Maðurinn sem grunaður er um að hafa framið húsbrot í Hafnarfirði aðfaranótt síðastliðins sunnudags og brotið kynferðislega gegn dreng á grunnskólaaldri (á miðstigi grunnskóla) er ekki þekktur í samfélaginu en hefur þó notið álits og virðingar í starfsgreinum sem hann hefur haslað sér völl í. Maðurinn er á fimmtugsaldri, giftur, fjögurra barna faðir.
Fyrrverandi vinnufélagi hans – en maðurinn skipti um starf fyrr á árinu – lýsir honum sem viðkunnanlegum og þægilegum. „Bara mjög þægileg týpa. Ég kunni bara mjög vel við hann og það var algjört sjokk að frétta þetta,“ segir viðkomandi, sem frétti í morgun að umræddur maður væri hinn grunaði í málinu.
Vinnufélaginn fyrrverandi segir að maðurinn hafi um tíma glímt við áfengisvandamál og yfirmenn hafi þrýst á hann um að fara í áfengismeðferð, sem hann og gerði.
Samkvæmt heimildum DV úr annarri átt hafði maðurinn verið edrú um þó nokkurt skeið er hann féll um síðustu helgi og var þá mjög drukkinn.
Eins og áður hefur komið fram hefur lögreglan rökstuddan grun um að alvarlegt brot hafi verið framið í málinu. Maðurinn var úrskurðaður í þriggja daga gæsluvarðhald en gengur nú laus. Ekki þótti vera þörf á lengra gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna. Málið telst ekki upplýst.
Mbl.is greinir frá því að játning liggi ekki fyrir. Einnig segir í frétt mbl.is að hinn grunaði hafi áður starfað við hagsmunagæslu fyrir börn og skrifað um málaflokkinn.
Vísir greinir frá því að drengurinn hafi vaknað um miðja nótt við að maðurinn var inni í herberginu hjá honum.