Lof vikunnar fá plokkarar. Stóri plokkdagurinn var haldinn sunnudaginn 28. apríl um allt land og mátti sjá gulvestaða plokkara úti um alla koppa og grundir. Þéttbýlið kemur alltaf skítugt undan vetri og rusl liggur eins og hráviði alls staðar. Þetta átak er því kærkomin upplyfting fyrir sumarið, bætir líðan okkar og þeirra ferðamanna sem hingað koma. Á þessum tímum verðum við að beita öllum ráðum til að halda í þá. Þau sem skelltu sér í vesti og óðu inn í runna með poka og prik eiga hrós skilið.
Last vikunnar fær Isavia. Isavia er með allt niður um sig í málum sem tengjast WOW air. Kyrrsetti ríkisfyrirtækið vél sem flugfélagið var með á leigu sem veð fyrir milljarða króna skuld félagsins. Byggt á því veitti stjórn Isavia forstjóranum heimild til að lána annan milljarð króna. Verða það að teljast ansi vafasöm vinnubrögð að kyrrsetja eignir óviðkomandi aðila og lítill sómi að því fyrir Ísland.