fbpx
Laugardagur 13.september 2025
Fréttir

Manndráp í Hlíðarhjalla árið 2005: „Átti að vera skemmtilegt kvöld í góðum vinahóp en endaði hræðilega“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 13. september 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögfræðingarnir Kolka B. Hjaltadóttir og Anna Einarsdóttir ásamt Guðlaugu Ásgeirsdóttur, dóttur Önnu, halda úti hlaðvarpinu True Crime Ísland, sem er vinsælasta hlaðvarp landsins um þessar mundir. Tveir þættir eru komnir út í seríu eitt sem heitir Karlmenn sem drepa karlmenn. 

Í þáttunum fara þremenningarnir yfir sakamál byggt á dómunum sjálfum, en hér á landi eru dómar opinber gögn sem allir hafa aðgang að á netinu. Samkvæmt lögum ber að birta dóma, en einhver misbrestur er á því milli héraðsdómstóla hvenær dómar eru birtir og hvort þeir eru allir birtir. Benda þær á að þær fjalla um mál eins og þau koma fyrir í dómi, eitthvað er stytt og öðru sleppt, og sumt orðað öðruvísi til að gera það skýrara og aðgengilegra. Allir geti lesið dómana sem eru opinberir.

Mál sem sneri um hefðir frá heimalandinu

Í þætti tvö fara þær yfir mál frá árinu 2005 þegar Phong Van Vu, 29 ára, víetnamskur karlmaður var stunginn til bana í Hlíðarhjalla í Kópavogi þann 15. maí. Gerandinn, Phu Tién Nguyén, 33 ára víetnamskur karlmaður, hlaut 16 ára dóm fyrir.

Þar komu saman um sautján manns í matarboði og allir frá Víetnam. Þau voru öll ættingjar eða vinir. Þetta átti að vera skemmtilegt kvöld í góðum vinahóp en endaði hræðilega.“ 

Anna og Kolka segjast hvorug muna eftir málinu, hvorki úr lögfræðináminu eða almennri umræðu, og Guðlaug er fædd sama ár.

Segja þær að það sem vakti áhuga þeirra á málinu hafi verið neyðarvörnin sem gerandi bar við, hefðir og venjur og að fá svona innsýn inn í einhvern annan menningarheim og hvað hnífurinn, morðvopnið, var stórt.

Mér fannst líka þægilegt að lesa þennan dóm að því leytinu til að það er rosalega lítill efi um hvað gerist, af því að þau eru svo mörg að segja frá. Það er hægt að púsla þessu öllu saman.

Það sem vakti athygli okkar í þessu máli var hvernig málið tengdist hefðum og siðum frá Víetnam. Til þess að við myndum skilja málið almennilega þá þurftum við einfaldlega bara að gúggla og spyrja fólk í kringum okkur sem við þekkjum frá Víetnam um hefðir og menningu.

Fara þær yfir þá einstaklinga sem komu við sögu í málinu, gerandinn var rólegur fjölskyldumaður úr Keflavík, sem hafði aldrei komið við sögu löreglu, giftur með tvö börn. Þolandinn var einnig giftur og var eiginkona hans ófrísk að öðru barni þeirra. Voru þeir báðir í matarboðinu ásamt 15 öðrum einstaklingum, fólki á öllum aldri.

Á vettvangi mætti hópur fólks lögreglu

Þann 15. maí 2005 klukkan 22.30 á hvítasunnudegi barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu símtal. Einn af gestunum í matarboðinu tilkynnti að maður hafði verið stunginn með hníf. 

Þegar lögreglan kom á vettvang beið einn maður fyrir utan blokkina, fór með lögregluna inn, þar sem við tók hópur af fólki, sem sagði mann látinn á þriðju hæð.

Þar voru maður og kona á stigaganginum sem héldu á Van Vu. Þau lögðu hann frá sér, lögreglan athugaði lífsmörk en hann var látinn. Var lögreglu vísað á árásarmanninn í íbúðinni þar sem matarboðið var haldið. Gerandinn var handtekinn, áberandi ölvaður. Í íbúðinni var einnig annar maður, særður á læri eftir eggvopn.

Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði gerandinn að brotist hefði út rifrildi um menningu og siði frá Víetnam að gilda þar í landi. Sem sagt hvort fólk sem er frá Víetnam og flytur hingað eigi að halda áfram að halda í þessar hefðir sín á milli. Van Vu og Nguyén rifust og taldi sá síðarnefndi að Van Vu hefði verið dónalegur við sig og ekki uppfyllt þessar hefðir. Þeir hafi síðast sæst.

Nguyén hafi síðan farið inn á baðherbergið, og Van Vu gengið inn á hann og spurt hvort hann vildi slást og byrjað að kýla Nguyén í andlitið. Nguyén segist hafa dottið á hliðina og orðið hræddur. Hann segist hafa fengið högg í andlitið og reynt að verjast með hnefanum en síðan hafi hann dregið upp hníf úr vasanum og hann hafi síðan endað á því að stinga Van Vu.

Aðspurður um af hverju hann væri með hníf á sér svaraði Nguyén því til að það væri siður í Víetnam að leggja hníf undir kodda barna til að vernda þau gegn illum öndum. Tæki hann jafnan hníf með sér að heiman þegar fjölskyldan gisti einhvers staðar líkt og þau gerðu nóttina áður.

Inn á baðherbergið komu 3-4 aðrir karlmenn, afvopnuðu Nguyén, sem fór inn í eldhús að leita að öðrum hníf af því hann hafi upplifað sig í lífshættu. 

Við skýrslutöku sagði hann þá Van Vu ekki hafa þekkst persónulega, hist nokkrum sinnum og ekki átt í deilum fyrr en þetta kvöld. Nguyén vissi fyrst af því degi síðar að Van Vu væri látinn þegar túlkur upplýsti hann um það í gæsluvarðhaldi.

Túlk þurfti í öllum skýrslutökum

Fara þær yfir að allir einstaklingarnir í matarboðinu gáfu skýrslu hjá lögreglu og nokkrir þeirra fyrir dómi. Velta þær fyrir sér hvort það hafi valdið töfum á eða flækt málið að þurfti túlk fyrir þennan stóra hóp. Það er rosalega mikil ábyrgð að vera túlkur. Og þess vegna gildir líka alveg fyrirvari þegar ég er að lesa dóminn, af því þetta er allt frásögn sem hefur farið í gegnum einhvern annan aðila, bara svona byrjunin á einhverjum hvísluleik.

Fara þær yfir frásögn Nguyén og vitnisburð vitna, og ósamræmi sem er í frásögnunum um hvernig átökin á baðherberginu voru. Karlmaður sem gekk á milli Van Vu og Nguyén lýsti því hvernig hann gekk á milli þeirra, og áttaði sig þá á að Nguyén var með hníf. Þessi maður fékk stungusár á lærið, kallaði á aðstoð og þá komu hinir mennirnir að.

Fréttablaðið 6. október 2005.

Hvað eru sönnunargögn fyrir dómi?

Í þættinum fara þær næst yfir hvað getur verið sönnunargögn fyrir dómi. Og fjalla um réttarmeinafræðinga, og hvað þeir gera.

Læknar sem hafa sérhæft sig í réttarlæknisfræði, undirsérgrein sem tengir í raun og veru saman læknisfræði og svo réttarkerfið. Þetta snýr fyrst og fremst að því að rannsaka dauðsföll. Og réttarlæknirinn annast réttarkrufningu þegar lögregluembættin eða héraðssaksóknari óskar eftir því. Og tilgangurinn er að komast að dánarorsök og dánaratvikum.Hvort þetta hafi verið slys, sjálfsvíg, manndráp eða náttúrulegur dauðdagi. Og dánaratvik geta líka náttúrulega bara verið óviss, það getur verið niðurstaðan. Á Íslandi eru framkvæmdar tæplega þrjú hundruð réttarkrufningar á ári og það er gert þarna meinafræðideild Landspítala. Svona rannsóknir eru ótrúlega yfirgripsmiklar og stundum mjög flóknar og tímafrekar, jafnvel þó um sé að ræða náttúrulegan dauðdaga. Auk þess að ákvarða dánaratvik og dánarorsök, þá geta réttarkrufningar líka oft leitt í ljós eitthvað sem var óþekkt áður, til dæmis einhverja sjúkdóma sem að erfast, þannig að það er alveg mjög þýðingarmikið oft fyrir líka nána aðstandendur.

Fjalla þær í  kjölfarið um áverkana á Van Vu. Meðal annars kom fram að ekkert þvag var í þvagblöðru hins látna.

Það benti nefnilega sterklega til þess að hann hefði verið nýlega búinn að pissa, þannig að það í raun og veru styður þá ályktun að það hafi verið hann en ekki gerandinn sem fór inn á klósett. Þannig að þetta er ekki í samræmi við framburð gerandans.

Meta þurfti sakhæfi geranda

Næst koma þær inn á að í málinu þurfti að skoða hvort Nguyén hafi verið sakhæfur. Fjalla þær um sakhæfi og hvað það þýðir. 

Sakhæfið sjálft er lögfræðilegt mat sem þýðir að geðlæknir metur aðila í svona málum og gefur eitthvað álit og hann segir kannski að einstaklingurinn sé ekki sakhæfur, en það er samt alltaf dómarinn sem kemst að niðurstöðu í málinu. Oft er samræmi í því sem geðlæknirinn segir og niðurstöðu dómara en ekki alltaf. Dómarinn er náttúrulega sjálfstæður í störfum sínum og hann er ekki bundinn af neinum.

Niðurstaða geðlæknis var að Nguyén væri sakhæfur, hann gæti þó ekki útilokað að á verknaðarstundu hafi hann verið með skert sakhæfi. Fjalla þremenningarnir frekar um mat geðlæknisins, slys sem Nguyén hafði lent í ári áður, og hvaða áhrif þetta tvennt hafði í málinu.

Þegar kom að því að kveða upp dóm snerist málið um tvö lykilatriði: hvort Nguyén bæri refsiábyrgð á dauða Van Vu og ef svo væri, hvaða refsing ætti þá við. Niðurstaða dómara var sú að framburður Nguyén var metinn ótrúverðugur. Framburðurinn samræmdist ekki öðrum framburðum í málinu, öðrum vitnum og því sem réttarmeinafræðingur staðfesti.

DV 4. apríl 2006.

Hvað er trúverðugleiki og hvernig er hann metinn?

Fjalla þær um hvernig dómari metur trúverðugleika sakborninga og vitna.

Dómara ber skylda til þess að meta hvort framburður vitna eða ákærða sé trúverðugur. Hann á að meta til dæmis ástand og hegðun ákærða við skýrslugjöf. Og það stendur samt ekkert nánar hvernig er ástand, hvernig er hegðun. Og síðan á hann líka að meta stöðugleika í frásögn, sem þýðir ertu að segja það sama hjá lögreglu? Ertu að segja það sama fyrir dómi eða er frásögnin þín alltaf að breytast? Af því að trúverðugleiki hins ákærða er mjög mikilvægt sönnunaratriði. En hérna reyndar höfum við framburð margra aðila en sérstaklega þegar mál sem er bara kannski einn til frásagnar. 

Dæmi um það sem getur dregið úr trúverðugleika framburða ákærða er sem sagt hegðun hans við skýrslugjöf, framburður sem hann gefur fyrir dómi og það er til dæmis ef að hann neitar að svara spurningum en er ekki með góða ástæðu. Það getur til dæmis dregið úr trúverðugleika. Og þá má dómari benda honum á að þögnin geti talist honum í óhag. Og þá ætla ég samt líka að benda á það að að er ekki refsivert að ljúga að dómara ef þú ert ákærður í máli. Þú ert sá ákærði, þú ert sakborningur. Þú mátt ljúga, það er ekki refsivert. Ef þú ert vitni og lýgur, þá er það refsivert. Ef þú ert ákærður og þú ert að ljúga og það kemst upp þá hefur það náttúrlega bara slæm áhrif á niðurstöðuna í að það er metið. Þá ertu bara metinn ótrúverðugur. Fleiri atriði sem geta gert framburð ákærða ótrúverðugan er til dæmis ef hann er alltaf að breyta frásögn. Þá er það metið ekki trúverðugt.

Morgunblaðið 7. apríl 2006. Mynd: Skjáskot timarit.is.

Kom neyðarvörn til álita?

Fara þær einnig yfir neyðarvörn, þar sem athæfi Nguyén eftir að slagsmálin voru stöðvuð inni á baðherginu hafi ekki bent til neyðarvarnar. 

Stuttlega, þá er neyðarvörn þannig á Íslandi að þú mátt ekki beita meiri krafti eða vopnum heldur en þú bara augljóslega þarft. Það er helst bara að flýja ef þú hefur tök á því. Ef einhver ræðst á þig með hnefa, þá máttu ekki nota byssu á móti. 

Dómurinn taldi að ekki væru ekki fyrir hendi nein atriði sem mundu réttlæta mildingu eða mildari refsingu. Það var hins vegar tekið fram að hann ætti ekki sakaferil. Hann ætti lítil börn en það var ekki til þess að draga úr alvarleika verknaðarins. Nguyén  var því dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir manndráp og sérstaklega hættulega líkamsárás. Málið fór til Hæstaréttar þar sem refsing var staðfest. En þó að meirihluti dómara í Héraðsdómi Reykjaness hafi dæmt Nguyén í sextán ára fangelsi, þá var einn dómari ekki sammála um lengd refsingarinnar, sem sagt þessi sextán ár. Í því sem kallast sératkvæði, þá lýsti þessi dómari því yfir að hann teldi ákærða vissulega hafa framið mjög alvarlegt brot. Hann væri sammála því að verknaðurinn væri manndráp og sérstaklega hættuleg líkamsárás og hann hafnaði, rétt eins og hinir dómararnir, því að neyðarvörn gæti átt við í málinu.

Útskýra þær hvað sératkvæði dómara er, og hvort slíkir dómar hafi fordæmi í öðrum málum.

Ef hann hefði ekki gert þetta sératkvæði þá myndum við ekki vita að hann hefði lent í bílslysinu og allt þetta, því það kemur ekki fram hjá meirihlutanum.

Hlusta má á þáttinn í heild sinni hér. Hvetjum við þá sem hafa áhuga á umfjöllun um sakamál á mannamáli til að hlusta. Nýr þáttur kemur vikulega.

Lesa má dóminn í þessum þætti hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sýknaður af ákæru um líkamsárás eftir slagsmál á Þjóðhátíð í Eyjum – Sögðust hafa séð tvo menn koma út úr tjaldinu þeirra

Sýknaður af ákæru um líkamsárás eftir slagsmál á Þjóðhátíð í Eyjum – Sögðust hafa séð tvo menn koma út úr tjaldinu þeirra
Fréttir
Í gær

Fyrrum FBI-fulltrúi: Morðingi Charlie Kirk alls „enginn viðvaningur“

Fyrrum FBI-fulltrúi: Morðingi Charlie Kirk alls „enginn viðvaningur“
Fréttir
Í gær

Segja sveitarfélagið hafa urðað sorp á jörðinni í leyfisleysi í áratugi – Sturtuðu bílhræjum og spilliefnum ofan í gil og mokuðu yfir

Segja sveitarfélagið hafa urðað sorp á jörðinni í leyfisleysi í áratugi – Sturtuðu bílhræjum og spilliefnum ofan í gil og mokuðu yfir
Fréttir
Í gær

Gífurleg heift á bæjarstjórnarfundi í Kópavogi – „Ásakanir minnihlutans á hendur starfsmönnum um vísvitandi útúrsnúning eru ómaklegar og óásættanlegar“

Gífurleg heift á bæjarstjórnarfundi í Kópavogi – „Ásakanir minnihlutans á hendur starfsmönnum um vísvitandi útúrsnúning eru ómaklegar og óásættanlegar“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Var að hita upp afganga þegar hann fékk símtal um stóra vinninginn

Var að hita upp afganga þegar hann fékk símtal um stóra vinninginn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Grískum fíkniefnasala vísað úr landi – Búinn að lifa á bótum síðan 2021

Grískum fíkniefnasala vísað úr landi – Búinn að lifa á bótum síðan 2021