fbpx
Fimmtudagur 18.desember 2025
Fréttir

Læknar ósáttir við áform Ölmu – „Mjög alvarlegt mál“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 19. júní 2025 16:30

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra og Steinunn Þórðardóttir formaður Læknafélags Íslands.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Læknafélag Íslands (LÍ) gerir margvíslegar athugasemdir, sumar hverjar alvarlegar, við frumvarp Ölmu Möller heilbrigðisráðherra til breytinga á lögum um sjúkratryggingar sem nú er til meðferðar á Alþingi. Athugasemdirnar snúa þó einkum að því að ekki sé neitt í frumvarpinu um rétt sjúklinga til að leita sér lækninga hjá einkaaðilum hér á landi sé biðin eftir þjónustu hins opinbera of löng.

Læknafélagið sendi Alþingi umsögn um frumvarpið að eigin frumkvæði og segir það furðulegt að félagið hafi ekki fengið boð að fyrra bragði um að veita umsögn um frumvarpið.

Félagið segist gera alvarlegar athugasemdir við nýja grein sem, samkvæmt frumvarpinu, stendur til að bæta við lögin. Í þeirri grein sé staðfestur réttur sjúkratryggðra, sem eigi sér stoð í almannatryggingareglum Evrópusambandsins, að sjúkratryggður megi leita læknismeðferðar í öðru aðildarríki EES-samningsins, eigi hann ekki kost á meðferð hér á landi innan tímamarka sem réttlæta megi læknisfræðilega. Í ákvæðinu sé hvergi vikið að því að sjúkratryggðir skuli hafa sama rétt til að leita sér læknismeðferðar hér á landi hjá einkarekinni heilbrigðisþjónustu. Á þetta hafi verið bent í nokkrum umsögnum. Gerð hafi verið breytingatillaga í 2. umræðu um frumvarpið til að bæta úr því, en hún hafi verið f felld.

Alvarlegt mál

Félagið gerir alls fimm athugasemdir við þennan skort á ákvæði um réttinn til að leita til einkaaðila og ítrekar enn að það telji um alvarlegt mál að ræða:

„Það getur háttað svo til að sjúklingur eigi kost á meðferð hér á landi hjá einkarekinni starfsemi lækna þó ekki sé kostur á meðferð í hinu opinbera kerfi innan eðlilegs biðtíma. LÍ telur það mjög alvarlegt mál að ekki skuli í þessu ákvæði opnað fyrir það að þegar sjúklingur hefur beðið lengur en talið er forsvaranlegt eftir meðferð í hinu opinbera kerfi eigi hann rétt á aðgangi að meðferð í einkarekinni starfsemi lækna og þá greiði Sjúkratryggingar fyrir kostnaðinn, líkt og gert er ef sjúklingurinn kýs að leita til útlanda.“

Læknafélagið segist telja að með þessu séu stjórnvöld að nýta sér það að sjúkratryggðir sem séu í þeirri stöðu að þurfa að leita annað vegna biðtíma í opinbera kerfinu veigri sér við að leita til annars EES-ríkis og leiti fremur til einkafyrirtækja lækna og borgi þá fullt verð fyrir. Það séu hins vegar ekki allir sem geti gert það og því sé með þessu verið að ýta undir misrétti:

„LÍ telur það forkastanlegt að stjórnvöld séu að notfæra sér þennan óvilja sjúkratryggðra til að leita sér læknisaðstoðar í útlöndum, þó hún sé greidd að fullu og um leið þá að ýta þessum sjúkratryggðum út í kostnaðarsama meðferð hjá einkarekinni starfsemi lækna sem yrði greidd að fullu, ef hún væri framkvæmd erlendis.“

Hvað gerir Þorgerður?

Læknafélagið bendir á að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hafi á árunum 2018-2022, þegar hún var þingmaður í stjórnarandstöðu, lagt fimm sinnum fram frumvarp um að tryggja sjúkratryggðum rétt til að leita til einkaaðila. Það skjóti skökku við að nú þegar hún sé loks í aðstöðu til að koma þessu í gegn skuli það ekki gert. Þarna lítur Læknafélagið hins vegar framhjá því að á Íslandi fer hver ráðherra með sinn málaflokk en hefur ekki heimild til að hlutast til um málaflokka annarra ráðherra eins og til dæmis með því að skipta sér af frumvörpum sem þeir hafa lagt fram.

Læknafélagið segist hafna þeim athugasemdum heilbrigðisráðuneytisins að það myndi valda því að enn erfiðara yrði að halda útgjöldum til heilbrigðisþjónustu innan fjárlaga ef að opnað yrði á þann möguleika að sjúkratryggðir geti leitað til innlendra einkaaðila, með greiðsluþátttöku ríkisins, á sama hátt og þeir geti leitað til annars EES-lands sé biðin í opinbera kerfinu á Íslandi orðin of löng. Félagið bendir á að möguleikinn á að leita út fyrir landsteinana hafi verið lögleiddur hér á landi vegna þess að Ísland hafi verið skuldbundið til þess samkvæmt EES-samningnum. Íslensk stjórnvöld geti ekki haft neina stjórn á kostnaði við læknismeðferðir erlendis. Gögn sýni að kostnaður ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu í öðrum EES-ríkjum hafi aukist verulega á seinustu árum. Kostnaðurinn hjá einkaaðilum hér á landi sé hins vegar minni. Þess vegna sé það hagkvæmara fyrir ríkið að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu innlendra einkaaðila fremur en sömu þjónstu erlendis.

Hvetur Læknafélag Íslands að lokum Alþingi til að breyta frumvarpinu og koma inn ákvæði um rétt sjúkratryggða til að fá greidda heilbrigðisþjónustu hjá einkaaðilum sé biðin hjá opinbera komin úr hófi fram. Annað sé hreinlega mismunun og brot á jafnræðisreglu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Mannslát á Kársnesi: Gæsluvarðhald framlengt til 13. janúar

Mannslát á Kársnesi: Gæsluvarðhald framlengt til 13. janúar
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Björn Leví lætur gamlan kollega heyra það – „Það væri fínt að losna við hann úr þinginu”

Björn Leví lætur gamlan kollega heyra það – „Það væri fínt að losna við hann úr þinginu”
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Hjón réðust til atlögu við annan af hryðjuverkamönnum á Bondi-strönd en lifðu það ekki af – Hyllt sem hetjur

Hjón réðust til atlögu við annan af hryðjuverkamönnum á Bondi-strönd en lifðu það ekki af – Hyllt sem hetjur
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Halldór Blöndal er látinn

Halldór Blöndal er látinn
Fréttir
Í gær

Manuela Ósk svarar Helenu – „Í flestum tilfellum farið með hreinar rangfærslur“

Manuela Ósk svarar Helenu – „Í flestum tilfellum farið með hreinar rangfærslur“
Fréttir
Í gær

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu
Fréttir
Í gær

Safnað fyrir Gunnar Inga sem á langt bataferli framundan – „Fyrir algjört kraftaverk var lífi hans bjargað“

Safnað fyrir Gunnar Inga sem á langt bataferli framundan – „Fyrir algjört kraftaverk var lífi hans bjargað“
Fréttir
Í gær

Verðkönnun á jólakjöti – Sjáðu hvar það er ódýrast og hvar það er dýrast

Verðkönnun á jólakjöti – Sjáðu hvar það er ódýrast og hvar það er dýrast