Efling og Morgunblaðið hafa löngum eldað grátt silfur saman og engin breyting hefur orðið á því í dag á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Upplýsingafulltrúi Eflingar gagnrýnir harðlega framsetningu fréttar á vef blaðsins, Mbl.is., af þeirri staðreynd að greiða þurfti aðgangseyri til að komast á fjölskylduskemmtun félagsins sem haldin verður síðar í dag þegar útifundi á Ingólfstorgi lýkur.
Fyrirsögn fréttarinnar er „Efling rukkaði inn á fjölskylduskemmtunina“ en fréttin er afar stutt. Þess er getið að skemmtunin er haldin á Hvalasafninu á Granda og greiða hafi þurft 500 krónur fyrir aðgöngumiða.
Freyr Rögnvaldsson upplýsingafulltrúi Eflingar sem hefur sjálfur starfað við blaðamennsku er ekki sáttur við þessa framsetningu Morgunblaðsins og fer ekki í grafgötur með það á samfélagsmiðlum:
„Mikið óskaplega er þetta smámannleg fyrirsögn hjá Mogganum. Miðinn inn á fjölskylduhátíð Eflingar kostaði litlar 500 krónur en allt sem í boði er á hátíðinni er innifalið. Og það er ekki lítið.“
Síðan telur Freyr upp það helsta sem er í boði fyrir þessar 500 krónur en eins og áður segir kom ekkert fram um það í frétt Morgunblaðsins.
Í boði verða meðal annars pizzur, hamborgarar, kleinuhringir, popp, ís, kandífloss, tónlistarflutningur, sirkus, myndabás, andlitsmálning fyrir börn og fleira.
Þess er heldur ekki getið í fréttinni að miðar á skemmtunina voru seldir í forsölu til félagsfólks í Eflingu og fjölskyldna þeirra og var uppselt fyrir tveimur dögum.
Mörgum sem rita athugasemd við færslu á Facebook-síðu Mbl þar sem fréttinni er deilt þykir ekki mikið til fréttaflutningsins koma. Sem dæmi má nefna eftirfarandi:
„Þetta er svakalegt!!! Veit Hallgrímur Helga þetta!?“
„Frétt, það var að berast frétt.“
„Gúrkutíð hjá Mogga.“