„Skiptu um vinnu. Alvöru blaðamenn og ljósmyndarar skilja starf sitt og velja það af ástæðu. Þú ert eitthvað að ruglast, þessi gjörningur er ekki „skelfilegur“. Það er þjóðarmorðið sem er skelfilegt.“
Þannig hljóðar athugasemd sem skrifuð er við færslu ljósmyndarans Kjartans Þorbjörnssonar, Golla, þar sem hann sig um atvik við Utanríkisráðuneytið á mánudag þar sem ráðist var á Eyþór Árnason, ljósmyndara Morgunblaðsins og skvett yfir hann rauðri málningu vegna þess að hann var ljósmyndari Morgunblaðsins.
Eyþór var þar að sinna starfi sínu og mynda fyrir Morgunblaðið, á staðnum var einnig tökumaður frá RÚV. Naji Asar, mótmælandi á vegum félagsins Ísland-Palestína, gekk að þeim báðum og spurði fyrir hvern þeir væru að vinna. Tökumaður RÚV fékk að halda vinnu sinni áfram óáreittur en Asar skvetti eins og áður sagði málningu á Eyþór áður en hann hljóp á brott.
Margir hafa fordæmt árás Asar, þar á meðal félagið Ísland-Palestína.
Golli tjáði sig um árásina á Facebook-síðu sinni á þriðjudag, þar sem hann deilir frétt Heimildarinnar þar sem hann starfar sem ljósmyndari. Allir sem skrifa athugasemd við færsluna eru sammála að slík hegðun sé ólíðandi gegn manni sem er aðeins að sinna vinnu sinni. Sú eina sem mælir gegn orðum Golla er tónlistarkonan Margrét Kristín Blöndal, Magga Stína með fyrrgreindum orðum.
Golli svarar athugasemdinni í færslu á Facebook þar sem hann segist hafa byrjað í fullu starfi sem fréttaljósmyndari árið1990, fyrir 35 árum og hafi hann starfað sem ljósmyndari á Morgunblaðinu í hartnær kvartöld.
„Ég hef aldrei verið fyrir að tjá skoðanir mínar opinberlega á því sem gengur á í nær- eða fjærsamfélaginu. Sem fréttaljósmyndari (vantar íslenskt orð yfir photojournalist) þarf maður að vinna með öllum kimum samfélagsins, Maður þarf að fara inn í alla hópa hvort sem maður er sammála þeirra lífsskoðunum eða algerlega mótfallinn þeim. Það er eina leiðin til að skrásetja samfélagið og umhverfið í myndum.
Nú er ég í annað sinn orðinn formaður Blaðaljósmyndarafélags Íslands, fyrra skiptið var á síðustu öld, og þá þarf ég að láta rödd mína heyrast þegar brotið er á mínum líkum. Þannig gagnrýndi ég lögreglustjórann á Suðurnesjum harðlega í vor á opnun sýningarinnar Myndir ársins 2024 vegna óréttmætar útilokunar blaða- og fréttamanna frá rýmingu Grindavíkur.“
Snýr hann sér næst að athugasemd Margrétar Kristínar:
„En aftur að þessari kveðju sem ég fékk senda frá einni forvígskonu mótmæla gegn hinu hræðilega ástandi á Gaza síðustu ár.
Á fyrrnefndri sýningu, Myndir ársins 2024, sem valin er af hlutlausri dómnefnd átti ég mikinn fjölda mynda. Ekki bara að mér hlotnaðist sá heiður að vinna Mynd ársins 2024 heldur fékk ég inn á sýninguna nokkrar seríur og stakar myndir, átti tæplega 30% af myndum sem héngu á veggjum Ljósmyndasafns Reykjavíkur í vor.
Þeir sem þangað ráku inn nef og augu hafa séð að margar þessara mynda minna voru einmitt myndir af flóttafólki frá Gaza, mótmælendum og baráttufólki gegn meðferð Ísraelhers á íbúum Gaza. Þar héngu myndir af manninum sem skvetti málningunni, forvígskonunni sem sendi mér pilluna, flóttabörnum og fjölskyldum þeirra.
Mynd ársins 2024 var einmitt mynd af ungri stúlku sem flúið hafði frá Gaza með fjölskyldu sinni og ég myndaði á Austurvelli.
Mynd ársins 2023 féll mér líka í skaut ári áður og í því tilviki var líka um að ræða mynd af flóttabarni frá Gaza, í það skiptið unglingsdreng sem fjölskylda í Mosfellsbæ hafði tekið undir sinn verndarvæng.
Ég held ég geti fullyrt að enginn annar fréttaljósmyndari hafi, síðan ég hóf störf á Heimildinni, myndað jafn mikið og skrásett í myndum örlög flóttafólks frá Gaza hér á Íslandi. Fjölmargar mótmælagöngur, mótmælastöður, tjaldbúðirnar á Austurvelli, fjölskyldusameiningar á Keflavíkurvelli, sögur barna á flótta í faðmi íslenskra fjölskyldna og svo framvegis.“
Segist Golli hafa sinnt framangreindri vinnu sinni af stolti og metnaði og nefnir að miðað við viðbrögð síðustu dómnefnda í Myndum ársins hafi verk hans haft áhrif á fólk.
„Ég skil starf mitt og vel það af ástæðu. Ég er mjög góður í því, finnst ég enn vera að vaxa sem ljósmyndari þrátt fyrir alla þessa áratugi sem að baki eru.
Hver myndi græða á því ef ég skipti um vinnu ? Myndi brotthvarf mitt af vettvangi hjálpa einhverjum, að mín sýn hyrfi af vettvangi? Hver væri best til þess fallinn að fylla það skarð eða væri kannski best að enginn sinnti þeirri vinnu?“
Segir Golli það öllum hollt að velta slíkum spurningum fyrir sér. „Ég ætla allavega að halda mínu striki.“
Með færslu sinni deilir hann myndum ársins 2023 og 2024, auk þeirra mynda hans sem héngu á sýningunni í vor og „sýna baráttufólkið sem í einhverjum tilvikum vill að ég skipti um vinnu.“