Íslenski háhyrningurinn Stella er orðin sú vinsælasta sinnar tegundar á samfélagsmiðlum. Hún hefur verið sýningadýr í nærri fjóra áratugi og dýraverndunarsamtök segja hegðun hennar sýna að hvali eigi ekki að halda í búrum.
Stella var veidd við Íslandsstrendur í október árið 1987 eins og segir í umfjöllun spænsku sjónvarpsstöðvarinnar 101. Þá var hún aðeins eins árs gamall kálfur. Síðan þá hefur Stella verið á fimm mismunandi stöðum. Til að byrja með í búri á Íslandi, svo í Sædýrasafninu í Hafnarfirði, í Kamogawa SeaWorld í Japan, opinbera sædýrasafninu í Nagoya í Japan og nú í Kobe Suma SeaWorld einnig í Japan.
Stella er nú farin að nálgast fertugt og er orðin ættmóðir stórrar fjölskyldu í Japan. Hún á fimm kálfa, Lovey, Lára, Sara, Rán og Rín og tvo kálfakálfa. En hún er geymd í sama garði og dóttir hennar Rín og dóttur sonur hennar Jörð.
Ýmsir frægir háhyrningar hafa komið frá Íslandi, svo sem kvikmyndastjarnan Keikó og dráparinn Tilikum, sem báðir eru nú horfnir yfir móðuna miklu. Stella er frægasti núlifandi háhyrningur heims og er orðin stjarna á samfélagsmiðlum. Til að mynda þá á hún 800 þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem fólk getur fylgst með stökkum hennar og brögðum sem þjálfararnir hafa kennt henni. Hvert myndband sem þeir setja inn fær mikla athygli.
Stella er sá háhyrningur sem hefur verið lengst í haldi í Japan. Niðjar hennar eru öll í hinum ýmsu sædýragörðum í landinu. Þrátt fyrir að dvelja í sama garði og dóttir og dóttursonur þá er hún geymd ein í búri.
Dýraverndunarsinnar sem berjast gegn því að háhyrningum sé haldið í sædýragörðum segja að hegðun Stellu sé dæmigerð fyrir hegðun háhyrnings í haldi manna. Það að hún syndi í sífellu með fram steyptum veggjum búrsins eða láti sig fljóta löngum stundum.
Almennt hefur hvalasýningum verið að fækka í heiminum en Japan er þar undantekning. Samtökin Dolphin Project hafa gagnrýnt Japani fyrir þetta sem og samtökin Empty the Tanks sem segja að geymsla háhyrninga í steinsteyptum búrum geti ekki stuðlað að neinni fræðslu.
Kobe Suma SeaWorld garðurinn hefur hins vegar svarað gagnrýninni og segir að starfsfólk garðsins standi heils hugar að baki því að fræða gesti sína um lífið í sjónum og varðveislu lífríkis sjávar. Hafi Stella hjálpað til við að vekja fólk til vitundar um tegundina og lífið í sjónum.