Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus við Háskóla Íslands gagnrýnir Jóhann Pál Jóhannsson umhverfisráðherra fyrir áform hans um að draga til baka, að minnsta kosti að einhverju leyti, áætlun, sem kynnt hefur verið, um að breyta ákvæðum reglugerða í þá átt að ýmsar einnota plastvörur verði að vera merktar á íslensku. Segir Eiríkur rök Jóhanns Páls fyrir þessu vera stórvarasöm.
Áformin snúa að innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins. Félag atvinnurekenda og fleiri hagsmunasamtök hafa mótmælt þessu og sagt að vegna smæðar íslenska markaðarins yrðu afleiðingarnar verðhækkanir en meðal vara sem falla undir tilskipunina eru tíðavörur og blautþurrkur. Er því haldið fram að þar af leiðandi muni þessar breytingar bitna helst á konum og barnafjölskyldum.
Í samtali við Vísi segir Jóhann Páll að hann muni gæta hagsmuna Íslands og að mögulegt sé að reglurnar verði ekki innleiddar að fullu. Jóhann Páll segir að þessi „stranga tungumálakrafa“ feli í sér mjög íþyngjandi kröfur á atvinnulíf og neytendur. Ráðherrann segir:
„Þetta bitnar sérstaklega illa á Íslandi af því við erum örhagkerfi og við erum fámennt málsvæði og það skiptir gríðarlega miklu máli að við höldum vöku okkar og tryggjum að svona reglur séu aðlagaðar að íslenskum aðstæðum. Ég mun gæta ítrustu hagmuna Íslands í þessu máli.“
Eiríkur segir í færslu á Facebook að þetta sé varasamt hjá ráðherranum að segja:
„Þau rök að um sé að ræða svo „fámennt málsvæði“ eru stórvarasöm vegna þess að þeim er hægt að beita á svo mörgum sviðum.“
Í pistli þar sem Eiríkur gerir frekari grein fyrir rökum sínum rifjar hann upp umsögn Félags atvinnurekenda um breytingarnar. Þar hafi hagsmunir íslenskunnar hvergi verið nefndir. Hann segir að fámennt málsvæði eigi að taka svona breytingum fagnandi:
„En einmitt þess vegna erum við svo viðkvæm fyrir utanaðkomandi þrýstingi og því enn mikilvægara en ella að við tökum því fegins hendi þegar færi gefst á að gera íslenskunni hærra undir höfði. Það skýtur skökku við að ríkisstjórn sem segist í stefnuyfirlýsingu sinni munu „hlúa að íslenskri tungu“ skuli ætla að krefjast undanþágu frá kröfu um notkun tungunnar.“
Eiríkur segir Jóhann Pál beita hættulegum rökum með því að kalla eftir sérstökum reglum fyrir Ísland í þessu tilfelli:
„Rökin um að sérreglur þurfi að gilda fyrir fámenn málsvæði eru stórhættuleg vegna þess að þau tengjast ekki þessu máli sérstaklega – þeim er hægt að beita til að réttlæta alls konar tilslakananir á notkun íslensku. Að því marki sem sérreglur þarf fyrir fámenn málsvæði ættu þær að styrkja málið, ekki veikja.“
Eiríkur segir að vissulega sé það hagsmunamál fyrir neytendur að fá vörur á sem lægstu verði en líka að fá allar upplýsingar um hana á móðurmáli sínu. Það séu hagsmunir íslenskra neytenda að ekki verði slakað á kröfum um notkun íslenskunnar á öllum sviðum og svo snúist þetta auðvitað um hagsmuni tungumálsins:
„Hver ætlar að gæta þeirra? Þjóðtungan virðist því miður ekki eiga sér marga málsvara í ríkisstjórn.“
Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri Grænna tekur heilshugar undir með Eiríki og gagnrýnir Jóhann Pál:
„Ömurlegt að heyra þessi rök fullum fetum. Við tókum slagi árum saman til að tryggja að fylgiseðlar með lyfjum væru á íslensku. Tungumál kosta og íslenskan þarf á fólki að halda sem skilur það.“