Menningarmálaráðherra Þýskalands húðskammar Íslendinga og aðrar þjóðir sem hafa hótað sniðgöngu Eurovision ef Ísraelar fá að taka þátt. Velt er vöngum yfir því hvort málið geti markað endalok keppninnar.
Wolfram Weimer, menningarmálaráðherra Þýskalands, var harðorður í garð sniðgönguþjóðanna á laugardag eins og segir í frétt AFP um málið. Sagði hann að verið væri að blanda saman stjórnmálum inn í menningarviðburð sem eigi þar engan stað.
Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarnar vikur hafa nokkrar þjóðir hótað að taka ekki þátt í Eurovision næsta vor fái Ísraelar að taka þátt. Ástæðan sé þjóðarmorðið á Gaza.
Fresturinn til að taka endanlega ákvörðun er um miðjan desember. Slóvenar riðu á vaðið með að hóta sniðgöngu. Í kjölfar þeirra fylgdu Íslendingar, Írar, Hollendingar og Spánverjar. Þá hafa Danir gert fyrirvara við sína þátttöku og talið er að fleiri þjóðir liggi undir feldi, til að mynda Finnar og Pólverjar. Einna mestu máli skiptir hugsanleg sniðganga Spánverja, en þeir eru ein af hinum „stóru fimm“ sem borga mest til keppninnar og þurfa ekki að taka þátt í undankeppnum.
Þá hafa margir krísufundir verið haldnir innan evrópsku sjónvarpssamtakanna EBU, sem skipuleggur keppnina. Hefur Ísraelum verið boðið að draga sig tímabundið úr keppni eða þá að keppa undir hlutlausum fána en þeir ekki tekið það í mál. Þá eiga Ísraelar einnig dygga stuðningsmenn innan Evrópu. Einna helst Þjóðverja, Austurríkismenn, Svisslendinga og Ítali.
„Eurovision var stofnuð til þess að þjappa þjóðum saman með tónlist,“ sagði Weimer í yfirlýsingu á laugardag. „Að útiloka Ísrael núna gengur gegn þessari grundvallarhugmynd og breytir hátíð umburðarlyndis í réttarhöld.“
Vísaði hann í upphaf keppninnar, eftir lok seinni heimsstyrjaldar. „Það er einmitt af því að Eurovision varð til upp úr rústum stríðsins að keppnin ætti ekki að verða vettvangur útilokunar,“ sagði Weimer. „Eurovision er byggð á því að listamenn eru dæmdir út frá list þeirra en ekki þjóðerni. Útilokunarmenning er ekki lausnin, lausnin er fjölbreytni og samheldni.“
Einstaka þjóðir hafa áður ákveðið að taka ekki þátt. En sérfræðingurinn Dean Vuletic segir að sameinað átak margra þjóða gegn þátttöku einnar sé nýtt.
„Þetta sýnir að þetta er alvarleg krísa sem keppnin er í,“ segir hann í viðtali við sjónvarpsstöðina Sky News. Allt að 25 prósent þjóða gætu sniðgengið keppnina, sem er mjög stór hluti og myndi skilja eftir sig stórt gat.
Þá hefur verið rætt um hvort að þjóðirnar sem styðja Ísrael gætu sjálfar sniðgengið keppnina ef EBU ákveður að reka þá úr keppni. En Vuletic segist ekki sannfærður um að þær myndu standa svo fast með Ísraelum að fórna eigin þátttöku.
Engu að síður hefur málið valdið slíku fjaðrafoki og slíkri úlfúð að framtíð keppninnar sem slíkrar er í uppnámi. Það er hvort hún verði minni í sniðum eða verði haldið áfram yfir höfuð.