Veðurstofa Íslands lýsti í gær yfir goslokum vegna eldgossins sem hófst þann 16. júlí síðastliðinn, en um var að ræða níunda eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni. Gosórói og strókavirkni féllu niður um helgina og er engin virkni lengur í gígunum.
Þorvaldur segir við Morgunblaðið að land sé tekið að rísa aftur við Svartsengi. Þó hafi dregið úr landrisinu sem bendir til þess að innflæði frá dýpri kvikugeymslunni í þá grynnri hafi minnkað. Vegna þess gæti lengri tími liðið þar til grynnri kvikugeymslan fyllist.
„Það væri þá í kringum jólin eða eitthvað svoleiðis, einhvern tímann í desember,“ segir hann við Morgunblaðið. Önnur hugsanleg sviðsmynd er á þá leið að kerfið nái ekki að viðhalda flæðinu úr dýpra kvikuhólfinu og þá stoppi þessi goshrina. Erfitt sé að segja til um framhaldið.
„Ef landrisið helst stöðugt eins og það er núna er langlíklegast að það endi með eldgosi,“ segir Þorvaldur við Morgunblaðið í dag.