

Björg tilkynnir þetta í yfirlýsingu til fjölmiðla.
„Íbúar Reykjavíkur vilja breytingar. Kerfið er dýrt, flækjustigið er mikið og lögbundin grunnþjónusta er höfuðborginni ekki sæmandi. Fjármál borgarinnar eru ósjálfbær og mælingar sýna síendurtekið að traust til borgarstjórnar er afar lítið. Þetta er sorgleg staða sem ég brenn fyrir að breyta en ég fékk innsýn í kerfið þegar ég starfaði í Ráðhúsinu þar til síðasta vor sem aðstoðarmaður borgarstjóra,” segir hún og bætir við:
„Viðreisn er flokkur sem lætur verkin tala. Flokkur sem stendur fyrir frjálslyndi, fagleg vinnubrögð og framfarir. Hlutverk borgarfulltrúa er að fara vel með útsvarstekjur borgarbúa og forgangsraða. Pólitíkin á að hafa skýra sýn um stóru málin sem brenna hvað mest á borgarbúum. Þetta hlutverk verður að taka alvarlega og nauðsynlegt er að hugsa vel hvaða verkefni eru mikilvægust og hvar takmarkaðir fjármunir nýtast almenningi best. Þjóna verkefnin tilgangi sínum og er réttlætanlegt að verja í þau skattfé? Einfalda þau Reykvíkingum lífið?
Ég vil vera hluti af nýrri kynslóð í borgarstjórn sem er réttu megin við núllið og sinnir vel lögbundnum verkefnum og grunnþjónustu. Setur fókus á leik- og grunnskóla, stöðugt lóðaframboð, raunhæf tækifæri fyrir ungt fólk til að kaupa íbúð og einfaldar eins og hægt er leikreglur fyrir uppbyggingaraðila húsnæðis og fólk sem gerist svo djarft að stofna fyrirtæki eða veita þjónustu í borginni.
Ég er fertug fjölskyldukona í smáíbúðarhverfinu með börn á öllum skólastigum og þekki vel daglegt líf barnafjölskyldna í borginni. Stjórnmálafræðingur með MA í hagnýtri menningarmiðlun en á háskólaárum var ég formaður Stúdentaráðs fyrir Röskvu. Ég hef starfað í fjölmiðlum stærsta hluta ævinnar; á fréttastofum, í útvarpi og sjónvarpi. Hef líka skrifað bækur og sjónvarpsþætti, m.a. Ráðherrann og Vigdísi og er athafnastjóri hjá Siðmennt.
Prófkjörið er 31. janúar og öll sem eru skráð í Viðreisn, 16 ára og eldri og búsett í Reykjavík geta tekið þátt.”