fbpx
Fimmtudagur 31.júlí 2025
Fréttir

Jón Trausti svarar Bjarnheiði fullum hálsi – „Ferðaþjónusta er ekki einkamál þeirra sem starfrækja hana“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 30. júlí 2025 21:05

Bjarnheiður Hallsdóttir og Jón Trausti Reynisson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri Heimildarinnar svarar gagnrýni Bjarnheiðar Hallsdóttur fyrrum formanns Samtaka í ferðaþjónustu á umfjöllun fjölmiðilsins um áhrif atvinnugreinarinnar á íslenskt samfélag, fullum hálsi. Hann segir að nákvæmlega ekkert sé til í þeim fullyrðingum Bjarnheiðar að einhverjar annarlegar hvatir búi að baki umfjölluninni. Bjarnheiður er ósátt við að brugðið sé upp neikvæðri mynd af ferðaþjónustunni í umfjölluninni en Jón Trausti segir eðlilegt að fjölmiðlar fjalli einnig um neikvæð áhrif greinarinnar en ekki bara þau jákvæðu. Skiptar skoðanir eru í athugasemdum við pistil Jóns Trausta um gildi ferðaþjónustunnar fyrir Ísland.

DV fjallaði um þessa gagnrýni Bjarnheiðar fyrr í dag:

Segir nýjasta tölublað Heimildarinnar vera rætna herferð gegn íslenskri ferðaþjónustu – „Þessi atlaga að greininni getur ekki verið tilviljun ein“

Tölum um það neikvæða

Jón Trausti segir í pistli á Facebook að vissulega hafi ferðaþjónustan jákvæð áhrif en áhrifin séu líka neikvæð:

„Margir kannast við upplifunina af því að vera eins og útlendingur í eigin landi, þegar ferðast er um Ísland. Sumum finnst sérstakt að þurfa núna að borga fyrir að stoppa bílinn á malarplani, jafnvel þótt framkvæmdasjóður ferðamannastaða hafi borgað fyrir framkvæmdir. Enn aðrir upplifa að aðgengi að náttúrunni, eða vegum, sé lokað. Ísland hefur breyst mikið á síðustu árum. Ferðaþjónustunni hefur fylgt gríðarleg fólksfjölgun, sem skapar álag á innviði, húsnæðismarkaðinn og samfélagið almennt.“

Jón Trausti leggur þunga áherslu að það sé ekkert annarlegt á bak við umfjöllunina það sé eðlilegt að hið neikvæða við ferðaþjónustuna komi fram en ekki bara hið jákvæða.

Hann segir þessi viðbrögð Bjarnheiðar minna óþægilega á fyrri tíma:

„Þessi viðbrögð frá fyrrverandi talsmanni ferðaþjónustunnar vekja óþægilegar minningar um viðbrögð við gagnrýninni umræðu árin 2006 til 2008. Krafan um að blaðamenn eigi að skapa sátt í samfélaginu og spila með tilteknum hagsmunum, annars koma ásakanir og samsæriskenningar um annarlega hagsmuni og úrskurður um að gagnrýnin blaðamennska sé herferð, skaðleg þjóðfélaginu.“

Komi öllum við

Jón Trausti bendir á að ein umsvifamesta atvinnugrein landsins hljóti að koma öllum landsmönnum við:

„Ferðaþjónusta er ekki einkamál þeirra sem starfrækja hana og hafa hagnað af henni. Hún hefur hliðaráhrif á landið og landsmenn. Það þarf að vera mikið svigrúm og andrými fyrir gagnrýna umræðu, jafnvel þótt áhrifin kunni að vera í heildina jákvæð, ekki síst þau hagrænu. Engum er í hag að kæfa umræðuna niður þar til það verður of seint og raunverulega fer að vaxa hatur í samfélaginu gagnvart ferðaþjónustu, eins og hefur gerst víða þar sem hlutfall ferðamanna af íbúafjölda er nánast jafnhátt og hér.“

Í umræðum í athugasemdum við færslu Jón Trausta sýnist sitt hverjum. Egill Helgason fjölmiðlamaður segir ekkert að umfjöllun af þessu tagi um ferðaþjónustuna:

„Þetta eru afskaplega bjánaleg viðbrögð við ágætri og tímabærri umfjöllun. Maður þarf ekki að fallast á allt sem þar kemur fram en að kokka upp einhverja samsæriskenningu út frá þessu – það er algjörlega út í hött.“

Þór Saari fyrrum alþingismaður segir umfjöllunina tímabæra þar sem fjölgun ferðamanna sé orðin of mikil á of stuttum tíma.

Það jákvæða

Sigursteinn Másson fjölmiðlamaður lítur ferðaþjónustuna hins vegar jákvæðum augum:

„Án uppbyggingar í ferðaþjónustu væri efnahagur hér bágborinn og fólksflótti af landsbyggðinni mun meiri en raun ber vitni. Fábreytni væri meiri í atvinnuleyfi og bara meiri almenn leyðindi. Er nýkominn frà Húsavík og Eyjafirði þar sem hvalaskoðun hefur haft gríðarlega jákvæð bein og óbein áhrif á fjölda byggðarlaga. Hlutverk fjölmiðla er að veita sanngjarnt aðhald byggt á bestu fáanlegum upplýsingum. Dramatískiskar fyrirsagnir selja en upplýsa slétt ekki mikið.“

Í svari við andmælum Þórs tekur Sigursteinn þó undir að það megi eflaust bæta ýmislegt í ferðaþjónustunni.

Viðvörun rættist

Þórólfur Matthíasson prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands rifjar hins vegar upp í athugasemd viðvörun sína frá 2016 um möguleg áhrif ferðaþjónustunnar sem hann segir hafa nú orðið að veruleika:

„Grund­völlur ferða­þjón­ust­unnar eins og hún er rekin í dag er ekki sjálf­bær. ­Greinin gengur á þær auð­lindir sem eru und­ir­staða hennar rétt eins og til­fellið var með ofnýt­ingu auð­linda sjávar á seinni helm­ingi 20. ald­ar­inn­ar. Ef greinin á að vera sjálf­bær þarf að fækka ferða­mönnum svo hver og einn sem kemur eigi raun­veru­lega kost á þeirri upp­lifun sem sóst er eft­ir. ­Jafn­framt þarf að búa svo um hnút­ana að ferða­þjón­ustan greiði eðli­legt verð fyrir afnot af vega­kerf­inu, lög­gæslu­kerf­inu, björg­un­ar­þjón­ustu Land­helg­is­gæsl­unnar og heil­brigð­is­kerf­in­u. En þetta er ekki nóg því það þarf að tryggja að sam­búð ferða­þjón­ust­unnar og ann­arra útflutn­ings­greina sé í eðli­legu jafn­vægi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

32 meintir útsendarar Rússa í haldi pólsku lögreglunnar

32 meintir útsendarar Rússa í haldi pólsku lögreglunnar
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Kemur útlendingum til varnar og undrast eitt í umgengni íslenskra ferðamanna – „Missi daglega andlitið“

Kemur útlendingum til varnar og undrast eitt í umgengni íslenskra ferðamanna – „Missi daglega andlitið“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Landlæknir varar við fegrunarmeðferðum með ólöglegu bótoxi – Tilkynnt um alvarlegar eitranir síðustu mánuði

Landlæknir varar við fegrunarmeðferðum með ólöglegu bótoxi – Tilkynnt um alvarlegar eitranir síðustu mánuði
Fréttir
Í gær

„Greiningin var auðvitað áfall“

„Greiningin var auðvitað áfall“