Ómar Ragnarsson á 85 ára afmæli í dag sem jafnframt er dagur íslenskrar náttúru. Ólafur Sveinsson kvikmyndagerðarmaður hefur unnið að heimildarmynd um baráttu Ómars fyrir náttúruvernd, einkum á árunum 2005-2007 þegar Ómar barðist gegn Kárahnúkavirkjun og stofnaði stjórnmálaflokkinn Íslandshreyfinguna. Ólafur ræddi um myndina, sem hann stefnir á að frumsýna í árslok eða á næsta ári, og Ómar við bæði Bítið á Bylgjunni og Vísi. Ólafur greinir frá því í viðtalinu við Bítið að fyrrum vinnustaður Ómars til áratuga, RÚV, hafi ekki sýnt myndinni neinn áhuga og hafnað því að fá hann sem gest til að ræða myndina og baráttu Ómars fyrir náttúruvernd.
Ómar starfaði fyrir Ríkisútvarpið sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður, einkum í sjónvarpi, á árunum 1969-1988 og aftur frá 1995 þar til hann hætti í föstu starfi vegna aldurs en hélt áfram að vinna að einstökum verkefnum næstu árin eftir það. Ólafur fullyrðir að RÚV hafi ekkert gert til að fjalla um Ómar og baráttu hans fyr vernd íslenskrar náttúru en það liggur ekki fyrir hvort það verður gert í fréttum og Kastljósi í kvöld.
Ólafur segist hafa haft samband við RÚV að fyrra bragði og boðist til að koma í dag, í einhvern þátt, á afmælisdegi Ómars til að ræða mynd sína en enginn áhugi hafi verið á því.
Ólafur segist hafa haft samband við fjölda dagskrárgerðamanna hjá RÚV bæði í sjónvarpi og útvarpi:
„Ég hafði samband við fréttastofuna. Ég hafði samband við Kastljós. Ég hafði samband við Víðsjá. Ég hafði samband við morgunþátt Rásar Tvö og enginn vill bjóða mér eða láta segja frá myndinni.“
Myndin er enn í vinnslu en Ólafur er búinn að setja saman 30 mínútna bút úr henni sem RÚV hafi ekki sýnt áhuga á því að sýna en bútinn má sjá í áðurnefndu viðtali við Vísi.
Ólafur segir þessi viðbrögð RÚV vera sér óskiljanleg:
„Ómar er gersemi og vann í yfir 40 ár hjá Sjónvarpinu (RÚV, innsk DV). Hann kom með landið inn í stofu til landsmanna. Hann var andlit Sjónvarpsins út á við. Það sem er ekki síður sorglegt er það að Ómar er mikill sagnamaður. Hann er alger sagnabrunnur. Það eru ekki bara til óendanlega margar sögur af Ómari heldur kann Ómar að segja óendanlega margar sögur. Ég var að tala við Kristján (Kristjánsson, innsk DV) sem er hjá ykkur á Bylgjunni og hann var einmitt að segja mér sögur af því þegar Ómar var að segja sögur af byrjun Sjónvarpsins og annað því um líkt. Ómar fylgir Sjónvarpinu í 40 ár. Það er að segja þarna er í rauninni saga stofnunarinnar sem var með Ómari. Þeir gerðu ekkert til að ná þessari sögu.“
Ólafur segist vita til þess að Ómar hafi haldið dagbók og sé afar minnugur en það sé dæmigert fyrir Ómar að dagbókin sé skrifuð á dulmáli sem enginn skilji nema hann sjálfur.
Ólafur segist þó enn vongóður um að RÚV muni kaupa mynd hans um Ómar til sýninga þegar hún verður fullkláruð.