fbpx
Fimmtudagur 08.maí 2025
Fréttir

Þurfa að búa áfram við skothvelli – Fengu sólarhring til að senda inn athugasemdir

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 8. maí 2025 14:30

Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eigendur jarða í nágrenni skotsvæðis Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi þurfa að sætta sig við áframhaldandi starfsemi svæðisins en eigendurnir hafa kvartað um árabil yfir ónæði og hávaða frá svæðinu. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfum þeirra um að ógilda ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar um að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfseminni. Eigendurnir fengu upphaflega aðeins sólarhring til að gera athugasemd við framlengingu bráðabirgðaheimildarinnar.

Annað félag Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrenni rekur einnig skotsvæði á Álfsnesi en Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur gefið út starfsleyfi fyrir það svæði og hefur kæra verið lögð fram til nefndarinnar vegna þess.

Nágrannar skotsvæðis verulega ósáttir við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur – „Villa um fyrir íbúum og landeigendum og matreiða niðurstöður“

Félögin tvö hafa rekið skotsvæði á Álfsnesi í næstum 20 ár. Báðum félögum var veitt bráðabirgðaheimild til að starfrækja svæðin fram í janúar á næsta ári en síðan var starfsleyfi gefið út fyrir svæði Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis svo að þessi úrskurður nefndarinnar snýr aðeins að svæði Skotfélags Reykjavíkur.

Í kærum sínum vísuðu eigendur jarðanna í nágrenni svæðisins meðal annars til þess að hvorki væru komnar fram fullnægjandi tillögur að aðgerðum til að lágmarka ónæði og hávaða né hafi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur framkvæmt nýjar hávaðamælingar. Vildu þeir einnig meina að starfsemi svæðisins samræmdist ekki aðalskipulagi Reykjavíkur og að bráðabirgðaheimildin væri ekki í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Umhverfis- og orkustofnun vildi hins vegar meina að skilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðaheimildar væru enn uppfyllt. Af svörum heilbrigðisnefndar Reykjavíkur við fyrirspurn stofnunarinnar vegna framkominnar beiðni um framlengingu bráðabirgðaheimildarinnar hafi verið ljóst að ekki væri tilefni til að breyta skilyrðum hennar. Þá hafi komið fram að vinna að fullnægjandi hljóðvörnum stæði yfir.

Í óleyfi

Hinir ósáttu landeigendur andmæltu þessum andsvörum Umhverfis- og orkustofnunar og bættu því meðal annars við að starfsemin hafi mikil og neikvæð áhrif á íbúa og landeigendur á svæðinu. Þrátt fyrir að Heilbrigðiseftirlitið hafi áform um að gera hljóðmælingar stangist það á við aðalskipulag þar sem kveðið sé á um að fara eigi í aðgerðir og mælingar áður en starfsleyfi séu gefin út. Vildu þeir enn fremur meina að skotsvæðið hafi verið starfrækt í óleyfi samkvæmt skipulagslögum frá 2010.

Skotfélag Reykjavíkur kom engum athugasemdum á framfæri vegna málsins.

Sólarhringsfrestur

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að beiðni frá Skotfélagi Reykjavíkur um framlengingu bráðabirgðaheimildar fyrir starfseminni hafi borist Umhverfisstofnun 17. desember 2024 (sem sameinaðist Orkustofnun um áramótin) en heimildin hefði ellegar runnið út 5. janúar 2025. Sé því ljóst að skammur tími hafi verið til að fara yfir umsóknina vegna frídaga um jól og áramót, ætti bráðabirgðaheimildin ekki að renna út.

Með auglýsingu á vefsíðu stofnunarinnar klukkan 13:04 2. janúar 2025 hafi verið tilkynnt að áformað væri að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotfélags Reykjavíkur. Þá hafi fylgt aug­lýsingunni afrit af þágildandi heimild sem og áformaðri framlengdri heimild. Frestur til að skila inn athuga­semdum hafi verið veittur til klukkan 12:00 degi síðar og hafi af hálfu Umhverfis- og orku­stofnunar verið upplýst að engar athugasemdir hafi borist á auglýsinga­tímanum. Kærendur hafi gert við það athugasemd að frestur til að koma að athugasemdum vegna áformanna hafi verið of knappur. Fellst nefndin á að innan við sólar­hrings­frestur til að koma að athugasemdum vegna auglýsingar sem eingöngu sé birt á vefsíðu opin­berrar stofnunar sé ekki til þess fallinn að ná markmiði sínu.

Nefndin segir hins vegar að þar sem bráðabrigðaheimildin hafi verið framlengd frá fyrra ári séu engin skilyrði í lögum um að veita skuli ákveðin frest til að skila inn athugasemdum. Á móti verði að miða við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að veita andmælarétt. Til þess sé þó að líta að hin kærða ákvörðun hafi takmarkast við breyttan gildistíma bráða­birgða­heimildar fyrir starfsemi og að um tímabundna ráðstöfun hafi verið að ræða sem eingöngu sé hægt að nýta einu sinni. Þá hafi kærendur átt þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum við nefndina. Eins og atvikum sé sérstaklega háttað og að teknu tilliti til eðlis hinnar kærðu ákvörðunar þyki hinn skammi frestur til að koma að athugasemdum ekki eiga að leiða til ógildingar hennar.

Ákvörðun Umhverfis- og orkustofnunar um að framlengja bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotfélags Reykja­víkur á skotsvæði félagsins á Álfsnesi stendur því óhögguð af hálfu nefndarinnar.

Hinir ósáttu landeigendur þurfa því að lifa á jörðum sínum við áframhaldandi skothvelli frá skotsvæði Skotfélags Reykjavíkur.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fjórir menn ákærðir fyrir að frelsissvipta og misþyrma unglingi – Var pyntaður með rafmagnsvopni

Fjórir menn ákærðir fyrir að frelsissvipta og misþyrma unglingi – Var pyntaður með rafmagnsvopni
Fréttir
Í gær

Margrét lengur í gæsluvarðhaldi

Margrét lengur í gæsluvarðhaldi
Fréttir
Í gær

Marjorie Taylor Green gagnrýnir Trump harðlega – „Ég er pirruð“

Marjorie Taylor Green gagnrýnir Trump harðlega – „Ég er pirruð“
Fréttir
Í gær

„Útlínur sigurs okkar eru nú þegar augljósar“ segir ráðgjafi Pútíns – En vikan verður Rússum erfið

„Útlínur sigurs okkar eru nú þegar augljósar“ segir ráðgjafi Pútíns – En vikan verður Rússum erfið