Yfirskattanefnd hefur staðfest úrskurð ríkisskattstjóra um að hjón sem voru eigendur íbúðar í fjölbýlishúsi en seldu hana til fyrirtækis, í eigu föður annars þeirra, skuli greiða skatt af þeim hagnaði sem skapaðist þegar íbúðin var seld fyrirtækinu á verði sem var um 10 milljónum króna yfir ásettu verði.
Kæran var lögð fram til nefndarinnar í febrúar á þessu ári en úrskurður ríkisskattstjóra var kveðinn upp í nóvember á síðasta ári. Snýr hann að endurálagningu opinberra gjalda fyrir árið 2019. Hjónunum voru færðar til tekna í skattframtali þeirra 8,3 milljónir vegna sölu þeirra á íbúðinni, til fyrirtækisins, á meintu yfirverði á árinu 2018, það er 4.150.000 krónur í tilviki hvors þeirra fyrir sig. Þar að auki var bætt við 25 prósent álagi.
Þessi hækkun skattstofns hjónanna varð til að barnabætur hvors þeirra lækkuðu um rúmlega 400.000 krónur og vaxtabætur þeirra, hvors um sig, voru lækkaðar um 225.000 krónur.
Hjónin seldu íbúðina til fyrirtækisins árið 2018 fyrir 66,2 milljónir króna. Fasteignamat íbúðarinnar þetta ár var hins vegar 47,75 milljónir króna. Óskaði ríkisskattstjóri á síðasta ári, með vísan til þessa og að eigandi fyrirtækisins væri faðir annars hjónanna, eftir ýmsum gögnum um söluna. Vildi fyrirtækið meina að horft hefði verið til meðalverðs seldra fasteigna á svæðinu. Íbúðin væri þar að auki á efstu hæð og búið að leggja mikið í hana.
Vildi ríkisskattstjóri meina að eðlilegra hefði verið að miða við fasteignamatið, markaðsvirði samskonar eigna sem var um 56,5 milljónir króna eða í mesta lagi ásett verð, þegar íbúðin var auglýst til sölu, sem var 57,9 milljónir króna. Hafði ríkisskattstjóri óskað eftir rökstuðningi, áður en úrskurðurinn var kveðinn upp, fyrir því hvers vegna þetta var ekki gert en ekkert svar barst frá hjónunum. Vildi ríkisskattstjóri meina að í krafti tengsla sinna við umrætt fyrirtæki hefðu hjónin selt því íbúðina á óeðlilega háu verði. Mismunurinn á ásetta verðinu og hinu endanlega söluverði, 8,3 milljónir, var því færður þeim til tekna.
Hjónin vildu hins vegar meina að úrskurður ríkisskattstjóra og bréf vegna málsins hefði aldrei borist þeim. Þau hafi ekki frétt af málinu fyrr en vinnuveitandi annars þeirra upplýsti að útborguð laun myndu skerðast vegna skráðrar skattaskuldar. Þá hafi þau haft samband við ríkisskattstjóra og fengið afrit af úrskurðinum. Í ljósi þessa hafi andmælaréttur þeirra ekki verið virtur og heldur hafi ekki verið staðið við rannsóknarskyldu ríkisskattstjóra. Vildu þau meina að engin tilraun hafi verið gerð til að hafa upp á þeim.
Hjónin sögðu ekki hafa átt neina aðkomu að rekstri fyrirtækisins, þegar það keypti íbúðina, en annað þeirra, afkomandi eigandans, hafi verið skráð framkvæmdastjóri að nafninu til en ekkert komið að rekstrinum síðan 2016.
Vildu hjónin meina að fyrirtækið hafi keypt íbúðina þar sem hún sé í sama húsi og önnur íbúð sem það eigi. Húsið sé mjög vandað og fyrirtækið því vitað að um góða fjárfestingu væri að ræða. Fyrirtækið hafi átt hæsta tilboðið. Kaupverðið hafi verið fyllilega eðlilegt miðað við staðsetningu íbúðarinnar og þá hækkun sem orðið hefði á sambærilegum eignum á svæðinu. Þau hafi enga aðkomu haft að tilboðinu sem hefði einfaldlega verið það hæsta sem borist hafi og því verið tekið. Ríkisskattstjóri hafi miðað við mat eignarinnar í mars 2018 en salan hafi átt sér stað í apríl og þetta ár hafi fasteignamarkaðurinn verið á siglingu og eignir sambærilegar þeirra hafi á þessum mánuði hækkað í verði. Eignir af þessu tagi og með þessa staðsetningu hafi oft selst vel yfir ásettu verði.
Vísuðu hjónin því á bug að eitthvað óeðlilegt hefði verið við að þau hefðu selt fyrirtækinu íbúðina þrátt fyrir tengsl þeirra við eigandann. Þau hafi ekki nýtt sér tengslin til að fá greitt óeðlilega hátt verð fyrir íbúðina.
Ríkisskattstjóri sagði í sinni umsögn um kæruna að öll bréf vegna málsins og loks hinn eiginlegi úrskurður hafi verið send í bréfpósti á lögheimili hjónanna. Þar með hafi ekki verið brotið á andmælarétti þeirra og rannsóknarskyldu sinnt. Andsvör hjónanna hafi þar að auki ekki verið studd neinum gögnum og því bæri að hafna þeim. Annað hjónanna hafi verið skráð framkvæmdastjóri fyrirtækisins þegar salan átti sér stað og því hafi þeim borið að rökstyðja þeim mun betur og það með gögnum að fjölskyldutengsl þeirra við eigandann hafi ekki haft nein áhrif á söluverðið.
Ítrekuðu hjónin í sínum athugasemdum við andsvör ríkisskattstjóra að engar sannanir væru fyrir því að þau bréf sem send voru vegna málsins hafi borist þeim.
Yfirskattanefnd segir hins vegar í sinni niðurstöðu að telja verði að bréfin hafi verið send með lögboðnum hætti enda liggi það fyrir í gögnum málsins að þau hafi verið send á lögheimili hjónanna. Ef bréfin hafi ekki borist hjónunum sé það á þeirra ábyrgð. Það liggi fyrir að bréfin hafi ekki verið endursend og því verði að líta svo á að þau hafi komist til skila. Þar með sé ekki hægt að fella úrskurð ríkisskattstjóra úr gildi á þeim grundvelli að ekki hafi verið gætt að andmælarétti og rannsóknarskyldu.
Nefndin segir þær skýringar hjónanna fjarstæðukenndar að íbúðin hafi einfaldlega hækkað svo mikið í verði, frá því að hún var auglýst til sölu í mars 2018 og þar til að hún var seld í apríl sama ár, vegna þróunar fasteignaverðs á markaði. Kæran sé ekki studd neinum gögnum. Þau hafi sagst hafa tekið hæsta tilboðinu en ekkert komi fram í kærunni um önnur tilboð í íbúðina.
Segir nefndin að meðalverð íbúða á sama svæði, af svipaðri stærð í húsum sem byggð hafi verið á svipuðum tíma og seldar á árinu 2018, hafi verið á áþekku róli og nemi ásettu verði íbúðarinnar í mars 2018 eða um 56 milljónir króna. Það styrki ekki málstað hjónanna.
Telur nefndin því ljóst að þar sem söluverðið hafi verið þetta mikið hærra en ásett verð aðeins mánuði síðar verði að taka undir það að íbúðin hafi verið seld á óeðlilega háu verði. Eðlilegt hafi verið hjá ríkisskattstjóra að miða við ásetta verðið.
Gögn um að það hjónanna sem sé afkomandi eigandans hafi aðeins verið skráður framkvæmdastjóri fyrirtækisins aðeins að nafninu til séu ófullnægjandi. Nefndin segir það líka eðlilegt að leggja álag á hinn hækkaða skattstofn hjónanna þar sem þetta miklir annmarkar hafi verið á skattskilum þeirra.
Hækkun skattstofns hjónanna vegna sölu á íbúð þeirra á yfirverði stendur því óhaggaður.