

Ferðamaður var hætt kominn í Reynisfjöru þegar alda greip hann en náði ekki að toga á haf út. Ferðamaðurinn stóð of nálægt flæðarmálinu og var að taka myndir.
Myndband af atvikinu var birt á samfélagsmiðlinum Reddit. Það er á síðunni „What Could Go Wrong?“ eða „Hvað gæti farið úrskeiðis?“ þar sem birt eru hrakfallamyndbönd.
Í myndbandinu má sjá ferðamann standa við flæðarmálið í Reynisfjöru þegar skyndilega kemur stór alda yfir hann. Ferðamaðurinn hrasar og dettur þegar aldan kemur aðvífandi og umlykur hann. Sem betur fer hrifsaði aldan hann ekki á haf út heldur náði hann að standa upp, blautur og kaldur.
„Þetta er nákvæmlega það sem á EKKI að gera á Íslandi,“ segir í texta með myndbandinu.
Sex banaslys hafa orðið í Reynisfjöru á undanförnum áratug eða svo. Síðast lést níu ára þýsk stúlka þann 2. ágúst þegar alda hrifsaði hana, föður hennar og systur á haf út.
Í kjölfar þess slyss hefur viðbúnaðarstig verið aukið í Reynisfjöru en eins og sést á þessu myndbandi og fleirum þá eru ferðamenn enn þá að koma sér í lífshættu í fjörunni.