Í grein sinni bendir hann á að gatnagerðargjöld í Reykjavík hafi hækkað um allt að 91% um mánaðamótin og byggist hækkunin á samþykkt fyrrverandi meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar.
„Gatnagerðargjöld hækka um 85% á íbúðir í fjölbýlishúsum, 33% á raðhús og 38% á atvinnuhúsnæði. Í raun er um meiri hækkun að ræða því með breytingunni verður einnig tekin upp gjaldtaka á bíla- og hjólageymslur. Að því gjaldi viðbættu má reikna með að hækkunin nemi 90-100% fyrir íbúðir í fjölbýlishúsum,“ segir Kjartan sem viðrar áhyggjur sínar af þessari þróun.
Hann nefnir dæmi máli sínu til stuðnings og segir að gatnagerðargjald 100 fermetra íbúðar í fjölbýlishúsi (120 fm brúttó) hafi numið 1.960 þúsund krónum fyrir hækkun en 3.696 þúsund krónum eftir hækkun.
Í grein sinni segir Kjartan að þessi háu gatnagerðargjöld bætist við önnur gjöld og kvaðir sem húsbyggjendur í borginni eru krafðir um. Nefnir hann til dæmis byggingarréttargjöld (innviðagjöld), sem nema tugum þúsunda króna á nettófermetra í fjölbýlishúsi.
Kjartan hefur áhyggjur af þessari þróun og segir hann að á undanförnum árum hafi íbúðir hækkað svo í verði að venjulegt launafólk hefur varla kost á að kaupa nýja íbúð, hvað þá láglaunafólk.
„Tugþúsundir Reykvíkinga hafa hrakist út á afar dýran leigumarkað vegna húsnæðisstefnu Samfylkingarinnar, sem byggist á lóðaskorti og sligandi gjaldheimtu af nýjum íbúðum.“
Hann telur að verðhækkanir borgarinnar muni hafa áhrif á landsvísu og segir að miklar verðhækkanir á húsnæði í Reykjavík undanfarin ár eigi stóran þátt í þeirri verðbólgu sem hefur geisað.
„Við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum lagt til að fallið verði frá umræddri hækkun gatnagerðargjalda í Reykjavík í því skyni að draga úr byggingarkostnaði. Tillagan felur í sér að gatnagerðargjald lækki til samræmis við fyrra hlutfall,“ segir hann og bætir við að æskilegt hefði verið að taka tillöguna fyrir á fundi síðasta þriðjudag.
„Meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri-grænna knúði hins vegar fram frestun málsins í krafti atkvæða. Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Vinstri-grænna, sem greiddu atkvæði gegn hækkuninni í febrúar sl., virðast nú styðja hana.“