fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024

Fólskuverk í frönsku eldhúsi: „Síðan losaði ég mig við líkið með því að skera það í bita og hakka allt saman í matvinnsluvélinni“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 10. nóvember 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frakkarnir Michel Renard og Philippe Rosso voru góðir vinir. Svo góðir að haft var á orði að ekki kæmist hnífurinn á milli þeirra. Þeir voru krúnurakaðir, hávaxnir og hvorugur þeirra var maður margra orða. Þónokkur ár skildu þessa nánu vini; Renard var 42 ára en Rosso 29 þegar þessi saga átti sér stað árið 1998.

Pólitík og bankarán

Þannig var mál með vexti að kumpánarnir voru meðlimir í Front Nationale-stjórnmálaflokknum franska og báðir af heilum hug og gott betur.

Renard var heimavanari í flokknum, vann í höfuðstöðvum hans, það er þegar hann var ekki önnum kafinn við bankarán eða viðlíka iðju. Rosso var nýliði, nýlega laus úr hernum, og hafði gengið í flokkinn í einhverju bríaríi eftir að kærastan hafði sagt skilið við hann.

Þriðji félaginn

Leiðir þeirra félaga höfðu legið saman og svo vel vildi til að Renard var þá á höttunum eftir félaga í glæpina. Skömmu síðar kynnti Rosso gamlan vin sinn, Luc Onfray, fyrir Renard.

Onfray var af öðru sauðahúsi en hinir tveir. Hann var vel gefinn, kunni að meta klassíska tónlist og var lögfræðimenntaður. Onfray var reyndar einnig álíka vel að sér í meðferð skotvopna og innviða lögfræðinnar og því gekk þremenningunum ákaflega vel í þeirri iðju að ræna banka í suðurhluta Frakklands, að stærstum hluta í grennd við Marseille.

Rosso og Alexandra

Hvað sem vinskap Renard og Rosso leið, þá var ljóst að stundum var grunnt á því góða hjá þeim.

Philippe Rosso. Ákvað að gera kærustu sinni greiða.

Nú verður kynnt til sögunnar Alexandra Martyn, ung, falleg kona með ljósa hárið bundið í tagl. Rosso hitti Martyn í fyrsta skipti í höfuðstöðvum Front Nationale. Með þeim tókust ástir, en það flækti málin þónokkuð að Alexandra Martyn var stjúpdóttir Renard, því í stað þess að verja kvöldum í höfuðstöðvum flokksins voru Rosso og Martyn í rekkjubrögðum á heimili Rosso í Nice.

Koddahjal veldur vinslitum

Kvöld eitt þegar Rosso og Martyn köstuðu mæðinni eftir ástaleik breyttist koddahjalið hjá Martyn. Hún hafði ýmislegt að segja Rosso um stjúpföður sinn og af orðum hennar mátti skilja að ekki væri allt með felldu í þeirra samskiptum.

„Hann hefur beitt mig kynferðislegu ofbeldi svo árum skiptir. Ég get ekki sagt þér allt sem hann hefur gert mér,“ sagði Martyn við Rosso.

Eftir smá koddahjal í viðbót upplýsti Martyn þó Rosso um ýmislegt og þegar upp var staðið sauð á Rosso í garð þessa félaga síns.

Daginn eftir spurði Rosso Martyn hreint út: „Viltu að ég sjái um hann?“ og svar Martyn var skýrt og skorinort: „Já.“

Rosso leitar til Onfray

Rosso beið ekki boðanna og setti saman áætlun. Hann sá þó í hendi sér að hann þyrfti aðstoð og hafði því samband við gamla vin sinn, Onfray.

Onfray var meira en til í tuskið þegar Rosso sagðist vilja kenna Renard, stjúpföður kærustu sinnar, lexíu.

Eftir á að hyggja var þetta kannski misráðið af Rosso því Onfray var ekki þekktur fyrir neitt hálfkák og hafði nýlega gumað sig af því að hafa myrt sinn eigin föður, vott Jehova sem hafði neytt hann til að lesa Biblíuna og bannað honum að eignast vini.

Dularfullt hvarf föður

Onfray sagðist hafa skorið höfuðið af föður sínum: „Síðan losaði ég mig við líkið með því að skera það í bita og hakka allt saman í matvinnsluvélinni.“

Hvort þetta var satt og rétt gat Rosso ekki giskað á en fyrir lá að faðir Onfray hafði horfið á dularfullan hátt árið 1995.

Rosso ákvað sem sagt að leita liðsinnis Onfray til að tukta Renard örlítið til – eða þannig.

Hamar í höfuðið

Þann 14. nóvember, 1998, var Renard boðaður á fund heim til Rosso, undir því yfirskini að ræða þyrfti næsta rán þeirra félaga.

Þar laumaði Onfray svefnlyfjum í drykk Renard og þegar það fór að hafa áhrif barði hann Renard í höfuðið með hamri. Þar sem Renard lá meðvitundarlaus á gólfinu sagði Rosso að hann ætlaði út í búð að kaupa bakkelsi.

Alexandra bar stjúpföður sínum ekki góða söguna.

Þegar Rosso kom til baka að vörmu spori var Renard liðið lík í stofunni heima hjá honum. „Þú áttir bara að kenna honum lexíu, ekki drepa hann,“ sagði Rosso við Onfray. „Hvað eigum við nú að taka til bragðs?“

Blóðbað í baðkari

Onfray sagði Rosso að slaka á; hann myndi sjá um þetta allt saman. Síðan bar Onfray lík Renard inn á baðherbergi, afklæddi það og setti í baðkarið. Að því loknu hófst hann handa við að búta líkið niður á afar kerfisbundinn hátt og setti bitana í matvinnsluvélina sem breytti öllu saman í bleika kássu.

Það reyndist Rosso ofviða að fylgjast með handbragði vinar síns og því sagði hann: „Ég læt þig um þetta. Ég ætla út að kaupa jónur.“

Á heimleið úr þeirri för kom hann við heima hjá Alexöndru og sagði henni að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af stjúpföður sínum þaðan í frá. Alexandra dreif sig á næstu lögreglustöð og sagði að stjúpfaðir hennar væri týndur. Í framhjáhlaupi hafði hún á orði að hann hefði níðst á henni kynferðislega – lengi og mikið.

Stíflað klósett

Í íbúð sinni við Rue Dubray var Rosso með böggum hildar. Það sem við honum blasti var blóð upp um alla veggi, nánast, og í einu horni var haugur af plastpokum. Innihald þeirra var það sem eftir var af Renard – beinin.

Luc Onfray sat makindalega í sófa í stofunni og reykti jónu. „Ég losa okkur við þá,“ sagði hann og kinkaði kolli í átt að pokunum. Ekki hafði þó allt gengið sem skyldi hjá Onfray því hann hafði hent bleika maukinu í klósettið en „það var svo mikið af því að það virðist hafa stíflað það.“

Nú, það var seinni tíma vandamál og tvímenningarnir tóku á sig náðir.

Íbúðin þrifin hátt og lágt

Daginn eftir tóku þeir til við að þrífa íbúðina og að því loknu hefði aðeins verið á færi rannsóknardeildar lögreglunnar að finna vegsummerki þess voðaverks sem þar hafði verið framið.

Onfray og Rosso voru svo ákafir í að losa sig við líkamsleifar Renard að þeir steingleymdu að sjónir lögreglunnar beindust að þeim – ekki fyrir morð, heldur bankarán.

Liðu nú þrír mánuðir og virtist sem félagarnir hefðu komist upp með hinn fullkomna glæp. Þá hljóp snurða á þráðinn því í febrúar 1999 voru Onfray og Rosso handteknir og lögreglan vildi einnig hafa hendur í hári Renard, en hann var hvergi að finna.

Dæmdir fyrir bankarán

Það liðu þrjú ár áður en réttað var yfir Onfray og Rosso vegna bankarána. Onfray fékk 12 ára dóm, Rosso 16, og Renard – eðli málsins fjarverandi – fékk 20 ár.

Alexandra Martyn var aldrei nefnd til sögunnar og vann þegar þarna var komið sögu á dagheimili og sennilega búin að sveipa skuggalega fortíð sína þykkri hulu.

Onfray og Rosso voru aftur á móti á bak við lás og slá, dagarnir voru langir og tíminn mjakaðist áfram með hraða snigils. Fátt var til dundurs og þeim mun meira hugsað.

Sektarkenndin sigrar

Í október, 2004, bugaði sektarkenndin Rosso og hann skrifaði orðsendingu til saksóknarans í Nice og leysti frá skjóðunni um afdrif Michels Renard. Rosso var mjög ítarlegur í frásögn sinni og dró ekkert undan.

Lengi vel virtist sem Rosso og Onfray kæmust upp með morð.

Áhugi lögreglunnar var vakinn og hún heimsótti Onfray í fangelsið en hann neitaði allri aðild eða vitneskju um málið.

Íbúðin í Rue Dubray var rannsökuð hátt og lágt og það sem í henni fannst tók af allan vafa um að þar hefði verið framið morð.

Alexandra Martyn var handtekin og ákærð fyrir aðild að morðinu og Rosso og Onfray voru kærðir fyrir morð. Í janúar, 2012, voru þeir aftur mættir í dómsal en ákærurnar ívið alvarlegri en bankarán.

Málalok

Alexandra viðurkenndi sinn þátt í morðinu sem hún sagði hafa einskorðast við að útvega svefnlyfið sem Renard var byrlað. „Ég hefði þó kosið að hann hefði verið drepinn með kúlu í höfuðið,“ bætti hún við.

Luc Onfray fullyrti að hann hefði bara slegið Renard í höfuðið með hamri; Rosso hefði síðan kyrkt hann.

Alexandra Martyn fékk fimm ára skilorðsbundinn dóm, Luc Onfray fékk 30 ára dóm og Philippe Rosso fékk 28 ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Halldór Armand fékk ekki krónu í listamannalaun og birtir epíska mynd

Halldór Armand fékk ekki krónu í listamannalaun og birtir epíska mynd
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Sjáðu viðbrögð stjörnunnar við furðulegri spurningu í gær

Sjáðu viðbrögð stjörnunnar við furðulegri spurningu í gær
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Dagur Ingi Hammer skrifaði undir í Breiðholti

Dagur Ingi Hammer skrifaði undir í Breiðholti
Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Þess vegna ætlar hún aldrei aftur að vera dómari í The Voice

Þess vegna ætlar hún aldrei aftur að vera dómari í The Voice
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Segir Sjálfstæðisflokkinn vera eins og misnotaðan hund – þjóðin hringdi á hundaeftirlitsmanninn

Segir Sjálfstæðisflokkinn vera eins og misnotaðan hund – þjóðin hringdi á hundaeftirlitsmanninn
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Konan mín elskar hópkynlíf – Hér er vandamálið

Konan mín elskar hópkynlíf – Hér er vandamálið
Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Brúðkaupið breyttist í martröð – Nú hefur dómur verið kveðinn upp yfir ölvaða ökumanninum

Brúðkaupið breyttist í martröð – Nú hefur dómur verið kveðinn upp yfir ölvaða ökumanninum
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Inga lýsir ástæðu þess að hún stofnaði Flokk fólksins – „Ég varð gjörsamlega miður mín“

Inga lýsir ástæðu þess að hún stofnaði Flokk fólksins – „Ég varð gjörsamlega miður mín“