Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar og fyrrum forsetaframbjóðandi hefur í nokkurn tíma, ásamt eiginmanni sínum Theódór Jóhannssyni, deilt við Reykjavíkurborg um 40 fermetra bílskýli sem þau reistu á lóð sinni. Hjónin töldu sig vera í rétti við að reisa skýlið en höfðu aldrei sótt um byggingarleyfi. Töldu þau borgina hafa sýnt töluverða óbilgirni í málinu. Byggingarfulltrúi lagði fyrir þau að rífa skýlið annars yrðu lagðar á dagsektir. Þá ákvörðun kærðu Helga og Theódór til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem staðfesti ákvörðunina fyrr í sumar. Hjónin fóru þá eftir fyrirmælum byggingarfulltrúa og málinu virtist þá lokið en svo er hins vegar ekki. Byggingarfulltrúa þótti niðurrifið ekki fullnægjandi og lagði áfram á dagsektir og Helga og Theódór hafa lagt fram nýja kæru til nefndarinnar.
Kæra þeirra er birt með nýjustu fundargerð umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar en kæran var meðal mála á dagskrá fundarins. Í kærunni, sem Helga sér um að rita, kemur fram að málið snúist um 6 fermetra geymslu við enda bílskýlisins. Þegar skýlið hafi verið rifið hafi geymslan verið skilin eftir óhreyfð enda hafi þau hjónin talið að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi eingöngu snúið að bílskýlinu en ekki geymslunni. Lýsir Helga óánægju með að embætti byggingarfulltrúa hafi ekki komið því skýrt á framfæri að rífa yrði geymsluna líka.
Kæran snýr að þeirri ákvörðun byggingarfulltrúa að leggja áfram dagsektir á hjónin frá þeim degi þegar ákvörðunin um niðurrif skýlisins var staðfest af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og þar til niðurrifi geymslunnar var lokið en um alls 9 daga tímabil var að ræða og námu sektirnar 25.000 krónum á dag.
Helga segir í kærunni að gerðar hafi verið ráðstafanir til að rífa bílskýlið um leið og þeim var tilkynnt um úrskurð nefndarinnar. Niðurrifið hafi tekið alls 4 daga enda hafi skýlið verið vel byggt. Helga tilkynnti starfsmanni borgarinnar, sem hún hafði verið í samskiptum við vegna málsins, um lok niðurrifsins samdægurs. Liðu þá fimm dagar en þá var Helgu tilkynnt að byggingarfulltrúi hefði eftir skoðun málsins ákveðið að fella dagsektirnar ekki niður þar sem niðurrifinu hafi ekki verið lokið.
Reyndist athugasemd byggingarfulltrúans snúa að því að geymslan hefði ekki verið rifin með skýlinu. Var vísað til þess að þar sem geymslan væri of há og of nálægt næsta húsi væri samkæmt byggingarreglugerð ekki heimilt að reisa hana án þess að sækja um byggingarleyfi fyrst. Létu hjónin rífa geymsluna þegar í stað og lauk því verki sama dag og tilkynningin um að geymslan yrði að víkja barst.
Helga lýsir í kærunni töluverðri óánægju með þessi vinnubrögð. Vill hún meina að aldrei hafi verið gerð athugasemd við geymsluna fram að þessu. Þangað til hafi málið alltaf snúist eingöngu um bílskýlið.
Þess má að geta að í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málinu er eingöngu minnst á bílskýlið nema í blábyrjun þar sem segir um geymsluna:
„Kom þar einnig fram að í eftirlitsferð á vegum Reykjavíkurborgar hafi sést að um væri að ræða 40 fermetra bílskýli með geymslu við endann.“
Er þarna verið að vitna í bréf byggingarfulltrúa til Helgu og Theódórs og miðað við orðalagið virðist hafa verið gefið til kynna að geymslan væri álitið sérstakt mannvirki og aðskilið frá skýlinu. Síðar í úrskurðinum kemur fram að gerð hafi verið sú krafa að skýlið yrði rifið en í úrskurðinum er ekki minnst sérstaklega á geymsluna í því samhengi.
Helga segir ljóst að leiðbeiningar byggingarfulltrúa hafi ekki verið nógu skýrar og vill meina að það hefði verið eðlilegt að taka það sérstaklega fram að rífa yrði geymsluna líka:
„Það sést á framangreindum dagsetningum að við höfum sýnt mikinn samstarfsvilja eftir að niðurstaða lá fyrir í máli þessu. Einfaldar leiðbeingar frá byggingarfulltrúa um að geymslan ætti að fara hefðu að okkar mati verið eðlileg stjórnsýsluframkvæmd.“
Á þeim forsendum mótmæla hjónin því að til staðar hafi verið skilyrði til að leggja á þau dagsektir.