Í maí á næsta ári verða sveitarstjórnarkosningar á Íslandi. Íbúar Vestmannaeyja munu samhliða því væntanlega fá tækifæri til segja hug sinn í íbúakosningu um hvort heimila skuli byggð á svæði í bænum sem samkvæmt aðalskipulagi er skilgreint sem þróunarsvæði. Raunin er hins vegar sú að svæðið er inni á hluta hraunsins sem rann í Heimaeyjargosinu 1973 en byggðin sem var þar þá fór undir hraunið og ekki hefur verið byggt þar síðan. Verði af framkvæmdum ætti að vera óhætt að kalla það tímamót í sögu bæjarins og ekki er ólíklegt að um töluvert tilfinningamál sé að ræða fyrir að minnsta kosti einhverja Eyjamenn. Í aðalskipulaginu er einnig tekið fram að verði byggt á svæðinu muni það óhjákvæmilega raska náttúru- og menningarminjum.
Íbúakosningin var rædd á síðasta fundi bæjarráðs og samþykkt að fela framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að undirbúa hana og leggja fyrirkomulag hennar fyrir bæjarráð til samþykktar. Sérstaklega er tekið fram í fundargerð að kosningin muni ekki snúast um að ákveða hvort framkvæmdir á svæðinu verði heimilaðar heldur að kanna hug bæjarbúa til slíkra áforma.
Í fundargerðinni segir að samþykkt hafi verið á fundi bæjarstjórnar í maí 2024 að kanna hug íbúa um hvort hefja skuli vinnu við að byggja upp þróunarsvæðið sem er auðkennt er í aðalskipulaginu með heitinu M2. Áætlað hafi verið að íbúakosningin færi fram samhliða alþingiskosningum sem hafi síðan farið fyrr fram en áætlað var og því ekki nægur tími gefist til að undirbúa íbúakosningu þeim samhliða. Næstu kosningar sé sveitarstjórnarkosningar vorið 2026 og muni þá íbúakosningin fara fram samhliða þeim.
M2 er, samkvæmt kortum og aðalskipulagi, í hrauninu austan við miðbæ Vestmannaeyja og skammt í suðaustur frá hafnarsvæðinu.
Eyþór Harðarson fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem er í minnihluta í bæjarráði og bæjarstjórn, gerði athugasemdir við áformin í bókun á fundinum. Eyþór segir mikilvægt að leggja áherslu á uppbyggingu íbúðasvæða sem nú þegar séu í skipulagshönnun eins og t.d. við malarvöllinn í Löngulág, sem er skammt suðaustan við Landakirkju. Eyþór segir að eflaust séu þarfari verkefni eins og viðhald fasteigna sveitarfélagsins mikilvægari á þessum tímapunkti en að kosta til miklum fjármunum í mokstur inn í hraunið, til að rýma fyrir byggð.
Eyþór lýsir sig þó ekki mótfallinn íbúakosningunni enda sé hann stuðningsmaður íbúalýðræðis. Mikilvægt sé þó að bæði fyrirkomulag og þær spurningar sem lagðar verði fyrir íbúa, verði samþykktar og ræddar af bæjarráði áður en kosningin fari fram eins og fram komi í niðurstöðu fundarins.
Í bókun Njáls Ragnarssonar og Jónu Sigríðar Guðmundsdóttur fulltrúa meirihlutaflokkanna, Eyjalistans og Fyrir Heimaey, í bæjarráði segir að mikilvægt sé að íbúar geti sagt sitt um hvar framtíðaruppbygging eigi að fara fram sérstaklega á svæði eins og á nýja hrauninu, eftir Heimaeyjargosið 1973, þar sem geti verið mjög skiptar skoðanir. Hér sé um að ræða tillögu um íbúakosningu til að kanna hug íbúa ekki til þess að ákveða að fara í framkvæmdir.
Í greinargerð með aðalskipulagi Vestmannaeyja, sem gildir að óbreyttu til 2035, segir um þetta svæði að sveitarfélagið hafi áhuga á að heyra sjónarmið íbúa um þau áform að hluti hraunsins sem rann í eldgosinu 1973 verði grafinn út. Þar verði mögulega farið í miðbæjaruppbyggingu eða gefið svigrúm til uppbyggingar atvinnusvæðis. Mikil eftirspurn sé eftir atvinnuhúsnæði í og við miðbæinn en svigrúmið sé lítið. Eftirspurn eftir íbúðum á svæðinu sé einnig nokkur en hægt sé að uppfylla þá þörf innan marka núverandi miðbæjar eða við hann.
Segir enn fremur í greinargerðinni að með því að taka hluta hraunsins undir byggð fari meira land undir þéttbýli og neikvæð áhrif verði á vinsælt útivistarsvæði í náttúruríku umhverfi á jaðri byggðarinnar. Á þessu svæði séu vinsælar gönguleiðir og upplýsingaskilti um hús sem grafin séu undir hrauninu en þau séu alls 35-40.
Samkvæmt greinargerðinni myndi uppbygging á svæðinu valda verulega neikvæðum áhrifum á menningarminjar, landslag, ásýnd, jarðminjar, verndað hraun og menningarminjar undir hrauni. Hraunið sé verndað samkvæmt náttúruminjalögum og hafa þurfi því samráð við Minjastofnun. Tekið er einnig fram að byggja þyrfti grunnkerfi veitna og þjónustu á svæðinu upp frá grunni.
Í samantekt um áhrif mögulegrar byggðar á svæðinu segir að ljóst sé að áhrif á umhverfið yrðu neikvæð en það jákvæða væri að aukið framboð yrði af lóðum til uppbyggingar.
Hvort mun vega þyngra í hugum Eyjamanna á hins vegar eftir að koma í ljós þegar íbúakosningin fer fram í vor eins og allt stefnir í.