

Héraðsdómur Vestfjarða hefur sakfellt tvo menn fyrir brot á fíkniefnalögum en brotin voru framin í Súðavík og næsta nágrenni. Fram kemur í dómnum að hluti fíkniefna sem mennirnir höfðu í vörslu sinni og ætluð voru til sölu og dreifingar hafi verið falin í húsnæði björgunarsveitarinnar sem er skammt frá þorpinu.
Annar mannanna var ákærður fyrir þrjú mismunandi brot en hinn fyrir eitt sem mennirnir frömdu í sameiningu.
Sá fyrrnefndi var í fyrsta lagi ákærður fyrir að hafa í vörslu sinni árið 2023 á heimili sínu í Súðavík fíkniefni sem ætluð voru til sölu og dreifingar.
Þetta voru í fyrsta lagi maríúana, amfetamín, kannabislauf og kannabisstönglar. Magn efnanna var misjafnt en mest var maðurinn með af maríúana, 172,9 grömm. Í öðru lagi var maðurinn með nokkur efni í töfluformi, alls 125 stykki. Þetta voru alprazolam krka, concerta, MDMA, mogadon og stilnoct.
Þar að auki var maðurinn með í fórum sínum í þetta skipti um 730 grömm af efni sem í dómnum er sagt óskilgreint og 33 stykki af óskilgreindum töflum og læknislyfjum.
Báði mennirnir voru síðan ákærðir fyrir að hafa árið 2024 haft í fórum sínum fíkniefni sem ætluð voru til sölu og dreifingar. Maðurinn sem framdi fyrrnefnda brotið hafði flutt efnin í vörubifreið til Vestfjarða en efni fundust í bifreiðinni og þar að auki á heimili mannsins sem og í húsnæði björgunarsveitarinnar sem mun vera staðsett á Langeyri sem er skammt frá sjálfri Súðavík, en tilheyrir þorpinu þó, en hinn maðurinn hafði flutt þau þangað.
Í vörubifreiðinni fundust um 10 grömm af amfetamíni og svipað magn af ketamíni. Þar að auki fundust 10 millilítrar af kannabisblönduðum vökva, 50 stykki af MDMA töflum og 24 stykki af læknislyfjum.
Í björgunarsveitarhúsinu fannst mest magn efna í þetta skipti en um var að ræða 288,1 gramm af maríúana.
Loks fundust 0,28 grömm af amfetamíni og 2,22 grömm af maríúana á heimili mannsins sem flutti efnin til Vestfjarða og framdi brotið árið 2023.
Maðurinn sem braut þrisvar af sér var loks ákærður fyrir að hafa síðar á árinu 2024 í vörslu sinni þrjá millilítra af kannabisblönduðum vökva.
Í dómnum kemur fram að mennirnir hafi játað brot sín skýlaust.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að við ákvörðun refsingar yfir manninum sem braut þrisvar af sér sé ekki horft til fyrri sakaferils hans. Horft sé einnig til játningar hans og að hann hafi reynst samvinnufús við rannsókn málsins. Á móti verði að líta til þess að magn fíkniefnanna sem hann hafi ætlað að selja hafi verið töluvert. Því þótti við hæfi að dæma hann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Þegar kom að refsingu hins mannsins var horft til sömu þátta, fyrir utan magn efnanna, en á móti þess að þáttur hans í málinu hafi verið minni háttar en eins og áður segir var hans þátttaka fólgin í því að fela 288 grömm af maríúana í húsnæði björgunarsveitarinnar. Var hann dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi.
Upplýsingar um staðsetningu björgunarsveitarhússins í Súðavík í fréttinni hafa verið uppfærðar eftir að ábendingar bárust um að sveitin hefði flutt skömmu áður en málið kom upp og að misskilja mætti því fréttina.