fbpx
Föstudagur 15.október 2021
Fréttir

Af hverju er Donald Trump svona mikið í nöp við Þýskaland?

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 12. ágúst 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá mörgum að Donald Trump virðist ekki vera neitt sérstaklega hlýtt til Þýskalands og Angelu Merkel kanslara. Hann hefur ekki farið leynt með þessar tilfinningar sínar og skoðanir og sett þær fram bæði í ræðu og riti. Má þar nefna ummæli hans um að Þjóðverjar séu háðir orku frá Rússlandi og séu þar með eiginlega á valdi Rússa. Hann hefur sagt að Merkel sé að eyðileggja Þýskaland. Flóttamannamálin hafa heldur ekki farið framhjá honum en hann hefur haldið því fram að glæpatíðnin í Þýskalandi hafi aukist mikið í kjölfar þess að um ein milljón flóttamanna kom til landsins 2015.

Oftast setur hann gagnrýni sína fram á uppáhaldsvettvangi sínum Twitter, en hann hefur einnig látið ýmis ummæli um Þýskaland og Þjóðverja falla á fundum. Hann á meira að segja erfitt með að halda aftur af sér þegar hann ræðir við Merkel í síma að sögn The New York Times sem segir að í símtölunum við Merkel komi oft fyrir að þau nái varla að skiptast á hefðbundnum kurteisiskveðjum áður en Trump byrjar að ræða um útgjöld Þjóðverja til varnarmála eða viðskiptajöfnuð ríkjanna.

En það eru ekki aðeins tölur sem eiga hlut að máli hvað varðar andstöðu Trumps við Merkel og Þýskaland. Það er ekki síður Merkel og persónuleiki hennar sem og heimssýn sem fer í taugarnar á Trump að mati sérfræðinga.

Merkel segir það rétt að viðskiptajöfnuður ríkjanna sé hagstæður Þjóðverjum. Þegar þau ræða saman segist hún reyna að fá Trump til að líta einnig til þjónustu sem ríkin veita hvort öðru en þá kemur nýtt sjónarhorn á hlutina að hennar sögn. Sumir telja að skapferli leiðtoganna tveggja sé svo ólíkt að þeir eigi einfaldlega enga samleið og það kyndi jafnvel undir gagnrýni og meintri andúð Trumps á Þýskalandi og Merkel. Ein af ástæðunum fyrir þessari óánægju hans með Þýskaland er hversu hagstæður viðskiptajöfnuður Þýskalands er í viðskiptum ríkjanna tveggja. Í hans augum eru Þjóðverjar ósanngjarnir.

Obama blandast í málið

Trump er tilfinningaríkur og telur sig vera „sterkan mann“ eins og Pútín og það virðist ekki fara vel saman við hversu litlar tilfinningar Merkel sýnir, hversu raunsæ hún er og hve mikið hún heldur sig við staðreyndir. Þetta virðist ergja Trump sem er vanur að spila inn á tilfinningar fólks. Þá er ljóst að Trump er mjög í nöp við Barack Obama, forvera sinn á forsetastóli, og nýtir hvert tækifæri til að vinna gegn því sem Obama stóð fyrir og hratt í framkvæmd í forsetatíð sinni. Á valdatíma Obama var Þýskaland talið náinn bandamaður Bandaríkjanna en sú staða breyttist snögglega þegar Trump tók við embætti. Obama hafði og hefur væntanlega enn háar hugmyndir um Merkel og telur að hún berjist fyrir sameiginlegum frjálslyndum hugmyndum þeirra beggja. Obama hvatti Merkel til að bjóða sig fram á nýjan leik í kjölfar sigurs Trumps í forsetakosningunum og hefur Merkel viðurkennt að kjör Trumps hafi verið ein af ástæðunum fyrir að hún bauð sig fram á nýjan leik. New York Times hefur til dæmis stillt henni upp sem nýjum leiðtoga hins frjálsa heims en Trump hefur lagt mesta áherslu á Bandaríkin á forsetatíð sinni og dregið Bandaríkin út úr ýmsu alþjóðlegu samstarfi. Ekki er því ólíklegt að Trump líti á Merkel sem einhvers konar framlengingu eða framhald á heimsmynd Baracks Obama og það kyndi undir andstöðu hans við Þýskaland og það sem þýskt er.

Könnun sem Pew Research Center gerði á síðasta ári sýndi að rúmlega helmingur Bandaríkjamanna taldi að Merkel stæði sig vel í starfi hvað varðar alþjóðamál. En frá 2012 hafa viðhorf repúblikana og demókrata til Merkel breyst. Árið 2012 var nær enginn munur á viðhorfum stuðningsmanna flokkanna. En á síðasta ári höfðu 64 prósent demókrata trú á Merkel en aðeins 50 prósent repúblikana, svo viðhorf Trumps virðast að einhverju leyti hafa smitast út til stuðningsmanna repúblikanaflokksins.

Hvað gerist í framtíðinni?

Þýskir stjórnmálamenn velta eðlilega fyrir sér hvort sambandið við Bandaríkin muni batna þegar Trump lætur af embætti. Sumir telja að Þjóðverjar og Evrópa í heild þurfi einfaldlega að venja sig við að Evrópa verður ekki lengur eins mikilvægur hluti af utanríkisstefnu Bandaríkjanna og áður og að Evrópa fái sífellt minni stuðning. Þetta fær stuðning í að Obama horfði í kringum sig í sinni forsetatíð og einblíndi ekki á Brussel. Á valdatíma hans spurðu Bandaríkjamenn einnig um framlög Evrópu til NATO og hvers vegna þau væru ekki hærri.

Aðrir telja að stefna Trumps muni á endanum styrkja hina frjálslyndu heimsmynd vegna sífelldrar andstöðu hans við hana. Þannig hafi orð hans og gerðir þveröfug áhrif við það sem hann ætlar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sigurbjörn greindist með fjórða stigs krabbamein – „Kannski verð ég dáinn áður en árið er liðið“

Sigurbjörn greindist með fjórða stigs krabbamein – „Kannski verð ég dáinn áður en árið er liðið“
Fréttir
Í gær

Um 70 Íslendingar í Kongsberg – Enginn óskað eftir aðstoð

Um 70 Íslendingar í Kongsberg – Enginn óskað eftir aðstoð
Fréttir
Í gær

35 ár frá leiðtogafundi í Höfða: Sjáðu hjartnæma ræðu Reagans í Keflavík

35 ár frá leiðtogafundi í Höfða: Sjáðu hjartnæma ræðu Reagans í Keflavík
Fréttir
Í gær

Tveggja turna tal: Útvarp Saga og Öfgar í hár saman – „Er þetta fjárkúgun eða hvað?“ 

Tveggja turna tal: Útvarp Saga og Öfgar í hár saman – „Er þetta fjárkúgun eða hvað?“ 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslenskir foreldrar í losti – „Er fólk æst í að ala upp siðblinda morðingja?“

Íslenskir foreldrar í losti – „Er fólk æst í að ala upp siðblinda morðingja?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Örlagarík fasteignaflétta Birgis í Lúxemborg dregur dilk á eftir sér – Gjaldþrota, dæmdur og nú ákærður fyrir fjárdrátt

Örlagarík fasteignaflétta Birgis í Lúxemborg dregur dilk á eftir sér – Gjaldþrota, dæmdur og nú ákærður fyrir fjárdrátt