Jón Þór var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í gærmorgun þar sem hann tjáði sig meðal annars um málefni Play og spáði gjaldþroti félagsins. Hélt hann því fram að Play væri að selja ferðir sem vitað er að verði ekki flognar. Þetta segir Einar Örn að sé alrangt og það sjái það allir sem vilja sjá.
Sjá einnig: Spáir gjaldþroti Play – „Nú er verið að selja ferðir sem við vitum að verða ekki flognar”
„Ég er almennt ekki vanur því að svara einhverju svona sem fólk segir um félagið okkar út um bæinn – maður hefði þá ekki annað að gera – en þetta tal í þessum manni var svo yfirgengilegt að það var nú ekki hjá því komist en að bregðast við og tjá sig til baka um málið,“ sagði Einar Örn í viðtali við Bítið í morgun.
Einar Örn benti á að Jón Þór væri starfsmaður Icelandair og formaður flugmannafélags þeirra. Innan FÍA væru fyrst og fremst flugmenn Icelandair þó vissulega sé þar einnig að finna flugmenn frá Atlanta og öðrum í litlum mæli.
„Þannig að hér er svolítið eins og starfsmaður Bónus væri að tala um Krónuna eða starfsmaður Landsbankans væri að segja að Kvika væri að fara á hausinn eða eitthvað álíka. Það verður að taka þetta í því ljósi að hér er maður sem virðist vera svolítið vanstilltur að hrauna yfir samkeppnisaðila vinnuveitanda síns,“ sagði Einar Örn.
Play brást hart við viðtali Jóns Þórs í gær og sendi meðal annars frá sér yfirlýsingu þar sem orðum Jóns Þórs var vísað á bug.
Einar Örn sagðist í viðtali við Bítið í morgun ekki átta sig á því hvort ummæli Jóns Þórs hefðu fallið með velþóknun vinnuveitanda hans eða félaga hans innan FÍA.
„En ef ég hefði eitthvað með málið að gera þá hefði ég verulegar áhyggjur af því að að hafa mann í vinnu sem hagar sér með þessum hætti. Því auðvitað er meira og minna allt sem hann segir í viðtalinu við ykkur bara rangt og vitleysa,“ sagði hann.
Þegar Einar var spurður hvort það væri ekki staðreynd að íslenska flugrekstrarleyfinu verði skilað og félagið rekið á Möltu, sagði hann:
„Við höfum sagt að íslenska félagið Play muni skila íslenska flugrekstrarleyfinu en það hefur ekkert með það að gera að félagið fari á hausinn eins og hann talar um. Félagið var þvert á móti fyrir fáeinum dögum að tilkynna um fjármögnun upp á tæplega þrjá milljarða króna,“ sagði Einar Örn í morgun.
„Þetta viðtal kemur beint í kjölfarið á því. Þetta hljómar örvæntingarfullt hjá þeim, þeir hafa kannski haldið að fjármögnun sem við höfum sagt að við ætluðum að fara í myndi ekki ganga og voru sjálfsagt að vona að þannig færi. Svo kemur þetta örvæntingarfulla heróp frá þeim í kjölfarið á okkar tilkynningu um að fjármögnun sé lokið. Að tala um gjaldþrot Play fáeinum dögum eftir það hljómar auðvitað stórfurðulega í eyrum allra sem eitthvað skilja,“ bætti hann við.
Einar sagði það gjörsamlega úr lausu lofti gripið að Play væri að selja ferðir sem vitað sé að verði ekki farnar.
„Hann talar sérstaklega um að við munum ekki fljúga þau flug sem sem eru til sölu. Aftur, annað hvort hefur hann ekkert kynnt sér málið, ekki farið inn á heimasíðu Play, sem er skrýtið ef hann ætlar að tala um Play, eða að hann veit hvað hann er að tala um og segir vísvitandi ósátt. Og ég veit ekki hvort er verra,“ sagði Einar Örn.
Hann rifjaði upp að í byrjun júní hefði Play tilkynnt að félagið myndi hætta að fljúga til Norður-Ameríku og loka svokölluðum „tengibanka“ þangað.
„Sama dag tókum við úr sölu þau flug sem við hættum við að fljúga enda má auðvelda sjá á heimasíðu Play að síðasta flugið til Bandaríkjanna verður í október, í næsta mánuði. Og þau eru faktískt ekki mjög mörg sem eiga eftir að verða, þau sem eru í sölu eru í áætlun okkar. Það sem hann er að segja er að reyna að skapa einhverja vantrú á Play, sínum vinnuveitanda til hagsbóta en okkur til tjóns. Það er það sem honum gengur til,“ sagði Einar meðal annars í viðtalinu sem má nálgast í heild sinni hér eða hér að neðan.