fbpx
Mánudagur 12.maí 2025
Fréttir

Kópavogsbær fer í hart gegn ríkinu – Minnihlutinn segist ekkert hafa fengið að vita um málið í rúmt ár

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 12. maí 2025 20:30

Mynd: Kopavogur.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samþykkt var á síðasta fundi bæjarráðs Kópavogs að stefna íslenska ríkinu til ógildingar á úrskurði innviðaráðuneytisins sem ógilti úthlutun bæjarins á fjölda lóða í götu í bænu sem hefur fengið nafnið Roðahvarf. Minnihlutinn í ráðinu segist hins vegar aldrei hafa fengið að vita að úthlutunin hafi verið kærð fyrir nærri ári síðan.

Úrskurðurinn var kveðinn upp 2. maí síðastliðinn. Fyrirtækið Öxar byggingafélags kærði til ráðuneytisins í júní á síðasta ári þá ákvörðun Kópavogsbæjar að synja því um úthlutun lóða og byggingarréttar að lóðunum Roðahvarfi 2-36 og 1-21 og samþykkja í staðin tilboð fyrirtækjanna Svörtu hamrar og Umbra.

Úrskurðurinn fylgir með fundargerð fundar bæjarráðs. Í honum kemur fram að Öxar hafi viljað meina að Kópavogsbær hafi ekki farið eftir eigin skilmálum um lóðaúthlutunina í veigamiklum atriðum og að jafnræðis hafi ekki verið gætt og því væri úthlutunin ólögleg.

Segir í niðurstöðu ráðuneytisins að af gögnum málsins sé ljóst að eftir að tilboðsfresti lauk 21. maí 2024 hafi Kópavogsbær kallað eftir frekari gögnum og/eða skýringum frá tilteknum bjóðendum, með vísan til 8. greina úthlutunarreglna sveitarfélagsins. Að mati ráðuneytisins hafi þau gögn sem sveitarfélagið kallaði eftir að loknum tilboðsfresti, svo sem fyrirvaralaus lánsloforð og staðfesting á skilum við lífeyrissjóði og opinberra aðila, verið gögn sem gerður var áskilnaður um að fylgja ættu með tilboði bjóðanda sem skila yrði fyrir 21. maí 2024, samkvæmt skýru orðalagi úthlutunarskilmála vegna úthlutunar þessara lóða.

Jafnt að vígi

Í niðurstöðunni segir enn fremur að sú meginregla gildi að allir sem uppfylli sanngjörn og eðlileg lágmarksskilyrði skuli standa jafnt að vígi þegar hið opinbera úthlutar takmörkuðum gæðum. Samkvæmt því eigi stjórnvöld að gæta jafnræðis við val á milli umsækjenda um slík gæði, auk þess sem valið verði að styðjast við málefnaleg sjónarmið. Þótt sveitarfélög hafi nokkurt svigrúm um það hvernig staðið sé að úthlutun lóða og byggingarréttar, verði þau að virða þessa meginreglu.

Ráðuneytið bendir á að í úthlutunarskilmálum fyrir lóðirnar segi að með tilboði skyldu lögð fram nánar tilgreind gögn, annars teldist tilboðið ógilt.  Í skilmálunum segi enn fremur að sé misræmi milli þeirra og almennra útlutunarreglna bæjarins skuli skilmálarnir gilda. Það þýði að þótt reglurnar segi að heimilt sé að kalla eftir frekari gögnum eftir að skilafrestur sé liðinn, gangi það ákvæði ekki framar skýrum ákvæðum úthlutunarskilmálanna um að tilteknum gögnum skyldi skilað með gerðu tilboði innan tilboðsfrests, annars teldist það ógilt.

Með því að veita tilteknum bjóðendum færi á að skila frekari gögnum eftir að tilboðsfrestur rann út hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Bjóðendur hafi mátt vænta þess að farið yrði eftir þessum ákvæðum úthlutunarskilmála. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi verið sömuleiðis brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar og úthlutunin sé þar með ólögmæt.

Komið af stað

Ráðuneytið hafði áður hafnað því að úthlutun lóðanna yrði frestað á meðan kæran væri til meðferðar. Í úrskurði þess kemur fram að fyrirtækin sem fengu þeim úthlutað, Svörtu humrar og Umbra, hefðu greitt öll gjöld. Bærinn hafi veitt ráðuneytinu þær upplýsingar að lóðarleigusamningar hefðu verið gerðir við fyrirtækin og byggingarréttargjöld innheimt og greidd. Gengið hafi verið frá þessum samningum í byrjun janúar 2025 og hafi þeim öllum verið þinglýst. Þá standi gatnagerð yfir á svæðinu og hafi lóðirnar átt að koma til afhendingar í apríl 2025. Þá taldi lögmaður sveitarfélagsins að miðað við gefna tímafresti ætti hönnun húsanna sem standi til að byggja á umræddum lóðum að vera langt komin.

Ráðuneytið segir ljóst að bæði fyrirtækin hafi verið í góðri trú. Þær ráðstafanir sem átt hafi sér stað af þeirra hálfu séu hins vegar ekki óafturkræfar. Hagnýting þeirra á þessari úthlutun sé ekki með þeim hætti að það mæli gegn ógildingu ákvörðunarinnar. Úthlutun lóðanna var því felld úr gildi.

Annmarkar

Þessa niðurstöðu ætlar meirihluti bæjarráðs Kópavogs, sem skipaður er fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, ekki að sætta sig við. Samþykkti hann að fela Ádísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra að undirbúa málshöfðun til að fá úrskurðinum hnekkt fyrir héraðsdómi. Segir í bókun meirihlutans að með vísan til hagsmuna Kópavogs og núverandi lóðarhafa eigi að láta reyna á gildi úrskurðarins fyrir dómi. Að mati óháðra lögfræðiráðgjafa megi færa rök fyrir því að úrskurðurinn sé haldinn verulegum annmörkum að formi og efni til.

Hverjir þessir annmarkar eru er ekki rakið í fundargerðinni. Segir í henni að lagt hafi verið á fundinum fram minnisblað frá lögmanni en það er ekki birt með fundargerðinni.

Hafi ekkert vitað

Fulltrúar minnihlutans í ráðinu, Viðreisnar og Vina Kópavogs, sátu hjá við atkvæðagreiðslu um málshöfðunina en sögðu í bókun, ásamt áheyrnarfulltrúum Pírata og Samfylkingarinnar, að minnihlutinn hefði aldrei verið upplýstur um að úthlutun lóðanna hefði verið kærð.

Minnihlutinn segir að úrskurður innviðaráðuneytisins sýni alvarlegar afleiðingar þess fyrir Kópavogsbæ að vanda ekki vinnubrögð og gæta lagaskilyrða. Það séu fulltrúum minnihlutans ný tíðindi fyrir að þessar lóðaúthlutanir Kópavogsbæjar hafi verið kærðar til ráðuneytisins í júní 2024 og bæjarráð hafi engar  upplýsingar fengið um meinbugi á málsmeðferð. Öllu máli skipti að vanda viðbrögðin og lágmarka tjón Kópavogsbæjar.  Nauðsynlegt sé að kortleggja tiltæk úrræði sem fyrst og leita leiða til að ljúka málinu svo fljótt sem kostur sé. Að lokum er áréttuð beiðni um að bæjarráð, sem eigi að hafa lögbundið eftirlit með stjórnsýslu bæjarins, fái öll gögn málsins á næsta fundi, þar með talið fundargerðir og minnispunkta frá störfum úthlutunarnefnda.

Hvort fulltrúar í bæjarráði fái þess gögn afhent á hins vegar eftir að koma í ljós.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Ætla að byggja ofan á Sóltún með gamla fólkið inni – Skelfilegur hávaði mun valda heilabiluðu fólki miklum ótta

Ætla að byggja ofan á Sóltún með gamla fólkið inni – Skelfilegur hávaði mun valda heilabiluðu fólki miklum ótta
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Þingmenn Samfylkingar vilja ekki mæta í þátt Stefáns Einar – Hann telur Þórð Snæ vera að hefna sín

Þingmenn Samfylkingar vilja ekki mæta í þátt Stefáns Einar – Hann telur Þórð Snæ vera að hefna sín
Fréttir
Í gær

Gaseldavélar geti aukið hættu á krabbameini tvöfalt meira hjá börnum en fullorðnum

Gaseldavélar geti aukið hættu á krabbameini tvöfalt meira hjá börnum en fullorðnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leigubílstjóri skildi tvær konur eftir úti í hrauni í kolniðamyrkri – „Það er ekki hlaupið að því fyrir ferðamenn að leita réttar síns eftir svona“

Leigubílstjóri skildi tvær konur eftir úti í hrauni í kolniðamyrkri – „Það er ekki hlaupið að því fyrir ferðamenn að leita réttar síns eftir svona“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fékk inni á gistiheimili en lendir aftur á götunni á morgun – „Ég vona að Sanna hafi ekki verið að segja ósatt“

Fékk inni á gistiheimili en lendir aftur á götunni á morgun – „Ég vona að Sanna hafi ekki verið að segja ósatt“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ingólfur Valur Þrastarson vann skaðabótamál á hendur ríkinu vegna handtöku

Ingólfur Valur Þrastarson vann skaðabótamál á hendur ríkinu vegna handtöku