Heilbrigðisráðuneytið tekur ekki undir það með konu nokkurri að málsmeðferð embættis landlæknis á kvörtun hennar hefði verið ófullnægjandi. Konan taldi sig hafa orðið fyrir barðinu á ófullnægjandi þjónustu og mistökum heilbrigðisstarfsfólks. Hlaut konan töluverða áverka í bílslysi. Hún var send heim samdægurs en var með viðvarandi einkenni og leitaði aftur á heilsugæslustöð en eftir rannsóknir var hún aftur send heim. Hins vegar var hún áfram með einkenni og eftir að eitt og hálft ár var liðið frá bílslysinu var konan greind með MS-sjúkdóminn. Landlæknir taldi hins vegar ekkert hafa verið athugavert við þá heilbrigðisþjónustu sem konan fékk eftir slysið.
Bílslysið átti sér stað í upphafi árs 2022 en koan var strax í kjölfar þess flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) á Selfossi. Í slysinu hlaut konan áverka á kviðarholi, öxl, höfuðáverka og áverka á brjóstkassa. Hún fór í rannsóknir og var útskrifuð samdægurs. Konan fann hins vegar áfram fyrir höfuðverkjum og leitaði til heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu í apríl 2022 vegna minnisleysis. Í niðurstöðum myndgreiningar kom fram að ekki hefðu sést blæðingar eða fyrirferðir í höfði og var konan send heim án frekari rannsókna.
Konan losnaði hins vegar ekki við að hafa einkenni og var í lok árs 2022 greind með andlitslömun, Bell‘s Palsy. Einkenni Bell´s Palsy hverfa yfirleitt á nokkrum vikum en konan vildi meina að það hefði ekki átt við í hennar tilviki heldur hafi hún í kjölfarið lamast á vinstri hlið líkamans. Sumarið 2023 leitaði hún aftur til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna máttleysis á vinstri hlið líkamans. Konan var send í segulómun nokkrum dögum síðar og var í kjölfarið greind með MS-sjúkdóminn.
Í upphafi þessa árs lagði konan fram formlega kvörtun til embættis landlæknis. Embættið mat það hins vegar sem svo að ekkert hefði fram komið í sjúkragögnum konunnar sem benti til þess að um mistök eða vanrækslu gæti hafa verið að ræða við veitingu heilbrigðisþjónustu í kjölfar slyssins. Var það ákvörðun embættisins að taka kvörtunina ekki til frekari efnislegrar meðferðar og var máli konunnar lokað. Þá niðurstöðu kærði konan til ráðuneytisins.
Konan vísaði til þess að landlæknisembættið hefði ekki tekið afstöðu til þess í ákvörðun sinni að hún hefði ekki verið myndgreind eða rannsökuð frekar eftir að hún fór að kvarta undan höfuðverkjum og minnisleysi. Embættið hafi aðeins tekið afstöðu til afmarkaðs hluta atburðarrásarinnar sem varðaði bílslysið sjálft.
Einnig byggði konan á að embættið hafi í ákvörðun sinni ekki tekið afstöðu til þeirra atvika sem væro að rekja til andlitslömunar hennar og vangreiningar á MS-sjúkdómnum. Aðeins væri tekið á því álitaefni hvort tengsl væru á milli MS-sjúkdómsins og bílslyssins.
Vildi konan því meina að mál hennar hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti eins og skilyrði væru um í stjórnsýslulögum.
Í andsvörum embættis landlæknis kom meðal annars fram að skoðun sérfræðinga á sjúkragögnum konunnar hefði leitt í ljós að engin mistök eða vanræksla hefðu orðið þegar konunni var veitt heilbrigðisþjónusta í kjölfar bílslyssins. Því hafi ekki verið tilefni til frekari rannsóknar á málinu.
Sérstaklega tiltekur embættið að í sjúkraskrá konunnar komi ekki fram upplýsingar um einkenni sem gefi tilefni til myndgreiningar af höfði eða veki grun um alvarlegan höfuðáverka í kjölfar bílslyssins. Þá vísaði embættið til matsgerðar sem fylgdi kvörtun konunnar, sem unnin var af taugalækni, þar sem fram kom að ekki hefði verið sýnt fram á tengsl MS-sjúkdómsins við slys eða áverka sem konan varð fyrir.
Vísaði embættið einnig til þess að hluti af því að veita góða heilbrigðisþjónustu væri að láta sjúklinga ekki gangast undir óþarfa rannsóknir.
Í niðurstöðu heilbrigðisráðuneytsins er meðal annars imprað á því að konan telji Landlækni ekkert hafa skoðað þá þjónustu sem hún hlaut frá í apríl 2022 og fram til þess að hún var greind með MS sumarið 2023. Aðeins sé einblínt á bílslysið í upphafi árs 2022 og fyrstu vikurnar eftir það. Mest fer þó fyrir rökum ráðuneytisins fyrir því að málsmeðferð embættis landlæknis hafi verið í samræmi við nýleg lög um meðferð kvartana sem kveði á um að embættið þurfi ekki að rannsaka mál frekar ef frummat gefi til kynna að kvörtun sé tilhæfulaus.
Í niðurstöðunni segir enn fremur að í niðurstöðu embættis landlæknis í máli konunnar komi fram að ekkert bendi til þess að hún hafi orðið fyrir mistökum eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu í kjölfar bílslyssins sem hún lenti í upphafi árs árið 2022 eða í aðdraganda greiningar á MS-sjúkdómnum árið 2023. Sé niðurstaða embættisins byggð á kvörtun konunnar og töluverðu magni gagna sem fylgdi kvörtuninni. Þá tiltaki embættið að gögn málsins beri ekki með sér að tilefni sé til frekari faglegrar rannsóknar. Er það því niðurstaða ráðuneytisins að málið hafi verið rannsakað með fullnægjandi hætti.