fbpx
Fimmtudagur 08.maí 2025
Fréttir

Umdeilt 200 milljóna króna listaverk á að rísa í Vestmannaeyjum

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 7. maí 2025 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Listaverk eftir myndlistarmanninn Ólaf Elíasson sem staðið hefur til að reisa á Eldfelli í Vestmannaeyjum, til að minnast loka eldgossin í Heimaey 1973, mun kosta bæinn og ríkissjóð samtals um 200 milljónir króna. Þar af fær fyrirtæki listamannsins um 88 milljónir sem verða þó greiddar í evrum. Verkið hefur verið umdeilt meðal Eyjamanna og kynningarfundur fyrr á árinu þar sem Ólafur var viðstaddur virðist ekki hafa dugað til að slá alfarið á ónægjuraddirnar en áformunum hefur verið mótmælt með undirskriftalista.

Eyjafréttir hafa birt samning milli Vestmannaeyjabæjar og fyrirtækis Ólafs, Stúdíó Reykjavík ehf, um gerð verksins. Í samningnum kemur fram að fyrirtækið fái samtals greitt 600.000 evrur í fjórum greiðslum, 88.020.000 íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Þurfti fjölmiðilinn að leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál eftir að bærinn neitaði að afhenda samninginn á þeim grundvelli að hann varðaði mikilvæga viðskiptahagsmuni fyrirtækis Ólafs.

Á síðasta ári var tilkynnt að ríkið myndi styrkja Vestmannaeyjabæ um 50 milljónir króna vegna gerðar verksins. Á þessi upphæð að fara í gerð göngustígs sem verður hluti af verkinu.

Samkvæmt frétt RÚV greindi Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá því á áðurnefndum kynningarfundi sem fram fór í mars síðastliðnum að kostnaðaráætlun bæjarins vegna verksins hljóðaði upp á 200 milljónir króna. Borgar þá bærinn væntanlega 150 milljónir en ríkið afganginn.

Umdeilt

Verkið hefur verið töluverðan tíma í vinnslu. Samþykkt var fyrst í bæjarstjórn Vestmannaeyja að reisa það árið 2022 en í millitíðinni hefur hönnun verksins staðið yfir sem og breytingar á aðalskipulagi bæjarins og gerð deiliskipulags fyrir Eldfell.

Áformin hafa verið umdeild í Eyjum bæði í bæjarstjórn og meðal íbúa. Meirihluti bæjarstjórnar hefur leitt málið áfram en minnihlutinn verið á móti. Þau sem andmæla áformunum vísa til kostnaðarins og þess rasks sem muni verða á fjallinu og umhverfinu i kringum það. Því hefur verið svarað með því að hin umhverfislegu áhrif verði afturkræf og við hæfi sé að minnast goslokanna með þessum veglega hætti nú þegar hálf öld er liðin frá þeim.

Verkið mun verða nokkuð umfangsmikið en samkvæmt viðauka við samning bæjarins og fyrirtækis Ólafs sem Eyjafréttir birta einnig samanstendur verkið af 8 metra breiðum palli og um 4 metra háu hvolfþaki. Verkið verður uppi á fjallinu en einnig verður hluti af því áðurnefndur göngustígur og einnig tröppur sem verða lagðar upp að verkinu.

Undirskriftalisti

Deilt var mjög um verkið á bæjarstjórnarfundi í Eyjum í upphafi ársins en á fundinum hafnaði meirihlutinn því að efna til könnunar meðal íbúa um hvernig þeim lítist á áformin, Sagði meirihlutinn það einfaldlega of seint þar sem búið væri að samþykkja í bæjarstjórn að reisa verkið og ganga frá samningum við ríkið og Ólaf.

Harðar deilur um listaverk sem komið verður fyrir á fjalli í Vestmannaeyjum

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja í lok síðasta mánaðar var tillaga að breyttu aðalskipulagi bæjarins vegna verksins samþykkt en umsagnarferli um hana var lokið. Sömuleiðis samþykkti ráðið tillögu að deiliskipulagi Eldfells. Meirihluti Eyjalistans og Fyrir Heimaey samþykkti en minnihluti Sjálfstæðisflokksins sat hjá.

Í fundargerð fundarins er þess getið að undirskriftalisti vegna málsins hafi borist í afgreiðslu ráðhúss bæjarins án þess að fram kæmu óskir um það í hvaða farveg hann ætti að fara. Hafi því verið tekin ákvörðun um að fjalla um hann við afgreiðslu málsins í umhverfis- og skipulagsráði. Um sé að ræða undirskriftalista með 602 nöfnum þar sem „fyrirhugaðri röskun á ásýnd Eldfells og tilheyrandi kostnaði við gerð listaverksins“ sé mótmælt.

Á kjörskrá í Vestmannaeyjum í alþingiskosningunum á síðasta ári voru 3.113 manns og því jafngildir fjöldi undirskrifta 19,5 prósent allra kosningabærra manna í bænum.

Í bókun sinni lýstu fulltrúar meirihlutans yfir ánægju með að íbúar sýndu verkinu svo mikinn áhuga. Ítrekuðu þeir að samkvæmt mati sérfræðinga væru umhverfisáhrif vegna verksins afturkræf. Segist meirihlutinn sannfærður um að verkið verði bænum til sóma.

Fulltrúi minnihlutans ítrekaði hins vegar í sinni bókun áhyggjur vegna verksins og tók undir með þeim sem skrifuðu nafn sitt á undirskriftalistann,

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Fundu skaðleg efni í pólsku skyri sem auglýst er sem íslenskt – Sveppaeitur og klórat

Fundu skaðleg efni í pólsku skyri sem auglýst er sem íslenskt – Sveppaeitur og klórat
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Engar eignir fundust í gjaldþrota félagi Gumma kíró – „Þetta er heil­mik­ill lær­dóm­ur“

Engar eignir fundust í gjaldþrota félagi Gumma kíró – „Þetta er heil­mik­ill lær­dóm­ur“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Marjorie Taylor Green gagnrýnir Trump harðlega – „Ég er pirruð“

Marjorie Taylor Green gagnrýnir Trump harðlega – „Ég er pirruð“
Fréttir
Í gær

„Útlínur sigurs okkar eru nú þegar augljósar“ segir ráðgjafi Pútíns – En vikan verður Rússum erfið

„Útlínur sigurs okkar eru nú þegar augljósar“ segir ráðgjafi Pútíns – En vikan verður Rússum erfið