Samgöngustofa hefur hafnað bótakröfu farþega í flugi Play frá Kaupmannahöfn til Íslands í mars síðastliðnum. Gerðu farþegarnir sem virðast hafi verið tveir að ferðast saman alvarlegar athugasemdir við undirbúning Play fyrir lendingu flugsins en vegna veðurs sátu farþegar fastir um borð í um fjóra klukkutíma, eftir lendingu á Keflavíkurflugvelli. Kemur fram í kvörtuninni að annar farþeganna hafi liðið miklar kvalir þar sem flugvélin hafi hreyfst svo mikið í óveðrinu en viðkomandi hafi skömmu áður gengist undir skurðaðgerð vegna brjóskloss í baki.
Farþegarnir kröfðust staðlaðra bóta vegna seinkunar á flugi.
Í kvörtun þeirra kom fram að daginn fyrir brottför hafi þeim borist skilaboð um að hægt væri að breyta fluginu. Það hafi þeir þó ekki viljað gera nema ljóst væri að ekki yrði flogið þennan dag. Það hefði þýtt að þeir hefðu þurft að greiða fyrir gistingu úr eigin vasa og misst úr vinnu. Play hafi hafnað því að greiða fyrir gistinguna. Veðurspáin hafi verið slæm og fyrirséð að farþegar myndu ekki komast strax frá borði í Keflavík. Þrátt fyrir það hafi Play haldið fluginu til streitu.
Í kvörtuninni sagði enn fremur að vélin hafi lent í Keflavík klukkan 23:10 en farþegum hafi vegna mikils vinds, sem hafi verið um 25 metrar á sekúndu, ekki verið hleypt frá borði fyrr en klukkan 03:07 um nóttina, rétt um fjórum klukkutímum síðar.
Þar að auki hafi afhending farangurs tafist og á endanum hafi farþegar komist út af flugvellinum um klukkan 04:30. Farþegar í flugi Icelandair sem hafi lent á sama tíma hafi hins vegar komist frá borði mun fyrr eða strax, þar sem búið hafi verið að tryggja búnað til brottfarar. Vildu farþegarnir því meina að koma hefði mátt í veg fyrir þessar tafir með betri undirbúningi en PLAY valið að gera það ekki.
Um þær líkamlegu kvalir sem annar farþeganna, sem lögðu fram kvörtunina, mátti þola á meðan beðið var um borð segir í kvötuninni:
„Þessi reynsla var sérstaklega erfið fyrir mig þar sem ég hef nýverið farið í aðgerð vegna brjóskloss og hafði valið þetta stutta flug einmitt til að forðast langvarandi óþægindi. Að þurfa að sitja í sveiflandi flugvél í marga klukkutíma olli mér miklum líkamlegum kvölum. Í ljósi aðstæðna teljum við að PLAY hafi átt að taka ábyrgari ákvörðun varðandi þetta flug, þar sem ljóst var fyrirfram að ekki yrði hægt að hleypa farþegum frá borði við komu. Þeir vissu að þetta myndi fara svona en ákváðu samt að bjóða farþegum sínum upp á þetta.“
Í andsvörum Play var vísað til þess að umræddum farþegum hefði staðið til boða að breyta fluginu og að þegar lent hafi verið í Keflavík hafi einfaldlega ekki verið hægt að hleypa farþegum frá borði vegna veðurs.
Í athugasemdum farþeganna við andsvörum Play var fullyrt að félagið hafi getað pantað rana til að koma farþegum út. Vildu þeir meina að í raun hefði verið betra að bíða í flugvélinni í Kaupmannahöfn í þrjá klukkutíma á meðan versta veðrið gekk yfir í Keflavík:
„Þar sem vélin sveiflaðist fram og til baka og farþegar meðal annars ældu. Sjálf lá ég með fætur á gólfinu og höfuð ofan á sæti.“
Ítrekuðu farþegarnir síðan að ekki hafi verið raunverulegur valkostur að breyta fluginu þar sem það hefði haft í för með sér aukalegan kostnað vegna gistingar og tekjutap vegna fjarveru úr vinnu og Play hafi ekki verið tilbúið að leggja neina fjármuni fram til að mæta þeim kostnaði.
Samgöngustofa vill hins vegar meina að Play hafi lagt sig fram við að takmarka afleiðingar af hinum óviðráðanlegu aðstæðum eftir bestu getu. Um óviðráðanlegur aðstæður hafi verið að ræða, þar sem ekki hafi verið hægt að opna hurðar á flugvélinni vegna veðurs. Þar af leiðandi eigi farþegarnir ekki rétt á bótum samkvæmt evrópskri reglugerð um bætur til handa flugfarþegum. Bótakröfu farþeganna var þar af leiðandi hafnað.