Þetta kemur fram í ítarlegri úttekt breska ríkisútvarpsins, BBC.
Áður hefur verið fjallað um samvinnu Rússlands og Norður-Kóreu á ýmsum sviðum og er skemmst að minnast þegar Norður-Kóreumenn sendu hermenn á vígvöllinn í Úkraínu með misjöfnum árangri.
Fulltrúar í leyniþjónustu Suður-Kóreu segja við BBC að yfirvöld í Moskvu reiði sig í auknum mæli á verkamenn frá Norður-Kóreu.
BBC ræddi við sex Norður-Kóreumenn sem hafa flúið frá Rússlandi á undanförnum misserum, opinbera starfsmenn, fræðimenn og einstaklinga sem vinna við að bjarga verkamönnunum. Segja verkamennirnir að þeir hafi búið við skelfilegar aðstæður.
Einn mannanna, sem kallaður er Jin, segir við BBC að þegar hann lenti í austurhluta Rússlands hafi norðurkóreskur öryggisvörður tekið á móti honum, fylgt honum beint frá flugvellinum á byggingarsvæði og skipað honum að tala ekki við neinn og horfa ekki á neinn.
„Heimurinn er óvinur okkar,“ mun öryggisvörðurinn hafa sagt og var Jin sendur í vinnu við að byggja háhýsi ásamt hópi annarra verkamanna. Vinnudagurinn var langur, eða allt að 18 klukkustundir á dag.
Í frétt BBC er þess getið að allir sex verkamennirnir sem veittu viðtöl hafi lýst gríðarlega löngum vinnudögum þar sem vaknað var klukkan sex á morgnana og unnið til miðnættis, eða lengur.
„Að vakna var skelfilegt og átta sig á því að maður þyrfti að endurtaka sama daginn aftur,“ segir annar verkamaður, Tae að nafni, en hann flúði frá Rússlandi í fyrra. Hann lýsir því að þegar hann vaknaði á morgnana hafi hann ekki getað opnað lófana – hendurnar hafi verið lamaðar eftir vinnuna daginn áður.
„Sumir yfirgáfu vinnustaðinn til að sofa yfir daginn eða hreinlega sofnuðu standandi, en eftirlitsmenn fundu þá og börðu þá,“ segir annar verkamaður, Chan.
Kang Dong-wan, prófessor við Dong-A-háskólann í Suður-Kóreu, hefur oft ferðast til Rússlands til að tala við norðurkóreska verkamenn. „Aðstæðurnar eru í raun skelfilegar,“ segir hann og bætir við að mennirnir séu látnir vinna við mjög hættulegar aðstæður. „Á nóttunni er slökkt á ljósum og þeir vinna í myrkri, með lítinn sem engan öryggisbúnað.“
Í umfjöllun BBC kemur fram að yfir 10 þúsund verkamenn hafi verið sendir frá Norður-Kóreu til Rússlands í fyrra. Þetta er haft eftir fulltrúa í leyniþjónustu Suður-Kóreu. Hann segir að enn fleiri hafi verið sendir á þessu ári og hugsanlega sé um allt að 50 þúsund verkamenn að ræða í það heila.
Andrei Lankov, prófessor við Kookmin-háskóla í Seúl og þekktur sérfræðingur í samskiptum Norður-Kóreu og Rússlands segir að þetta sé hin fullkomna lausn fyrir Rússa.
„Rússland glímir nú við alvarlegan skort á vinnuafli og Norður-Kóreumenn bjóða upp á fullkomna lausn. Þeir eru ódýrir, vinnusamir og skapa ekki vandræði.“