

Nú um áramótin tók í gildi kílómetragjald á flest öll ökutæki í landinu. Gjaldið er vægast samt umdeilt og margir hafa lýst yfir óánægju sinni með það. Einn aðili fór þá leið að kvarta yfir gjaldinu til umboðsmanns Alþingis sem segist hins vegar ekki geta fjallað um gjaldið þar sem embættið hafi ekkert um samþykktir þingsins að segja.
Gjaldið var innleitt með lögum rétt fyrir jól.
Kvörtun viðkomandi til umboðsmanns var lögð fram 19. desember. Kvörtuninni var beint að fjármála- og efnahagsráðuneytinu, og laut að fyrirhugaðri notkun akstursmæla í ökutækjum við ákvörðun kílómetragjalds samkvæmt lögum um kílómetragjald á ökutæki, sem samþykkt voru á Alþingi 18. sama mánaðar. Þá voru jafnframt gerðar athugasemdir við að innheimt yrði sama gjald fyrir bifhjól og öll önnur ökutæki með leyfða heildarþyngd undir 3.500 kílóum.
Í bréfi umboðsmanns til kvartandans er minnt á að samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis, taki starfssvið hans ekki til starfa þingsins og stofnana þess. Það sé því almennt ekki á verksviði umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hafi tekist með löggjöf sem Alþingi hafi sett. Samkvæmt lögunum sé umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verði var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögunum sé hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði.
Segir að lokum að þótt kvörtuninni sé beint að fjármála- og efnahagsráðuneytinu verði ekki annað ráðið en að hún lúti að fyrirkomulagi sem Alþingi hafi tekið afstöðu til með lögum. Þar með séu ekki uppfyllt skilyrði til þess að kvörtunin verði tekin til frekari meðferðar og málinu sé þar með lokið af hálfu umboðsmanns.