, en þegar hann kom í fyrsta sinn til Sikileyjar umkringdur her og lögreglu hallaði voldugasti guðfaðirinn á eyjunni sér að honum og sagði: „hvað ertu að gera með allt þetta lið, þú veist að hérna er það ég sem ræð hvort þú heldur lífi“. Og Il Duce skildi hótunina og var fljótur að pilla sér burt. Og svo fór að hann hóf mikið stríð gegn mafíunni, sem varð til þess að margir úr því liði fluttust til Ameríku. Og það er einmitt í því róti öllu sem hinn ungi Vito Corleone er látinn koma til New York í Godfather nr. 2, en eins og flestir muna er það Robert De Niro sem túlkar hann á yngri árum í þeirri mynd. Það var semsé vegna þessara stríða mafíósanna á Sikiley við Mússúlíni sem þeir urðu svarnir andstæðingar hans, en merkilegt nokk þá fengu þeir á sig dálítið framsækið orð fyrir að vera andfasistar, sem er í ljósi þessa kannski nokkuð ofmælt um glæpasamtökin.

Innskot um Robert De Niro

Reyndar er líklega enginn betri í að leika mafíósa en nefndur ítalskættaði leikari frá Manhattan; auk The Godfather má minna á stórkostlegan leik hans í „Analyze this“-myndunum, og í „The Untouchables“ stelur hann eiginlega senunni í aukahlutverki sem Al Capone. Hann er hins vegar ekki alinn upp innan um mafíósa – öðru nær. Ég man eftir viðtali við íslensku myndlistarkonuna frægu Louisu Matthíasdóttur, sem lengst af bjó í New York ásamt eiginmanni sínum sem einnig málaði. Viðtalið var tekið á heimili þeirra í fjölbýlishúsi á Manhattan, og það barst í tal að þar í húsinu byggju fleiri listmálarar. Og þá sagði Louisa eitthvað á þessa leið: „Já, það má nefna að hjónin í íbúðinni hérna á ganginum beint á móti mála bæði. Það var yfirleitt opið á milli, og strákurinn þeirra hann Bobby, hann kom oft hingað inn til okkar þegar hann var krakki. Nú er hann víst orðinn frægur í kvikmyndum.“ „Hvað heitir þetta fólk?“ var þá spurt. „Þau heita De Niro,“ svaraði þá Louisa Matthíasdóttir.

Upplagt inventar í góða epík

Af einhverjum ástæðum eru þessir ítölsku mafíósar alveg upplagt inventar í mikla epík og áhrifamiklar sögur, enda bækur og bíómyndir um þá legíó. Kannski er það meðal annars að þakka undarlegri blöndu af siðlausum glæpum en jafnframt furðu sterkum innri siðaboðum; fjölskyldusamheldni, vináttu og tryggð. Þetta tóku Ítalirnir með sér vestur um haf, þar sem þeir settust að í New York og víðar. Þar í mannhafinu lentu þeir í bland við aðrar litríkar þjóðir eins og Íra, sem einnig eru kaþólskir en þó á einhvern hátt gerólíkir, enda var samkomulag þjóðarbrotanna oft fremur stirt. Í einni af bestu mafíusögunum, Sopranos-sjónvarpsþáttunum, gerist það að einn af traustustu liðsmönnum Tony Soprano verður fyrir skoti og er fluttur helsærður á spítala. Vinirnir sitja að sjálfsögðu hjá honum við sjúkrabeðinn, og verða vitni að því að hann deyr en er lífgaður við aftur, með stuðtækjum. Þegar hann kemst loks til meðvitundar eru þeir spenntir að heyra hvernig lífsreynsla það sé að deyja, og hann upplýsir að hann hafi farið til helvítis. „Og hvernig var þar umhorfs?“ spyrja vinirnir. „Þar er írskur pöbb,“ sagði mafíósinn, „og þar er alltaf St. Patrick’s day.“

Það er einnar messu virði að ná sér myndirnar um Guðföðurinn, og allar hinar kvikmyndirnar og bækurnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

433Sport
Fyrir 15 mínútum
Guðfeður og Cosa Nostra

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Högg í maga enskra stórliða

Högg í maga enskra stórliða
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Enska úrvalsdeildin segir skilið við það sem Klopp hefur talað fyrir

Enska úrvalsdeildin segir skilið við það sem Klopp hefur talað fyrir
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Þetta er ástæðan fyrir að þú átt ekki að nota símann þegar þú ert á klósettinu

Þetta er ástæðan fyrir að þú átt ekki að nota símann þegar þú ert á klósettinu
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Norski áhrifavaldurinn nú komin með athyglisverðan titil – Sjáðu nýjustu myndir hennar

Norski áhrifavaldurinn nú komin með athyglisverðan titil – Sjáðu nýjustu myndir hennar
Pressan
Fyrir 15 klukkutímum

Rúllaði Braga í bankann og vildi taka út pening – Óhugnanlegt atvik endaði með handtöku

Rúllaði Braga í bankann og vildi taka út pening – Óhugnanlegt atvik endaði með handtöku
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Eftir vonbrigðin í gær telja æðstu menn hjá Arsenal að þetta vanti

Eftir vonbrigðin í gær telja æðstu menn hjá Arsenal að þetta vanti