fbpx
Mánudagur 25.ágúst 2025
Fréttir

Gufunesmálið: Matthías spurður út í viðtal sitt við DV – Segist hafa óttast Stefán og Lúkas

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 25. ágúst 2025 15:00

Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Matthías Björn Erlingsson er einn fimm sakborninga í Gufunesmálinu, sem varðar lát Hjörleif Hauks Guðmundssonar, 65 ára manns frá Þorlákshöfn, sem lést eftir miklar misþyrmingar sem hann mátti þola að kvöldi 10. mars og inn í aðfaranótt 11. mars á þessu ári.

Hjörleifur fannst á göngustíg í Gufunesi snemma að morgni dags og var í nærbuxum einum fata, en fram kom í vitnaleiðslum að sakborningar höfðu klætt hann úr og fleygt fötunum hans til að lífsýni þeira fyndust ekki á þeim.

Sjá einnig: Rafmagnað andrúmsloft í Héraðsdómi Suðurlands – Stefán svaraði fyrstur til saka fyrir morðið á Hjörleifi

Matthías var spurður út í viðtal sitt við DV sem birtist fyrir skömmu en viðtalið var lagt fram sem gagn í málinu.

Sjá einnig: Matthías neitar sök en harmar að hafa dregist inn í atburðarásina

Í viðtalinu, rétt eins og í vitnaleiðslunum í morgun, lýsti Matthías sig saklausan af öllum ákærum. Verjendur annarra sakborninga bentu honum á ummæli hans í viðtalinu þar sem hann segir tálbeituaðgerðina gegn Hjörleifi hafa verið mun ófaglegri en tálbeituaðgerðir sem hann hafði sjálfur komið að. Matthías vildi ekki tjá sig frekar um þetta. Stefán Kristjánsson, verjandi Lúkasar Geirs, benti á að mörg mál væru gegn Matthíasi í málaskrá lögreglu.

Dómari greip þá inn í og benti á að þau mál væru þessu máli með öllu óviðkomandi.

Sævar Þór Jónsson, verjandi Matthíasar, spurði hann þá hvort hann hefði verið ákærður fyrir eitthvað og svaraði Matthías því til að þetta mál væri fyrsta handtaka hans og fyrsta ákæra. Hann sé með hreina sakaskrá.

Sagðist ekki hafa þorað út úr aðstæðunum

Matthías heldur því fram, bæði í viðtalinu og fyrir dómi, að hann hafi ekki beitt Hjörleif ofbeldi og heldur ekki orðið vitni að því, nema óbeint þegar Stefán og Lúkas Geir misþyrmdu honum.

Í ákæru eru engar lýsingar á beinu ofbeldi af hálfu Matthíasar, en Stefán og Lúkas Geir báru hins vegar báðir vitni um að Matthías hefði barið Hjörleif heitinn með tjakki sem hann tók úr skottinu á bíl sínum. Stefán segist hafa stöðvað þær aðfarir.

Stefán lýsti málflutningi Matthíasar í áðurnefndu DV-viðtali sem helberum þvættingi. Hann hafi tekið þátt í brotunum af fúsum og frjálsum vilja og hafi verið mjög áhugasamur um að vera sem hjálplegastur.

Þegar Matthías var spurður um hlut sinn í málinu sagði hann: Mitt hlutverk var að vera ökumaður. Hann bætti síðan við að nú skildist honum að hlutverk sitt hefði líka verið að taka á sig sök í málinu. Í réttarhöldunum var fjallað lítillega sem bréf sem Lúkas Geir skrifaði til Matthíasar, en það rataði aldrei í hendur hans. Í bréfinu er Matthías hvattur til að taka á sig alla sök. Einnig hefur verið greint frá tilraunum ónefndra manna til að fá fjölskyldu Matthíasar til að skipta um verjanda.

Hann sagði þetta hafa byrjað með símtali þar sem Stefán bað hann um að koma og hjálpa sér við að hlaða Teslubíl. Stefán sagði í vitnaleiðslum fyrr í dag að Matthías væri tæknigæji sem oft aðstoðaði Lúkas Geir við eitt og annað tæknilegs eðlis. Matthías kannaðist ekki við slíkt hlutverk.

Hann sagðist hins vegar hafa fallist á að veita þessa aðstoð þar sem hann hefði ekki haft neitt betra að gera. Er hann kom á vettvang hafi hann hins vegar séð mann með poka yfir höfðinu. Það var Hjörleifur. Aðspurður segist hann hafa orðið stressaður og hræddur við þessa sjón. Hann segist hins vegar ekki hafa vitað hvað væri í gangi en getið sér til að um væri að ræða ógreidda fíkniefnaskuld.

Matthías segist ekki hafa orðið vitni að misþyrmingunum á Hjörleifi og ekki vitað hvað var í gangi. Þær eru taldar hafa farið fram í Teslubíl sem Stefán ók að Hellisheiðarvirkjun og síðan að iðnaðarbili við Esjumela, meira á síðarnefnda staðnum.

Ég veit ekki hvað gerðist í iðnaðarbilinu – ég var úti – það eina sem ég tók eftir þegar ég kom til baka var blóð í bílnum, sagði Matthías.

Óheppileg gosdós og rafmynt

Matthías segist hafa verið úti í bíl á meðan Lúkas Geir og Stefán drógu Hjörleif inn á göngustíg í Gufunesi og skildu hann þar eftir á nærbuxum einum fata. Var hann þá spurður út í gosdós á vettvangi sem lífsýni hans fannst á. Er saksóknari spurði hann hvernig hann skýrði þetta þá sagðist hann ekki vita það en gæti sér til að dósin hefði borist með er Hjörleifur var dreginn út að göngustígnum þar sem mikið hefði verið af dósum í bílnum hans.

Matthías var spurður hvort ekki hafi hvarflað að honum að hringja á hjálp Hjörleifi til handa og hvort hann hafi ekki áttað sig á hættunni sem það hefði í för með sér fyrir hann að vera skilinn eftir nær klæðalaus að nóttu til á víðavangi. Matthías sagðist hafa hugsað út í það en hann hafi ekki þorað að koma honum til hjálpar af ótta við Lúkas Geir og Stefán.

Aðspurður um hvers vegna hann óttaðist þá sagðist hann hafa heyrt sögur um þá sem sýndu að þeir væru til alls líklegir. Hann var spurður hvort þeir hefðu hótað honum og sagði hann svo ekki vera.

Sem fyrr segir hafa Stefán og Lúkas Geir vitnað um að Matthías hafi tekið fullan þátt í brotunum af fúsum og frjálsum vilja.

Matthías neitar sök varðandi ákæru um tilraun til fjárkúgunar. Hins vegar var hringt í eiginkonu Hjörleifs úr hans síma og hún krafin um aðgangsupplýsingar að netbanka Hjörleifs. Matthías sagði að Stefán hefði tekið síma hans af honum  þegar hann kom og notað hann til símtalsins.

Einn fimm sakborninga í málinu er sagður hafa tekið við inn á reikning sinn þremur milljónum króna af reikningi Hjörleifs heitins og millifært fjármunina inn á reikning Matthías sem umbreytti fénu í bitcoin.

Matthías sagðist ekki hafa vitað að þetta væru fjármunir sem sviknir voru út úr Hjörleifi en hann hafi verið til í að gera þetta fyrir Stefán. Hafi keypt rafmynt fyrir þessa fjárhæð en hafi ekki vitað hvernig peningarnir voru tilkomnir.

Matthías var spurður út í þá sérkennilegu staðreynd að hann er með annan síma sem hann geymir á felustað í Hafnarfirði. Hann segist hafa gert það til að geta látið vita ef hann ætti yfir höfði sér handtöku. Hann sagðist þó ekki hafa brotið af sér og gat ekki gefið frekari skýringar á þessu atferli.

Réttarhöldin halda áfram í dag, þriðjudag og miðvikudag við Héraðsdóm Suðurlands á Selfossi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mikil reiði eftir að dönsk yfirvöld tóku nýfædda dóttur af grænlenskri móður á grundvelli umdeilds prófs

Mikil reiði eftir að dönsk yfirvöld tóku nýfædda dóttur af grænlenskri móður á grundvelli umdeilds prófs
Fréttir
Í gær

Ekkert foreldri hafi óskað eftir flutningi barns síns af Múlaborg

Ekkert foreldri hafi óskað eftir flutningi barns síns af Múlaborg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Samþykkt að byggja fjölbýlishús í Reykjanesbæ nærri mögulegu flóðasvæði

Samþykkt að byggja fjölbýlishús í Reykjanesbæ nærri mögulegu flóðasvæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vandræðahús í Vestmannaeyjum rifið – „Nánast óviðgerðarhæft eftir margra ára vanhirðu“

Vandræðahús í Vestmannaeyjum rifið – „Nánast óviðgerðarhæft eftir margra ára vanhirðu“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Svona verður veðrið á Menningarnótt

Svona verður veðrið á Menningarnótt