fbpx
Fimmtudagur 07.ágúst 2025
Fréttir

Flosi ómyrkur í máli um árin í ferðaþjónustunni – „Mér þótti yfirmenn mínir oft hegða sér undarlega“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 7. ágúst 2025 10:24

Flosi Þorgeirsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flosi Þorgeirsson tónlistarmaður, annar stjórnanda hlaðvarpsins Draugar Fortíðar og fyrrverandi leiðsögumaður rifjar upp störf sín í ferðaþjónustunni í athyglisverðri færslu á Facebook. Hann segir fyrrum yfirmenn sína hafa brugðist undarlega við aðstæðum sem komu upp í ferðum um landið og hreinlega sýnt af sér meðvirkni og græðgi. Flosi ítrekar einnig fyrri skrif sín um hættur Reynisfjöru og segir það viðhorf hafa verið uppi í ferðaþjónustunni þegar hann starfaði þar að ferðamenn væru óvitar.

Eftir banaslysið í Reynisfjöru um Verslunarmannahelgina var Flosi meðal þeirra sem tjáðu sig um það. Hann sagði þá að þegar hann starfaði sem leiðsögumaður hafi hann alltaf kviðið fyrir því að fara með ferðamannahópa í Reynisfjöru það væri þó engin lausn að banna aðgang að henni heldur yrði að auka fræðslu og kenna fólki að bera virðingu fyrir náttúrunni.

Í nýju færslunni gerir Flosi Reynisfjöru aftur að umtalsefni og rifjar frekar upp reynslu sína af því að fara þangað sem leiðsögumaður:

„Mér fannst stundum sem fólk hreinlega væri ekki að meðtaka það sem ég var að segja þeim. Við leiðsögumennirnir vorum hlaupandi fram og til baka að reyna að fá fólk til passa sig. Ferðamenn eru fullorðið fólk og finnst mörgum ekki gaman að láta segja sér til eins og börnum.“

Það versta

Flosi segir að nú hafi versta tilhugsun hans um hvað gæti gerst í Reynisfjöru, að barn myndi slasast eða láta lífið, ræst. Umræðan um auknar öryggisráðstafanir sé af hinu góða þar sem svona nokkuð megi aldrei koma fyrir aftur.

Flosi rifjar því næst upp störf sín sem leiðsögumaður og óhætt er að segja að hann sé nokkuð gagnrýninn í garð þeirra sem stýrðu för á meðan hann starfaði í ferðaþjónustunni:

„Ég verð þó á minnast á að mér þótti yfirmenn mínir oft hegða sér undarlega og sýna furðulega meðvirkni og/eða græðgi. Farið í norðurljósaferð þó vitað væri að skýjahula væri yfir öllu. Eftir langa ferð í Jökulsárlón vorum við svo föst í Vík í heilar andskotans 45 mínútur.“

Hann segir ástæðuna fyrir töfinni hafa verið skipanir að ofan:

„Tveir ungir menn skiluðu sér ekki. Skrifstofan bannaði okkur að fara. Ég þurfti að standa fyrir nafnakalli á meðal þeirra 61 SEM MÆTTU Á RÉTTUM TÍMA. Reynt var að hringja í þá en ekkert gekk. SAMT MÁTTUM VIÐ EKKI FARA! Þetta er 14-15 tíma ferð og fólk orðið vel lúið. Rútan var öll sjóðandi reið og að niðurlotum komin eftir langan dag. Allir vildu komast á sitt hótel. Hverjum haldið þið að þessi reiði bitni á? Manninum á skrifstofunni sem segir computer says no? Neibb. Leiðsögumanninum.“

Ekki óvitar

Flosi segir að lokum að hann hafi orðið var við skrýtið viðhorf í garð ferðamanna þegar hann starfaði í ferðaþjónustunni og minnir á að Ísland sé ekki eina land heims þar sem náttúran geti verið hættuleg:

„Oft heyrði maður talað um ferðamenn sem óvita sem yrði að passa upp á eins og börn. Útskýringin var sú að Ísland væri svo rosalega hættulegt og að allir þessir ágætu túristar kæmu frá löndum þar sem náttúran er blíð og góð. Ég held að það sé ofmat. Ég hef keyrt í bylmingsstormi á austurströnd Bandaríkjanna og hreinlega aldrei upplifað jafn brjálað veður.“

Segir Flosi og endar færsluna með myndbandi af Youtube sem tekið er í fjöru í Frakklandi þar sjá má einmitt útsog, líkt og í Reynisfjöru, sem verður þess valdandi að fullorðin manneskja hreinlega sogast út í sjó.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Bandaríski blaðamaðurinn fannst heill á húfi

Bandaríski blaðamaðurinn fannst heill á húfi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Faðir mannsins sem lést á tónleikum Oasis varpar ljósi á slysið

Faðir mannsins sem lést á tónleikum Oasis varpar ljósi á slysið
Fréttir
Í gær

Þorvaldur segir líkur á öðru gosi: „Það væri þá í kringum jólin eða eitthvað svoleiðis“

Þorvaldur segir líkur á öðru gosi: „Það væri þá í kringum jólin eða eitthvað svoleiðis“
Fréttir
Í gær

Drengirnir með englaandlitin frömdu hræðilegt ódæði – Móðirin hylmdi yfir með þeim

Drengirnir með englaandlitin frömdu hræðilegt ódæði – Móðirin hylmdi yfir með þeim