„Segið mér, og verið heiðarleg, er þetta ekki ríkisstuðningur?,“ spyr Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, í langri grein um íslenskan sjávarútveg og baráttu hans gegn fyrirhugaðri hækkun veiðigjalda.
Þórður rekur að það sé á brattann að sækja fyrir sægreifa enda sýni skoðanakannanir að íslenska þjóðin styður almennt leiðréttingu veiðigjalda. Útgerðin fari nú mikinn þar sem því sé haldið fram að íslenskur sjávarútvegur sé í samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg annarra þjóða.
Þórður tekur fram að þessi áróður sé að fara illa í landsmenn sem hafi farið ófögrum orðum um auglýsingar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Útgerðinni hafi misboðið þessi viðbrögð og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, formaður SFS, hafi kallað orðræðuna „svo ógeðfellda að mér býður við því“.
Þórður bendir á að það megi þó halda því fram að íslenska útgerðin hafi fengið mun meiri ríkisstyrk en þessar þjóðir sem hún vill nú bera sig saman við.
Árið 1983 hafi kvótakerfið verið innleitt og þar miðað við aflareynslu síðari þriggja ára. Kvótanum var svo úthlutað án endurgjalds. Síðar var útgerðinni heimilt að framselja kvótann sem leiddi til samþjöppunar. Tíu stærstu útgerðirnar fóru frá því að eiga 20% kvótans í að eiga 58%. Árið 1997 var útgerðinni svo heimilt að veðsetja aflaheimildir í lántöku. Þetta skapaði þær aðstæður að kvótaverðið fór á flug og hækkaði langt umfram raunverulegt verðmæti, svo mikið að Seðlabanki Íslands varaði við ofmati á kvótaverði.
Þetta hafi birst skýrt við efnahagshrunið 2008. Þá var eigið fé sjávarútvegs neikvætt um 80 milljarða og heildarskyldur við banka námu um 560 milljörðum. Við þessar aðstæður hefði íslenska ríkið getað innkallað veðsetta kvótann en ákvað að fara aðra leið. Pólitískt skipuð sáttanefnd ákvað að semja við flest sjávarútvegsfyrirtæki um aðlögun á lánum, vöxtum og afborgunum.
„Afskriftir ríkisbanka vegna þessa hlupu á tugum milljarða króna.“
Sáttanefndin lagði til að farið yrði í frekari úttekt á tengslum fyrirtækja í sjávarútvegi og að settar yrðu skýrari reglur um innbyrðis tengsl fyrirtækja. Eins að gerðir yrðu samningar um „nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr.“
Þannig fékk útgerðin afskriftir og að halda fyrirtækjum sínum gegn því að greiða veiðigjöld, samþykkja gagnsæi og með því að viðurkenna að íslenska þjóðin eigi auðlindina.
Þetta samkomulag hélst þó ekki í framkvæmd en Þórður bendir á að nánast strax hafi þáverandi ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, byrjað að innleiða frádrátt bókhaldslegra afskrifta og vaxtagjalda.
Þegar árið 2018 lá fyrir að gengisbreytingar væru að leiða til hækkunar veiðigjalda var farið í að endurskoða lögin til að koma í veg fyrir slíkt. Bókhaldstækni var beitt til að halda veiðigjöldunum eins lágum og unnt var.
Hefðu veiðigjöldin frá upphafi verið eins og þau áttu að vera hefði ríkið fengið um 75 milljarða í viðbótartekjur af þeim seinasta áratuginn. Þórður segir að sá peningur hefði getað gagnast við að vinna á innviðaskuld eða til að bæta þjónustu við landsmenn. En í staðinn fóru þessir milljarðar í vasa sægreifanna.
Þórður bætir við þetta að árið 2019 var ákveðið að færa makríl í kvóta án endurgjalds, en kvótinn var á þeim tíma metinn á 65-100 milljarða og fór að langmestu leyti til stærstu útgerða landsins.
„Þetta var launað með því að nokkrar stórútgerðir fóru í mál við ríkið og kröfðust yfir tíu milljarða króna í bætur vegna þess að þær fengu ekki nægilega mikinn kvóta. Eftir að fjölmiðlar upplýstu um bótakröfuna hættu þær allar við nema Vinnslustöðin og dótturfélag hennar Huginn. Það mál bíður nú þess að vera tekið fyrir í Hæstarétti.“
Við þetta má svo bæta að fleiri hundruð milljarðar skattpeninga hafa farið í uppbyggingu innviða sem sjávarútvegurinn nýtir. Svo sem í veitta þjónustu, uppbyggingu hafna og lagningu eða viðhald vega sem flutningabílar útgerðarinnar slíta meira en flestir aðrir án þess að borga fyrir í samræmi við allt slitið.
Þar með hafi íslenskur sjávarútvegur vissulega fengið ríkisstuðning. Hann fékk kvóta án endurgjalds, honum var gert heimilt að framselja kvótann og veðsetja hann, skuldir afskrifaðar eftir hrun, veiðigjöldin nánast strax lækkun, svo ókeypis makrílkvóti og loks í formi uppbyggingar innviða og þjónustu.
„Mér finnst ansi gaman af þessum málflutningi öllum saman og er þeirrar skoðunar að því meira sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og þingmennirnir þeirra harmakveina í fjölmiðlum, gegnum auglýsingar eða í pontu Alþingis, því fleiri sjá skýrt hversu mikið raunveruleikarofið er.
Að því sögðu þá viðurkenni ég að það er einn angi af málflutningi þessa sambræðings stærstu fyrirtækjanna í sjávarútvegi, fjölmiðlanna sem þau eiga og þingmannanna sem endurtaka talpunktana sem SFS fóðra þá sífellt af, sem ég á mjög erfitt með. Og það eru stærilætin um að á Íslandi hafi sjávarútvegur ekki fengið neinn ríkisstuðning á meðan að svo hátti um alla sem hann þurfi að keppa við úti í hinum stóra heimi.
Það má nefnilega halda því fram með góðum rökum að enginn sjávarútvegur í heiminum hafi fengið meiri meðgjöf frá ríkinu en sá íslenski.“