
Nú um áramótin gekk í gildi heimild frá Umhverfis- orkustofnun til handa Isavia innanlandsflugvalla ehf. til þess starfrækja Reykjavíkurflugvöll. Um er að ræða heimild til bráðabirgða sem gildir að hámarki út þetta ár. Í raun er ekkert starfsleyfi nú í gildi fyrir flugvöllinn frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur en tillaga að nýju leyfi hefur verið í vinnslu í um eitt og hálft ár en ekki náðist að koma hinu nýja starfsleyfi á áður en það gamla rann út en bráðabirgðaheimildin byggir þó á gamla leyfinu. Á andstaða Isavia innanlandsflugvalla þátt í þessu en félagið segir tillöguna að nýju starfsleyfi verulega íþyngjandi en tillögunni er ætlað að bregðast við auknum fjölda kvartana vegna starfsemi flugvallarins.
Isavia innanlandsflugvellir ehf. er dótturfélag Isavia ohf. og sér um rekstur allra innanlandsflugvalla landsins. Allir þurfa þeir starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti viðkomandi umdæmis þar sem starfsemi flugvalla fellur undir mengandi starfsemi samkvæmt lögum og reglugerðum.
Eins og DV greindi frá í haust þá hefur kvörtunum vegna Reykjavíkurflugvallar fjölgað nokkuð hratt á síðustu 2-3 árum. Snúa kvartanirnar einkum að hávaða og þá sérstaklega frá einkaþotum, smærri flugvélum og þyrlum.
Isavia innanlandsflugvellir sóttu um nýtt starfsleyfi fyrir flugvöllinn hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í júní 2024 en þágildandi starfsleyfi átti að renna út í árslok 2024 en var síðan framlengt til ársloka 2025 þar sem ekki tókst að ljúka nýju starfsleyfi. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar mælti með því að nýtt leyfi myndi ekki gilda lengur en til ársloka 2032 þar sem aðalskipulag borgarinnar gerði ráð fyrir að eftir það myndi flugvöllurinn víkja úr Vatnsmýri.
Í byrjun desember síðastliðins fór Isavia innanlandsflugvellir fram á við Umhverfis- og orkustofnun að fá bráðabirgðaheimild til að halda starfsemi Reykjavíkurflugvallar áfram eftir áramót þar sem fyrirséð væri að ekki næðist að gefa út nýtt starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Heimildin var gefin út 18. desember og er aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar en ekki er hægt að sjá að gefin hafi verið út sérstök tilkynning um heimildina eða slík tilkynning birt á heimasíðunni.
Í ákvörðun um veitingu bráðabirgðaheimildarinnar segir meðal annars að í umsókn Isavia innanlandsflugvalla um veitingu heimildarinnar hafi komið fram að án starfsleyfis, væri ekki hægt að sinna starfsemi félagsins sem tengist björgunar- og slökkvistarfi né flugbrautum vallarins og því væri brýn þörf á veitingu bráðabirgðaheimildar. Á gildistíma bráðabirgðaheimildarinnar sé stefnt að því að vinna áfram að umbótum í þágu umhverfisins og innleiðing þeirra undirbúin eins og kostur sé, en starfsemi Reykjavíkurflugvallar muni að öðru leyti vera óbreytt. Áfram verði unnið samkvæmt gamla starfsleyfinu sem var fyrst gefið út 2016 en rann eins og áður segir út í lok árs 2025.
Í ákvörðuninni segir enn fremur að samkvæmt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sé umsóknin um endurnýjun starfsleyfisins, frá í júní 2024, fullnægjandi. Heilbrigðisefttirlitið segir ýmsar ástæður fyrir þessum drætti á vinnslu nýs starfsleyfis. Drög að nýjum starfsleyfisskilyrðum hafi verið send Isavia innanlandsflugvöllum til kynningar og athugasemda í lok nóvember 2025. Félagið hafi gagnrýnt stuttan tímafrest til að koma með athugasemdir við ný starfsleyfisskilyrði. Segist heilbrigðiseftirlitið þá hafa bent félaginu á að óska eftir bráðabirgðaheimild frá Umhverfis- og orkustofnun til að ekki yrði rof á rekstri flugvallarins þegar gildistíma starfsleyfisins lyki, þann 31. desember 2025, á meðan verið væri að ljúka vinnslu nýs starfsleyfis.
Segir enn fremur í ákvörðuninni um veitingu bráðabirgðaheimildarinnar að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur taki fram að jákvæðar umsagnir liggi fyrir frá skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa um að starfsemin sé í samræmi við skipulag og notkun húsnæðisins sé heimil. Í umsögn heilbrigðiseftirlitsins sé þess getið að fjöldi kvartana hafi borist vegna hávaða og ónæðis frá starfseminni og að í drögum að nýjum starfsleyfisskilyrðum séu ákvæði sem ætlað sé að setja starfseminni skorður og koma til móts við kvartanir. Isavia innanlandsflugvellir meti þessi nýju starfsleyfisskilyrði sem mjög íþyngjandi og sé athugasemda félagsins sem og annarra hlutaðeigandi stjórnvalda við drögin að nýjum starfsleyfisskilyrðum beðið. Í framhaldinu sé nauðsynlegt að hafa tíma til að vinna úr athugasemdunum og skoða hvort gera þurfi breytingar á drögunum í kjölfarið.
Hverjar tillögurnar að hinum hertu skilyrðum fyrir starfsemi flugvallarins nákvæmlega eru kemur ekki fram í ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar en miðað við tilvísunina í umsögn heilbrigðiseftirlitsins virðist ekki útilokað að skilyrðunum verði breytt.
Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til Umhverfis- og orkustofnunar kom fram að brýnar ástæður væru fyrir því að veita bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Reykjavíkurflugvallar. Sjúkraflug fari um flugvöllinn, þar sé aðstaða fyrir leitar- og björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar og einnig sinni Reykjavíkurflugvöllur hlutverki varaflugvallar. Mikilvægt væri að ekki yrði rof á þessari þjónustu flugvallarins.
Umhverfis – og orkustofnun samþykkti að veita heimildina með vísan til þess að tilfellið félli undir skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir fyrir veitingu slíkra heimilda. Segir stofnunin ljóst að forsendur séu fyrir beitingu lagaákvæðisins meðal annars vegna mikilvægis Reykjavíkurflugvallar fyrir samfélagið allt þar sem flugvöllurinn sinni m.a. sjúkraflugi, aðstöðu fyrir leitar- og björgunarþyrlur, innanlandsflugi auk þess að vera varaflugvöllur í millilandaflugi. Enn fremur liggi fyrir að fullnægjandi umsókn um starfsleyfi sé í vinnslu og ljóst sé að Isavia innanlandsflugvellir beri ekki ábyrgð á þeim töfum sem hafi orðið.
Bráðabirgðaheimildin gildir þar til nýtt starfsleyfi hefur verið gefið út en þó ekki lengur en til loka þessa árs.