
Umboðsmaður Alþingis hefur lokið meðferð sinni á kvörtun sem ónefndur einstaklingur lagði fram til embættisins. Vildi viðkomandi meina að sá verðmunur sem væri á verði á myndgreiningu hjá opinberum stofnunum í heilbrigðiskerfinu og einkastofum, sem væru ekki með samning við ríkið um þjónustuna, bryti í bága við stjórnarskrá Íslands. Vildi kvartandinn meina að þessi ólögmæta mismunun bæri byggð á reglugerðum heilbrigðisráðherra.
Í bréfi umboðsmanns til kvartandans kemur fram að kvörtunin hafi beinst að heilbrigðisráðuneytinu og Sjúkratryggingum Íslands. Segir að kvörtunin virðist annars vegar lúta að efni reglugerðar nr. 780/2025 (áður nr. 1581/2024), um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra vegna myndgreininga sem veittar séu án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, og reglugerðar nr. 1582/2024, um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Það kemur ekki fram í bréfinu í hverju athugasemdirnar við reglugerðirnar séu fólgnar.
Segir enn fremur að hins vegar virðist kvörtunin lúta að gjaldtöku samkvæmt 2. grein gjaldskrár Sjúkratrygginga nr. 789/2025, fyrir myndgreiningarannsóknir sem ekki hafi verið samið um, og viðbrögðum Sjúkratrygginga við erindum kvartandans þar að lútandi. Gjaldskráin sé sett með stoð í lögum um sjúkratryggingar, og áðurnefndri reglugerð nr. 780/2025.
Samkvæmt þessari annari grein er rukkað fyrir hverja einingu vegna myndgreiningarannsókna á stöðum sem ekki eru með samning við Sjúkratryggingar og tekur stofnunin þátt í kostnaðinum í samræmi við gjaldskránna en verð sem fólk greiðir getur verið misjafnt eftir heildargreiðslustöðu í kerfinu og hvort um barn eða lífeyrisþega er að ræða. Samkvæmt þessari gjaldskrá er almennt verð fyrir hverja einingu 210 krónur. Lægsti einingafjöldinn er 40, sem er fyrir almennar röntgenrannsóknir, sem þýðir þá væntanlega að verðið væri 8.400 krónur en til samanburðar má nefna að lægsta verðið á Landspítalanum fyrir röntgenrannsókn er 5.906 krónur en 4.375 krónur fyrir aldraða og öryrkja.
Segir í bréfi umboðsmanns til kvartandans að kvörtuninni hafi fylgt afrit af tölvupóstsamskiptum hans við Sjúkratryggingar þar sem gerðar séu athugasemdir við gjaldtöku samkvæmt gjaldskránni og þeirri afstöðu lýst að sá munur sem sé á einingarverði fyrir þjónustuna hjá opinberum aðilum annars vegar og einkaaðilum hins vegar kunni að fela í sér brot gegn stjórnarskrá, lögmætisreglu og jafnræðisreglu. Stofnunin hafi svarað tölvupósti kvartandans frá því í júlí síðastliðnum en öðrum pósti sem sendur hafi verið daginn eftir hafi enn ekki verið svarað þrátt fyrir ítrekanir kvartandans. Þá hafi komið fram í samtali hans við starfsmann umboðsmanns að ekki hefði verið leitað til heilbrigðisráðuneytisins með erindi vegna málsins.
Segir umboðsmaður að í ljósi þessa verði að benda viðkomandi á að leita fyrst til heilbrigðisráðuneytisins enda sé ekki hægt að kvarta til embættisins nema búið sé að skjóta máli fyrst til stjórnvalda og meðferð þess hjá þeim sé lokið.
Þar sem heilbrigðisráðherra fari með yfirstjórn sjúkratrygginga og samningsgerð um heilbrigðisþjónustu og yfirstjórn stofnunarinnar Sjúkratrygginga, kvörtunin snúist um efni reglugerða sem settar hafi verið af heilbrigðisráðherra og tilhögun gjaldtöku samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga, og að kvartandinn telji afgreiðslu Sjúkratrygginga á erindum hans í tengslum við gjaldtökuna ófullnægjandi þá sé rétt að beina athugasemdum til heilbrigðisráðuneytisins fyrst í stað.
Umboðsmaður lætur því málinu lokið að sinni en hvaða viðtökur kvörtunin um þessa meintu mismunun og stjórnarskrárbrot, í gjaldtöku fyrir myndgreiningar, fær í ráðuneytinu á eftir að koma í ljós.