Vilhjálmur ræddi fall Play í Bítinu á Bylgjunni í morgun en eins og fram kom í fréttum í gær hefur Play hætt starfsemi og missa um 400 manns vinnuna.
Í viðtalinu sagðist Vilhjálmur óttast að það sama muni gerast núna og gerðist í kjölfarið á falli WOW air í mars 2019.
„Ég vil minna á að þegar WOW air varð gjaldþrota árið 2019 þá hækkuðu flugfargjöld, takið eftir, um 20,6% á milli mánaða sem síðan spýttist beint út í neysluvísitöluna í hærri verðbólgu. Ég held að það muni gerast það nákvæmlega sama núna. Núna munum við sjá verðbólguna lyftast upp, einfaldlega vegna þess að samkeppnin er ekki lengur til staðar,” sagði hann.
Vilhjálmur skrifaði færslu á Facebook þar sem hann varpaði ljósi á tap lífeyrissjóða við gjaldþrot Play. Birta átti til dæmis rúmlega 10 prósenta hlut í félaginu nemur tap sjóðsins 1,7 milljörðum króna samkvæmt úttekt Vilhjálms.
Vilhjálmur er gagnrýninn á fjárfestingar lífeyrissjóða í fyrirtækjum í flugbransanum en segir einnig að víkka þurfi út heimildir sjóðanna til að fjárfesta erlendis.
„Ég held það liggi alveg fyrir þegar Play var að fara á laggirnar þá voru skiptar skoðanir á meðal lífeyrissjóðina um að taka þátt í þessari fjárfestingu, einfaldlega vegna þess að hún þætti of áhættusöm,” sagði Vilhjálmur í Bítinu og nefndi að ekkert flugfélag hefði lifað af samkeppnina við Icelandair.
Vilhjálmur bendir á að fjárfestingar norska olíusjóðsins séu nær alfarið erlendis og gera þurfi lífeyrissjóðunum hér á landi kleift að fjárfesta í auknum mæli erlendis.
„Við verðum líka að átta okkur á því að þegar þú ert búinn að setja 5.000 milljarða inn í íslenskt hagkerfi þá eru það bara neytendur á Íslandi sem þurfa að standa undir ávöxtun á því fjármagni. Það birtist meðal annars í hærra vöruverði, hærri vöxtum og svo framvegis.“
Vilhjálmur segir galið að lífeyrissjóðir eigi stóra hluti í dagvörurisum á borð við Högum og Festi. „Þeir verða að varpa því út í verðlagið með einum eða öðrum hætti til að geta skilað lífeyrissjóðunum þeirri ávöxtun sem þeir óska eftir,“ sagði hann.
Hann vill frekar að sjóðirnir beini sjónum sínum í auknum mæli að innviðum eins og framkvæmdum í vegakerfinu – eitthvað sem kæmi landsmönnum til góða.
„Það er kjörin leið fyrir lífeyrissjóði að taka þátt í eins og þeir gerðu að hluta til í Hvalfjarðargöngum. Ég get samt rifjað upp þegar Hvalfjarðargöngin voru gerð árið 1998 voru lífeyrissjóðir ekki tilbúnir til þess í upphafi. Það var fjármagnað erlendis frá. Síðan þegar menn sáu hvað þetta gekk rosalega vel þá endurfjármagnaði Spölur sig og íslenskir lífeyrissjóðir komu inn í það hlutverk,“ sagði Vilhjálmur að lokum í viðtalinu á Bylgjunni.