fbpx
Fimmtudagur 08.janúar 2026
Fréttir

Síbrotamaður á skilorði rændi áfengi á skólalóð

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 7. janúar 2026 12:00

Mynd úr safni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem setið hefur í gæsluvarðhaldi síðan í ágúst síðastliðnum eftir að hann var handtekinn fyrir að hafa ásamt öðrum framið vopnað rán á skólalóð en ránsfengurinn var áfengi. Þegar ránið var framið var maðurinn á skilorði en hann hefur þar að auki verið ákærður fyrir tvær stórfelldar líkamsárásir.

Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms að maðurinn hafi hlotið 18 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm í máli frá árinu 2024 vegna margvíslegra brota á árunum 2022-2024.

Segir í úrskurðinum að upphaf málsins frá í ágúst megi rekja til tilkynningar um að áfengi hafi verið rænt úr bifreið. Fram kom að árásarþoli hafi verið tekinn hálstaki og annar árásaraðilinn hafi verið með hníf á vettvangi. Á vettvangi lýsti brotaþoli atvikum, fyrir lögreglu, með þeim hætti að tveir aðilar hafi komið inn í bifreið hans, annar þeirra hafi verið umræddur maður og hafi hann sest í framsæti bifreiðarinnar með hníf í hendi en annar aðili hafi sest beint fyrir aftan ökumannssætið og hafi tekið um háls brotaþola aftan frá en maðurinn, sem úrskurðurinn snýr að, kýlt hann í hægri kinn og haldið hnífnum við læri hans. Hafi þeir skipað honum að opna skottið og þeir þá stigið allir út úr bifreiðinni. Sagði þolandinn mennina tvo þá hafa tekið allt áfengi sem hann geymdi í skottinu en þá hafi jafnframt stúlka komið og aðstoðað þá við að bera áfengið í burtu.

Skólalóð

Segir í úrskurðinum að um hafi verið að ræða 5-6 kassa af bjór, 3 flöskur af 500 ml. Opal, 2 hvítvínsflöskur, 12 dósir af Bara, 12 1l. flöskur af Vodka og 40 flöskur af 500 ml. Vodka.

Þolandinn sagðist hafa ekið fram hjá árásaraðilunum þegar að hann fór í burtu og þá náð myndefni af þeim á bifreið sinni. Áfengið fannst síðan hér og þar á skólalóðinni þar sem atvikið átti sér stað. Þá fundust flöskur í bifreið fyrir utan heimili mannsins þar sem hann og félagi hans voru handteknir.

Á upptöku úr bifreið brotaþolans mátti sjá mennina tvo opna skottið og manninn halda á hníf.

Maðurinn hefur verið ákærður fyrir þetta rán en einnig hefur hann verið ákærður fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, fíkniefnalögum, vopnalögum, lögum um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum og lögreglulögum.

Ákærurnar fyrir brotin gegn almennum hegningarlögum snúa, auk ránsins á skólalóðinni, í fyrsta lagi að stórfelldri líkamsárás í nóvember 2022. Samkvæmt ákærunni réðst maðurinn þá á göngustíg í Reykjavík, í félagi við þekktan aðila, að karlmanni og stakk hann í bakið með hníf með þeim afleiðingum að hann hlaut opið sár á kviðvegg, yfirborðsáverka á nefi, yfirborðsáverka á eyra og marga yfirborðsáverka á höfði, mar á hné og áverka á öðrum vöðvum og sinum við fótlegg.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir stórfellda líkamsárás, í félagi við annan aðila, með því að hafa 31. desember 2023, í Reykjavík, veist með ofbeldi að tveimur konum með höggum og spörkum og kastað í þær flöskum, glösum, borði, stólum, vegghillu og hurð með þeim afleiðingum að þær hlutu báðar nokkra áverka.

Bæði Landsréttur og Héraðsdómur féllust á það að í ljósi brotaferils mannsins, þess að hann hafi rofið skilorð og sæti ákæru fyrir alvarleg brot dygðu ekki önnur úrræði en að úrskurða hann í áframhaldandi gæsluvarðhald.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögregla skoðar hvort piltarnir hafi ætlað að ógna öðrum með skotvopnunum

Lögregla skoðar hvort piltarnir hafi ætlað að ógna öðrum með skotvopnunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Þór fer ekki fram í borginni – Svona útskýrir hann ákvörðun sína

Guðlaugur Þór fer ekki fram í borginni – Svona útskýrir hann ákvörðun sína