Repúblikanar í Bandaríkjunum hafa lagt fram frumvarp í öldungadeildinni sem gæti gert klámefni ólöglegt á landsvísu. Frumvarpið ber heitið Interstate Obscenity Definition Act (IODA) og leggur til að efni sem sýnir nekt eða kynlíf án „bókmennta-, lista-, stjórnmála- eða vísindagildis“ verði bannað.
Flutningsmaður frumvarpsins er öldungadeildarþingmaðurinn Mike Lee frá Utah, en hann segir nauðsynlegt til að vernda börn og samfélagið allt gegn skaðlegum áhrifum kláms á netinu. Þetta er þriðja tilraun Lee til að fá slíkum lagabreytingum í gegn en þau myndu gera yfirvöldum kleift að refsa þeim sem framleiða eða dreifa slíku efni – sem gæti haft áhrif á samfélagsmiðlarisa eins og X.
Frumvarpið hefur vakið talsverða athygli og umtal, ekki síst vegna álitamála sem snúa að tjáningarfrelsi. Telja margir að bann við öllu klámefni gangi einfaldlega of langt, stangist við stjórnarskrárvarin réttindi og að slíkt bann myndi fæla yngri kjósendur frá Repúblikanaflokkum.
Talsvert veltur hins vegar á afstöðu Donald Trump, Bandaríkjaforseta, til málsins. Hann gaf í skyn stuðning við slíka löggjöf í kosningabaráttu sinni árið 2016 en óljóst þykir hvort að hann muni taka slaginn nú.
Trump hefur nefnilega lengi daðrað við klámiðnaðinn. Hann hefur meðal annars setið fyrir á forsíðumynd Playboy og þá opnaði hann nektardansstað í spilavíti sínu í Atlantic City árið 2013. Þá er ónefnt hneykslismál hans tengt klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels en Trump var, í stuttu máli, sakfelldur fyrir að greiða henni peninga til þess að þegja um kynlísfund þeirra árið 2006.