fbpx
Laugardagur 23.ágúst 2025
Fréttir

Úkraínsk móðir á Íslandi stefnir barnsföður sínum fyrir héraðsdóm en segir hann vera í felum

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 23. ágúst 2025 18:05

Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona frá Úkraínu sem býr hér á landi ásamt barni sínu á grunnskólaaldri hefur stefnt barnsföður sínum fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í því skyni að henni verði dæmd forsjá barnsins og hann verði dæmdur til að greiða meðlag með barninu. Konan segist ekki vita nákvæmlega hvar í veröldinni maðurinn haldi sig og hann neiti að segja henni hvar hann sé. Hún segir manninn hafa einstaka sinnum haft samband við hana og barnið í gegnum leyninúmer á samfélagsmiðlinum Telegram. Raunar segist konan það ekki algerlega öruggt að maðurinn sem þau hafi samskipti við á Telegram sé raunverulega barnsfaðir hennar.

Forsaga sambands konunnar við manninn er rakin all ítarlega í stefnunni sem birt er í Lögbirtingablaðinu. Þau hófu samband sitt í menntaskóla og áttu fljótlega von á barninu. Gerði fjölskylda mannsins þá kröfu um að þau gengju í hjónaband áður en barnið fæddist.

Fljótlega fór hins vegar að bera á erfiðleikum í hjónabandinu þar sem lífsskoðanir mannsins og konunnar, gildi þeirra og viðhorf reyndust gjörólík. Starfaði konan sem stafrænn listamaður í Úkraínu eftir útskrift úr menntaskóla og sá alfarið fyrir fjölskyldunni fjárhagslega og annaðist barnið ein. Segir í stefnunni að barnsfaðir konunnar hafi verið á sambúðartíma þeirra sinnulaus gagnvart fjölskyldunni og tekið takmarkaðan þátt í heimilishaldi. Þegar konan hafi rætt upphaflega við manninn um sambúðarslit hafi hann brugðist við með ógnandi tilburðum í garð hennar og ekki verið tilbúinn til að komast að sameiginlegri niðurstöðu í þeim efnum.

Stríðið

Tímamót urðu í sambandinu eins og hjá allri úkraínsku þjóðinni þegar Rússar gerðu árás á landið árið 2022. Segir í stefnunni að um það leyti sem að stríðið braust út hafi maðurinn og konan loks verið búin að ganga frá skilnaði eftir nokkurra ára hjónaband. Hafi þau gert það samkomulag að konan myndi flýja landið ásamt barninu og hafi þau loks komið til Íslands vorið 2022. Þá hafi verið mikið álag í stjórnkerfinu hér á landi vegna skráningar úkraínskra flóttamanna og konan þá vegna mistaka verið skráð í hjúskap og forsjá barnsins um leið skráð sameiginleg og þess vegna verði hún nú að höfða málið á hendur barnsföður sínum til að fá því breytt að forsjáin sé skráð sameiginleg.

Þegar kemur að því hvar maðurinn sé niðurkominn þá segir í stefnunni að hann sé líkast til enn í Úkraínu, þótt engin vissa sé fyrir því. Hann virðist þó vera á lífi, þar sem hann hafi einstaka sinnum á undanförnum árum haft samband við konuna í gegnum samskiptamiðilinn Telegram, til að eiga samtal við barn þeirra. Hann hafi alfarið neitað að gefa upp staðsetningu sína eða aðstæður og hafi samband í gegnum leyninúmer. Þar sem honum sé kunnugt um númer konunnar geti hann sett sig í samband við hana en hún ekki við hann.

Ekki öruggt að þetta sé hann

Segir enn fremur í stefnunni að hvorki sé um símtöl eða myndsímtöl að ræða heldur skilaboð. Konunni sé því ókunnugt um hvort barnsfaðir hennar sé í Úkraínu eða hafi flúið annað og geti í raun ekki fullyrt að samskiptin séu að eiga sér stað við hann. Þá hafi maðurinn hvorki netfang sem hægt sé að notast við í samskiptum né hafi verið hægt að hafa uppi á honum af hálfu konunnar eða fulltrúum sýslumanns þegar gerðar hafa verið tilraunir til þess. Konan hafi aldrei reynt að koma í veg fyrir að maðurinn eða fjölskylda hans hafi samband við barnið en því miður sé ekkert samband þar á milli í dag og barnið þekki ekki föðurfjölskyldu sína.

Segir í stefnunni að konan og barnið hafi aðlagast vel á Íslandi. Konan sé í vinnu, stundi íslenskunám við Háskóla Íslands og að þau hafi bæði náð góðum tökum á íslensku.

Segir enn fremur að ekki séu tiltæk nein skjöl sem staðfesti að konan fari ein með forsjá barnsins en hún hafi áður til sýslumanns með beiðni um staðfestingu á skipan forsjár án árangurs. Þar sem ekki hafi verið hægt að ná sambandi við manninn undir rekstri máls hjá sýslumanni hafi forsjármáli verið vísað frá og gefið út sáttavottorð. Konunni sé mikilvægt að fara ein með forsjá enda hafi hún ein annast barnið undanfarin ár og muni áfram gera. Þau hafi sest hér að og muni búa á Íslandi um ókomna tíð. Sé þeim nauðsynlegt að fá staðfest að konan fari ein með forsjá.

Barnsföðurnum sem svo erfiðlega hefur gengið að ná sambandi við og finna er því stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem málið verður þingfest í næsta mánuði. Mæti hann ekki má búast við að konunni einni verði dæmd forsjáin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íris segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist móður sinni – Fékk heilabilun en taldi skárra að fá frekar krabbamein

Íris segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist móður sinni – Fékk heilabilun en taldi skárra að fá frekar krabbamein
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Staðfest að eldislaxar komust í Haukadalsá

Staðfest að eldislaxar komust í Haukadalsá
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stafrænar eignir Latabæjar koma heim – Samstarf við OK

Stafrænar eignir Latabæjar koma heim – Samstarf við OK
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bendir á þessa hvimleiðu hegðun ökumanna sem hefur gormaáhrif á háannatíma

Bendir á þessa hvimleiðu hegðun ökumanna sem hefur gormaáhrif á háannatíma